Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 119/1989, um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Auk mín eru flm. hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og Ólafur G. Einarsson.
    Þetta frv. er ákaflega einfalt. Í 1. gr. þess segir að síðari málsl. 17. gr. laganna skuli felldur brott. Í 17. gr. laganna sem samþykkt voru í desember sl., um breytingu á virðisaukaskattslögunum, segir að breytingarnar skuli taka gildi 1. jan. á þessu ári nema undanþágan er varðar íslenskar bækur. Sú undanþága á ekki að koma til framkvæmda fyrr en 16. nóv. nk. Með því að fella niður síðari málsl. 17. gr. laganna og ákveða með 2. gr. að lög þessi öðlist gildi 1. sept. nk. tekur undanþágan gildi frá og með þeim degi.
    Til að rifja upp í örstuttu máli efnisatriði þessa frv. vil ég segja frá því að þegar frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt voru til umræðu hér á hinu háa Alþingi fyrir jól komu fram brtt. um sama efni og hér er verið að ræða um. Í Ed. komu fram tvær tillögur um að breyta dagsetningunni í 17. gr. í 1. sept. 1990 og voru þær báðar felldar. Í Nd. komu fram tvær brtt., önnur frá sjálfstæðismönnum um að breyta dagsetningunni í 1. sept., hin frá Kvennalistanum um að breyta dagsetningunni í 16. sept. og voru þær tillögur báðar felldar.
    Sjálfstfl. og Kvennalistinn ásamt frjálslyndum hægrimönnum greiddu atkvæði með brtt. en stjórnarliðið undantekningarlaust, ef ég man rétt, greiddi atkvæði gegn brtt. Það má vera, virðulegur forseti, að hér sé farið á ystu nöf um túlkun á þingskapalögum með því að flytja þetta frv. sem efnislega er það sama og þær till. sem felldar voru fyrr á þessu þingi. En eftir að hafa kannað það mál var talið rétt að láta á það reyna, enda er þetta frv. orðað með öðrum hætti en þær brtt. sem fram komu á sínum tíma.
    Í framsöguræðu hæstv. fjmrh. með stjfrv. um breytingu á virðisaukaskattslögunum sagði hann að ekki væri talið rétt að láta niðurfellinguna hafa áhrif á tekjuforsendur fjárlaga á yfirstandandi ári. Þannig háttar til að ætlunin er að einungis þær tekjur sem falla til vegna álagningar virðisaukaskatts frá 16. nóv. til 31. des. komi til greiðslu á næsta ári. Talsmenn stjórnarandstöðunnar bentu hins vegar á í umræðunum hér á Alþingi að bókakaup skólafólks ættu sér fyrst og fremst stað í byrjun septembermánaðar þegar skólahald hefst almennt í framhaldsskólum landsins. Með því að hafa gildistöku undanþáguákvæðisins hinn 16. nóv. væri viss hætta á því að nemendur geymdu sér kaup á íslenskum bókum fram til 16. nóv. Þetta hefði í för með sér þann ókost að hafa áhrif á skólahaldið og þar með nám nemendanna. Hins vegar yrði ríkissjóður af þeim tekjum sem annars hefðu komið ef virðisaukaskattur héldi áfram að vera á íslenskum bókum um ótiltekinn tíma.
    Ástæðan fyrir því að ráðist var í að flytja þetta frv. nú er ekki einungis sú að fjölmargir nemendur í

framhaldsskólum landsins hafa sent hv. Alþingi og einstökum hv. alþm. erindi þessa efnis, heldur miklu fremur hin að einn þeirra sem stóðu að því að fella tvær brtt. sem fluttar voru hér í hv. Nd. hefur nýlega lýst því yfir að hann telji eðlilegt að þingið beiti sér fyrir því að þetta verði leiðrétt. Til að gera frekari grein fyrir því, virðulegur forseti, við hvern er hátt, þá er átt við hv. 16. þm. Reykv. Ásgeir Hannes Eiríksson sem boðaði til fundar fyrir skömmu að Hótel Borg til að tilkynna hvar í litrófi íslenskra stjórnmála hann hefði ákveðið að hasla sér völl á næstu missirum. Á þessum fundi var hann spurður af einum af fulltrúum nemenda, nánar tiltekið fulltrúa Iðnskólans í Reykjavík, hvað hann vildi segja um þetta undanþáguákvæði og gildistökuna hinn 16. nóv., hvort hann teldi eðlilegt að gildistökuákvæðinu yrði breytt. Það vildi svo til að ég hlustaði á útvarp sem útvarpaði beint frá þessum fundi, útvarp frá Aðalstöðinni í Reykjavík. Ég aflaði mér útskriftar frá þeirri útvarpsstöð og orðrétt segir hv. þm., með leyfi forseta: ,,Mér finnst eðlilegt að þingið beiti sér fyrir því að þetta verði leiðrétt.``
    Í trausti þess, virðulegur forseti, að eins sé farið með aðra hv. þm. en hv. 16. þm. Reykv. úr liði stjórnarliðsins er þetta frv. flutt. Við teljum, í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið í framhaldsskólum landsins, bæði meðal kennara og nemenda, fulla ástæðu til þess að láta á það reyna hvort fleiri stjórnarliðar en hv. þm. Ásgeir Hannes séu tilbúnir að breyta afstöðu sinni. Slíkt virðist vera útgjaldalítið fyrir ríkissjóð þar sem gera má ráð fyrir að flestir námsmenn fresti bókakaupum og að skólahaldi verði hagað með þeim hætti að reynt verði að draga kennslu í þeim kennslugreinum þar sem það er hægt, þar sem íslenskar bækur, frumsamdar eða þýddar á íslensku, eru notaðar við kennsluna.
    Mér þykir leitt, virðulegur forseti, að sá hv. þm. sem hér á í hlut skuli ekki vera hér í kvöld. Hann hefur verið manna iðnastur við að flytja tillögur hér á hinu háa Alþingi, sumar góðar, aðrar verri. Hann hefur hingað til ekki þurft að standa við orð sín utan þingsins. Þar hefur hann látið ýmislegt
flakka um þau málefni sem hér eru til umræðu. Hér í kvöld hefði honum gefist tækifæri til að taka til máls, endurtaka þá yfirlýsingu sem hann svo skörulega flutti á Hótel Borg, hér í næsta húsi sem kannski einhvern tíma síðar verður í eigu Alþingis. Hann hefur ákveðið að sleppa því tækifæri og þegja. Vonandi veit það á gott, veit það á það að í hans huga hljómar máltækið að þögn sé sama og samþykki.
    Að þessum orðum loknum, virðulegur forseti, mælist ég til þess að þetta frv. verði sent hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar og því vísað til 2. umr.