Virðisaukaskattur
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það þarf vart að taka það fram að kvennalistakonur styðja það frv. sem hér er flutt, svo ötullega sem þær hafa barist gegn skatti á bækur, sérstaklega námsbækur. Til að skýra aðeins nánar hversu langan tíma kvennalistakonur hafa haft áhyggjur af þessum skatti þá lagði hv. 6. þm. Vesturl. Danfríður Skarphéðinsdóttir fram fsp. til fjmrh. á 111. löggjafarþingi um það hversu miklar tekjur ríkissjóður hefði af söluskatti á bókum og gagnrýndi hún á hvern hátt námsbækur væru skattlagðar. Fljótlega eftir það, á því sama þingi, lögðu þingkonur Kvennalistans í Ed. fram frv. til laga um breytingu á lögum um söluskatt, sem þá voru í gildi, um að námsbækur yrðu undanþegnar. Í greinargerð með því frv. sögðu þær, með leyfi forseta: ,,Það er nánast einsdæmi meðal þjóða að lagður sé söluskattur á námsbækur. Niðurfelling hans mundi draga verulega úr kostnaði nemenda við kaup á námsbókum, jafna möguleika þeirra til náms og lækka hlut bókakostnaðar við útreikning á framfærslu þeirra nemenda sem njóta námslána.``
    Því miður hlaut þetta frv. ekki stuðning og kom aldrei til atkvæðagreiðslu í þinginu. En ef ég man rétt voru þeir sem þetta mál flytja nú í stjórnarmeirihluta þá og því miður treystu þeir sér ekki til að styðja þetta frv. kvennalistakvenna.
    Eins og fram kom í máli hv. 1. flm. fluttu kvennalistakonur einnig brtt. við frv. til laga um virðisaukaskatt hér fyrr í vetur um að dagsetningu yrði flýtt á þeim undanþáguákvæðum sem sett voru inn í frv. um að námsbækur, eða reyndar allar bækur, skyldu undanþegnar virðisaukaskatti. Í nál. kvennalistakvenna kemur m.a. fram þar sem talað er um skatt á námsbækur, með leyfi forseta:
    ,,Í frumvarpinu er lagt til að sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra, verði undanþegin virðisaukaskatti. Er það vel og getur 2. minni hl. stutt þá tillögu, enda í samræmi við brtt. sem þingkonur Kvennalistans fluttu við frv. til laga um virðisaukaskatt. Þó er sá galli á gjöf Njarðar að þessu ágæta ákvæði er ekki ætlað að taka gildi fyrr en 16. nóv. 1990. Það kemur illa niður á námsfólki sem þarf að kaupa námsbækur sínar í september. Endurnýta má sumar bækur, en þó er ávallt tekið upp nýtt námsefni og hætt er við að margir nemendur, einkum þeir efnaminni, bíði með bókakaup þar til eftir miðjan nóvember.``
    Síðan skýra þær að flutt er brtt. í samræmi við þetta, að þessari dagsetningu verði flýtt til 1. sept. en eftir að frv. kom hingað til Nd. var þeirri dagsetningu breytt í samræmi við uppgjörstímabil virðisaukaskattsins til einföldunar í uppgjöri. Þess vegna var dagsetningunni breytt.
    Það getur komið sér mjög illa fyrir námsmenn að geta ekki keypt sínar bækur þegar skólar hefjast því mjög líklegt er að flestir spari það við sig. Getur það kostað að helmingurinn af önninni sé ónýtur. Margir hafa komið að máli við kvennalistakonur sem og aðra

þingmenn og lýst því hversu áhyggjufullir þeir eru gagnvart þessu. Kennarar hafa einnig lýst áhyggjum sínum vegna þessarar ráðstöfunar, að virðisaukaskattur skuli ekki vera felldur niður af bókum fyrr en í nóvember.
    Ég endurtek því að við styðjum að sjálfsögðu þetta frv. og vonum að það fái skjóta afgreiðslu og það þurfi ekki að tefjast eða því verði hafnað út af einhverjum formlegheitum eins og 1. flm. virtist gefa í skyn að hann óttaðist.