Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 10. apríl 1990


     Flm. (Friðrik Sophusson):
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Flm. auk mín er hv. þm. Ingi Björn Albertsson. Þetta frv. fjallar um nýtingu eða færslu persónuafsláttar við fráfall maka. Í lögum um tekju- og eignarskatt segir orðrétt í 64. gr., með leyfi forseta:
    ,,Á sama hátt`` --- þá er vitnað til þess sem á undan fer í greininni --- ,,er eftirlifandi maka heimilt að telja fram allar tekjur sínar og hins látna maka á andlátsári hans í samræmi við ákvæði 63. gr.``
    Í þessu frv. er um það að ræða að breyta þessu ákvæði. Í stað þess að tiltaka andlátsárið er fremur tiltekinn ákveðinn tími og hér er gerð tillaga um fulla níu mánuði. Ástæðan fyrir þessu er auðsæ. Það skiptir verulegu máli fyrir hinn eftirlifandi hvenær makinn deyr. Gerist það í janúar er hægt að nýta persónuafsláttinn í tæpa tólf mánuði. Verði dauðsfallið hins vegar í desember er ekki hægt að nýta þessa ívilnun tekjuskattslaganna nema í nokkra daga. Á sínum tíma hafði þetta ákvæði tiltölulega litla þýðingu en með breytingu á lögum, þegar yfirfæranlegur persónuafsláttur hækkaði, fór þetta ákvæði að hafa verulega þýðingu.
    Að sögn mun vera misjafnt eftir skattumdæmum landsins hvernig skattstjórar túlka þetta ákvæði. Í sumum tilvikum er tekið tillit til þess þegar maki fellur frá seint á árinu með því að nýta sér heimild í 66. gr. tekjuskattslaganna þar sem segir að skattstjóri skuli taka til greina umsókn manns um lækkun tekjuskattsstofns þegar þannig stendur á að ellihrörleiki,
veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol manns verulega. Þetta er þó misjafnt eftir skattumdæmum eins og ég sagði og þessi samverkandi ákvæði valda þess vegna því að réttur eftirlifandi maka til að nýta persónuafslátt verður misjafn.
    Fyrr á þessu þingi spurðist hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir fyrir um þetta mál. Í svari hæstv. fjmrh. kom fram, í 4047. dálki í þingtíðindum, hinn 22. febr. sl., að hann teldi kominn tíma til þess að kanna rækilega hvort ekki eigi að breyta reglunum á þann veg að heimildin gildi óháð því hvenær andlát eigi sér stað innan ársins. Orðrétt sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Ég sé í sjálfu sér enga sanngirni í því að heimildin til að nýta persónuafslátt styttist eftir því hvenær á árinu fráfall makans verður.`` Síðan bætti hæstv. ráðherra við orðrétt: ,,Ég hef því ákveðið að láta vinna í fjmrn. og hjá ríkisskattstjóra athugun á þessu máli og tillögur um breytingar á umræddu lagaákvæði og mun innan tíðar gera Alþingi og ríkisstjórn grein fyrir þeim tillögum.``
    Í þessari umræðu um fyrirspurn hv. þm. Kolbrúnar Jónsdóttur, sem Hreggviður Jónsson flutti reyndar þar sem Kolbrún er varaþingmaður, kom fram að sá sem hér stendur hafði þá þegar beðið ríkisskattstjóraembættið um að forma tillögu þessa

efnis vegna þess að fyrir lá dæmi um óréttlæti í þessu efni. Í umræðunum kom fram að allir þeir sem tóku þátt í þeim voru sammála um að breytingar væri þörf. Þegar búið var að vinna viðkomandi lagafrv., en í því var gert ráð fyrir að heimildin tæki til fullra tólf mánaða, hafði ég samband við hæstv. fjmrh. Hann taldi þá að þessi tími væri fulllangur, ekki síst vegna þess að ríkissjóður mundi tapa verulegum upphæðum. Hann taldi jafnvel að ríkissjóður mundi tapa 100 millj. kr. ef heimildin ætti að vera í tólf mánuði. Um það efast reyndar flestir aðrir því, eins og ég hef fyrr sagt í mínu máli, margir skattstjórar hafa tekið tillit til versnandi gjaldþols með því að beita 1. tölul. 66. gr. laganna. Eigi að síður varð ég við ósk hæstv. ráðherra að stytta tímann og gerði ég að tillögu minni að níu mánuðir mættu líða þannig að eftirlifandi maki nyti ónýtts persónuafsláttar. Ég held að óhætt sé að láta það koma hér fram að ég taldi að hæstv. ráðherra hefði samþykkt þá tillögu mína en í frekari viðtölum við hann kom í ljós að svo var ekki. Reyndar var málið þannig vaxið og svo langt komið í sameiginlegum meðförum okkar að það frv. sem hér liggur fyrir er samið af lögfræðingi fjmrn. og einnig greinargerðin að langmestu leyti. Hæstv. ráðherra vildi að heimildin yrði aðeins nýtanleg í sex mánuði en flm. og aðrir sem um þetta mál fjölluðu töldu að af því væri nánast enginn ávinningur.
    Í greinargerð með frv. segir m.a. að í því sé lagt til að þessum reglum verði breytt þannig að allir njóti sama réttar, óháð því hvenær maki falli frá.
    Þetta var að sjálfsögðu ætlun flutningsmanna en við nánari skoðun á frv. kemur í ljós að svo verður ekki ef frv. verður samþykkt óbreytt vegna þess að orðalag frv. er þannig að þeir sem eiga maka sem fellur frá á fyrstu þremur mánuðum ársins munu hafa meiri rétt en hinir eða allt frá níu til tólf mánaða. En þeir sem eiga maka sem fellur frá á síðari hluta ársins eða síðari níu mánuðunum hafa allir sama rétt samkvæmt frv. Þetta voru, virðulegur forseti, mistök af okkar hálfu sem áttu sér skýringu í því að upphaflega var gert ráð fyrir fullum tólf mánuðum í frv. en fyrsti texti frv. var saminn, eins og ég hef áður sagt, að minni beiðni af einum lögfræðinga
ríkisskattstjóraembættisins. Ég taldi hins vegar ástæðulaust að láta prenta frv. upp. Sjálfur á ég sæti í þeirri hv. nefnd sem fær þetta mál til meðferðar og get hæglega skýrt frá þessum mistökum þar. Mjög auðvelt er að leiðrétta þetta frv. þannig að samræmis gæti ef hv. nefnd vill afgreiða málin með þeim hætti.
    Ég vil enn á ný leggja áherslu á að í greinargerðinni segir að hámarkstekjutap ríkissjóðs gæti orðið 50 millj. kr. á verðlagi ársins 1990. En ástæða er til að rengja þær upplýsingar, þótt þær séu komnar frá ábyrgum opinberum aðilum, vegna þess að skattstjórar sumra skattumdæma hafa gripið til þess sjálfsagða ráðs að beita fyrir sig reglunni í 1. tölul. 66. gr. laganna.
    Það er ekki ástæða til þess, virðulegur forseti, að orðlengja frekar um þetta frv. að svo stöddu. Hér er augljóst sanngirnismál á ferðinni, mál sem löggjafinn

hlýtur að láta til sín taka eftir að lögunum var breytt á sínum tíma og ónýttur persónuafsláttur varð flytjanlegur á milli hjóna og sambúðarfólks með þeim hætti sem nú tíðkast.
    Ég vil síðan í lok þessarar ræðu minnar óska eftir því að þetta mál verði sent virðulegri fjh.- og viðskn. deildarinnar og frv. jafnframt vísað til 2. umr.