Sveitarstjórnarlög
Miðvikudaginn 11. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Eins og fram kemur á þessu nál. þá er ég samþykkur því að frv. verði að lögum. Hins vegar vildi ég skýra aðeins þennan fyrirvara sem ég setti. Ég skýrði frá því við 1. umr. málsins að mér kæmi á óvart afstaða Sambands ísl. sveitarfélaga vegna þess að þeir hefðu lagt til þá breytingu sem var gerð á núgildandi lögum 1986 og var lögð áhersla á það að gerð yrði sú breyting frá fyrri lögum að einvörðungu yrði miðað við aðalmenn sem tækju sæti í bæjarráði eða hreppsráði, sem er í minni sveitarfélögum. Ég vildi fá skýringu á því hvers vegna þessi stefnubreyting hefði verið gerð. En svarið sem kom frá Sambandi ísl. sveitarfélaga til nefndarinnar fjallaði ekki um það heldur aðeins að þeir hefðu samþykkt að frv. yrði lagt fram. Það var ekkert efnislegt svar og mér þótti rétt að láta það koma hér fram í framhaldi af þeirri athugasemd sem ég gerði. En að öðru leyti styð ég þessa breytingu, ég sé ekkert athugavert við hana fyrst litið er svo á að sveitarfélögin séu því samþykk.