Fíkniefnaneysla unglinga
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn og ráðherra fyrir ágæt svör. Hér er um að ræða mál sem brennur á fjölmörgum foreldrum og heimilum og þyrfti raunar miklu meiri umræðu hér á hv. Alþingi en unnt er á þeim litla tíma sem fyrirspurnum er ætlaður. Mig langar til að skjóta inn í þessa umræðu örfáum orðum.
    Baráttan gegn fíkniefnum er auðvitað heil keðja sem samanstendur af fjölmörgum hlekkjum sem allir þurfa að vera sterkir og vafalaust þarf alla að styrkja. Ráðherra gerði eðlilega mjög að umræðuefni hlut dómsmrn., eftirlit og löggæslu, sem enginn vafi er á að þarf að vera mjög traustur og styrkur þannig að þegnar landsins geti treyst á að innflutningur eigi sér ekki stað, framboð sé takmarkað og þar fram eftir götunum. Mig langar í þeim fáu setningum sem ég má segja hér í þessu sambandi, virðulegi forseti, til að leggja áherslu á annan þátt sem eru sjálfar forvarnirnar. Einmitt þegar kemur að börnum í skóla og framhaldsskólunum þá skipta forvarnirnar gríðarlega miklu máli. Það hefði verið ástæða til að menntmrh. væri hér og velti þeim málum fyrir sér. Það er enginn vafi á því að fræða þarf foreldra miklu meira um þessi mál og heimilin almennt. Foreldrar gera sér ekki grein fyrir því nægilega snemma hvað er að ske. Þeir þekkja allt of oft ekki áhrif þessara efna og vita kannski ekki hvað um er að ræða fyrr en of seint. Þarna vantar fræðslu.
    Að mínu viti hafa skólarnir brugðist í þessu máli. Skólarnir hljóta að vera sá vettvangur sem á að fræða æskulýð þessa lands um hvað hér er í húfi. Á mjög athyglisverðum fundi í Gerðubergi í Breiðholti nú fyrir stuttu upplýsti ungur framhaldsskólanemi að öll þau ár sem hann hefði verið í skóla, sem eru hreint ekki fá, hefði heildarfræðsla sem hann hefur fengið um fíkniefni numið hálfri klukkustund. Og það gefur auga leið með tilliti til þeirrar alvöru sem hér er á ferðinni að skólakerfið tekur þetta mál engan veginn þeim tökum sem þarf. Ég held að við þurfum að taka það alveg sérstaklega fyrir hér og þingmenn að beita sér fyrir því að inn í skólana verði tekin mjög aukin fræðsla um fíkniefni og áhrif þeirra. Á skal að ósi stemma, er oft sagt en einmitt þar, að fræða unglingana um alvöruna, skortir gríðarlega á og ég vil beinlínis halda fram að skólarnir hafi brugðist í þessu efni.