Fíkniefnaneysla unglinga
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Inga Birni Albertssyni fyrir þessa fsp. og hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans. Þetta mál brennur mjög á stórum hópi fólks í dag og enginn vafi er á því að þetta er vaxandi vandamál. Ég hef áreiðanlegar upplýsingar um aukna dreifingu fíkniefna í skólum. Því er nauðsyn að taka á þeim málum með skjótum hætti og ég vil taka undir það sem hv. 10. þm. Reykv. sagði í því sambandi.
    Þá vil ég minna á það að ég flutti fsp. um það hvort setja ætti lög um eignaupptöku á eignum eiturlyfjasala á Íslandi og vil beina því til dómsmrh. hvort hann muni ekki gera svo.
    Þá vil ég í þessu mikilvæga máli einnig beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort hann muni ekki flytja lagafrv. um að herða viðurlög og auka fjárframlög til að koma í veg fyrir fíkniefnaneyslu og dreifingu. Og í þriðja lagi óska ég að dómsmrh. íhugi það og kanni hvort ekki sé rétt að beita sér fyrir því að birtar séu ljósmyndir af dæmdum eiturlyfjasölum í fjölmiðlum.