Fíkniefnaneysla unglinga
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið hér um að það þarf ekki síst að hyggja að forvörnum í þessum málum. Í því sambandi langar mig aðeins að benda á að starfsfólk unglingadeilda, unglingaheimila og sálfræðideilda skóla hefur í vaxandi mæli beint sjónum að samskiptamynstri og hegðunarmynstri barna og unglinga innan skóla. Á því tekur raunar ,,Lionsquest``-námsefnið að nokkru leyti en einnig er ábyrgð starfsfólks sem starfar í skólum og hefur mikil samskipti við börn og unglinga mikil. Það er í aðstöðu til að koma auga á ef í óefni er að koma. Það hefur sýnt sig að þau börn og unglingar sem leiðast helst út í eiturlyfjaneyslu eru oft og tíðum börn sem hafa orðið t.d. fyrir einelti og aðkasti í skóla.
    Ég vil nota tækifærið hér og minna á till. til þál. sem við kvennalistakonur höfum lagt fram um átak gegn einelti. Þar er verið að benda á eina leið af mörgum sem þarf að líta á þegar verið er að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í.