Fíkniefnaneysla unglinga
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör hans og einnig þeim sem tekið hafa þátt í umræðunni og undirstrikað með mér mikilvægi þessa máls. Auðvitað fagna ég því að fundaherferð, fræðsla og frekari kynning sé að fara í gang og tek undir þær raddir sem hvetja til enn frekara forvarnarstarfs en nú er haft í frammi. Ég fagna einnig því sem fram kom hjá ráðherra að nú eigi allir lögreglumenn í raun að standa á vakt og enginn verði látinn í friði, hvort heldur er um að ræða fíkniefnaneytanda eða fíkniefnasala. Eins og ég sagði hér í fyrri ræðu minni tel ég að lögregluaðgerðir eigi að beinast fyrst og fremst að því að stöðva framboðið því að með því að stöðva framboðið hlýtur neyslan að minnka.
    Ég vil sjá það sem allra fyrst að tekið verði miklu fastar á þessum málum, fíkniefnasalar verði teknir og þeirra málum verði virkilega hraðað í gegnum kerfið. Og þegar sekt er sönnuð fari þessir menn umsvifalaust í fangelsi. Það verði engin miskunn þar. Og ég vil ganga skrefi lengra. Ég vil líka taka fíkniefnaneytendur og ég vil loka þá inni strax og næst í þá, hvar sem er. Ég tel að það mundi benda þeim á þá áhættu sem þeir taka með því að neyta eiturlyfja ef þeir vita að þeir eiga yfir höfði sér t.d. viku fangelsisvist fyrir að vera staðnir að verki. Ég hygg að unglingar muni hugsa sig um tvisvar áður en þeir leggja út í slíkt.
    Og ég vil jafnvel ganga enn lengra. Ég vil gefa þessum neytendum kost á því að semja við lögin. Gefi þeir upp dreifingaraðilann losni þeir við þessa viku eða þennan tiltekna tíma sem þeir eiga að sitja inni. Þannig eigum við að leita allra ráða, bæði til að finna dreifingaraðilana og söluaðilana og einnig til þess að koma í veg fyrir þá fíkniefnanotkun sem nú er í gangi.
    Ég vil að lokum taka undir það sem hv. þm. Hreggviður Jónsson sagði, að ég er ansi smeykur um að umfangsmikil dreifing og sala sé í skólum landsins í dag og þá sérstaklega hérna á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel að ekki megi horfa fram hjá þeirri staðreynd.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, þakka ég þá umræðu sem hér hefur orðið en ég tel að til þess að ræða svona mál í botn þurfi miklu lengri tíma en fyrirspurnaformið gefur okkur.