Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Öllum er kunnur sá niðurskurður sem varð á vegafé og vegaframkvæmdum á síðasta ári undir forustu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Þá var það fé sem aflaðist vegna sérmerktra tekjustofna Vegagerðar ríkisins skorið niður um 682 millj. kr. og sú fjárhæð látin renna beint í ríkissjóð. Það er líka kunnugt að á þessu ári stendur til að skerða vegafé og vegaframkvæmdir frá því sem gert var ráð fyrir í vegáætlun, sem afgreidd var hér 20. maí sl., um 754 millj. kr.
    Í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar hefur því verið um mjög mikinn niðurskurð á vegaframkvæmdum að ræða. Hluta af þeirri skerðingu sem stendur til að fram komi á þessu ári mun væntanlega verða reynt að bera uppi af lánsfé. Lánsfé sem þá kemur til greiðslu á komandi árum.
    Undir þessum kringumstæðum flytur hæstv. ráðherra hér till. til þál. um að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum. Það er að sjálfsögðu vel, eins og hér hefur komið fram, ef hægt er að flýta framkvæmdum. Ég tek í mörgum greinum undir það sem hér hefur komið fram bæði hjá hæstv. ráðherra og hv. 4. þm. Vestf. um það mikla hagræði sem af flýtingu verka hlýst og hvað það hefur mikið gildi að tengja saman þær byggðir á Vestfjörðum sem hlut eiga að máli. Þetta virðist eiga að gera með þeim hætti að í stað þess, sem vegáætlun segir fyrir um, að hefja framkvæmdir 1992 skuli hefja framkvæmdir 1991 og ljúka þeim á fjórum árum í stað sjö ára.
    Allt er þetta vel en kveður þó við nýjan tón miðað við fyrri athafnir hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra í vegamálum. Það verður þó að gera sér grein fyrir því að allt er þetta spurning um fjármagn. Í tillgr. er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni verði heimilað að taka lán á árunum 1990 til 1994, allt að 1300 millj. kr., samkvæmt nánari ákvæðum sem sett verða í lánsfjárlög hverju sinni. Þar er einnig kveðið á um að vextir og lántökukostnaður vegna slíkra lána verði greiddur úr ríkissjóði sem sérstakt byggðaframlag. Ég vil í sjálfu sér lýsa yfir stuðningi við það ákvæði till. Vegna þess að hér er öðrum þræði og kannski fyrst og fremst um sérstaka byggðaframkvæmd að ræða eins og glögglega hefur komið fram.
    Ég vil hins vegar segja það að í grg. með tillögunni eru þessi mál ákaflega lítið skýrð. Og skýringar urðu engu betri í ræðu hæstv. ráðherra sem var að meginhluta upplestur grg. sem tillögunni fylgir. Þar eru til að mynda engar fjárhæðir nefndar um framkvæmdakostnað í heild eða á hverju ári sem stafa af þessari tillögu. Ekki er rakið hvaða fjárhæðir bætast við vegáætlun á hverju ári framkvæmdatímans. Þar er engin grein gerð fyrir því hvernig flýting verka á jarðgöngum kemur niður á öðrum verkefnum, þar á meðal á Vestfjörðum. Og nú sagði hv. 4. þm. Vestf. að til þessa yrði aflað sérstaks fjármagns sem þýddi að það kæmi alls ekki niður á öðrum verkum.
    Ég vitna til þess að í grg. tillögunnar segir, með

leyfi forseta: ,,Til að unnt sé að vinna þetta verk á 4-5 árum í stað 7 þarf annaðhvort að hækka verulega framlag úr vegasjóði meðan á framkvæmdum stendur eða afla fjár með öðrum hætti.`` Ekki er nú fastar að orði kveðið. Það er sem sé allt í lausu lofti. ,,Á þessu ári þarf þó aðeins að leysa lánsfjárþörf að upphæð 47 millj. kr. Miðað er við að fjárhæðin verði tekin inn á fjáraukalög fyrir árið 1990 nú á komandi hausti.`` Af hverju ekki að taka þessa fjárhæð inn á fjáraukalög sem nú eru til meðferðar á hv. Alþingi?
    En um fjármögnun málsins er þarna eins losaralega að orði komist og mögulegt er. Og það má kannski segja að það sé bjartsýni og vonandi að sú bjartsýni, sem fram kemur hjá hv. 4. þm. Vestf., geti átt sér síðar stað í raunveruleikanum, að til komi sérstakt fjármagn sem ekki muni skerða aðrar framkvæmdir í landinu, hvorki á Vestfjörðum eða annars staðar. En eins og þetta er sett fram þá er í rauninni mjög hæpið að það geti staðist. Og engin grein er gerð fyrir því hvort önnur verk eða hvaða önnur verk verða þá að þoka að sama skapi. Það er t.d. engin grein gerð fyrir því hvernig Vestfirðir fara að því að standa straum að sínum hluta, að því að leggja fé á móti þessum framkvæmdum sem eru stórverkefni, fé af sínum kvóta úr hinu almenna vegafé. Við afgreiðslu vegáætlunar fyrir ári síðan var mótuð sú regla að hlutaðeigandi kjördæmi skyldi leggja fram 20% kostnaðar við jarðgangagerð og 35% kostnaðar við brúargerð, teljist þessi verkefni til stórverka.
    Miðað við þá flýtingu sem hér er á ferðinni í jarðgöngum og miðað við það að á sama tíma er verið að brúa Dýrafjörð, þá hygg ég að það verði ærið þröngt fyrir Vestfirðinga að standa straum að sínum hluta af þessu fé og gæti jafnvel farið svo að engin önnur verk í vegamálum yrðu þar í gangi eða gætu verið. En það er ekki nokkur einasta grein gerð fyrir þessu í tillögunni eða grg. með henni og engar upplýsingar í ræðu hæstv. ráðherra, eins og hann hafi ekki hugleitt þetta.
    Ég hlýt því að segja það að mörgum spurningum er ósvarað um þetta mál. Spurningum sem hlýtur að verða að spyrja í fjvn. undir meðferð málsins ef ekki koma fram svör hér. Ég kasta ekki rýrð á það að hér er um byggðapólitískt mál
og þýðingarmikið mál að ræða og það er gott að geta komið þessu máli áfram og það er gott að geta komið hér fram ýmsum öðrum slíkum málum sem þýðingu hafa fyrir byggðirnar í landinu. En menn verða að gera sér grein fyrir því að það kostar peninga. Og menn verða að gera sér grein fyrir því að þegar slík mál eru flutt þá á að gera grein fyrir því hvernig peninganna skuli aflað. Hér er á ferðinni mál, eins og mörg önnur mál af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, þar sem settar eru fram tillögur og málatilbúnaður hafinn um útgjöld úr ríkissjóði sem engin grein er gerð fyrir hvernig eigi að fjármagna en koma til greiðslu þegar þessi hæstv. ríkisstjórn er farin frá.