Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Umræður um samgöngumál eru að þessu sinni ánægjulegar þar sem þeir sem hér hafa talað hafa allir lagt á þau áherslu þó það sé misjafnt eftir því hvar þeir eru búsettir á hvað þeir hafa horft í því sambandi. Um leið og ég lýsi stuðningi við þessa þáltill. fagna ég því að Vestfirðingar fengu fyrir stuttu síðan bætta tengingu við Snæfellsnes með tilkomu nýrrar ferju sem gengur á milli Stykkishólms og Brjánslækjar. Það eru stórir atburðir að gerast þegar slík þróun á sér stað sem þar hefur orðið. Og ég vil jafnframt þakka þeim fyrrv. samgrh. sem unnu að því að gera hana að veruleika. Ég vil bæta því við að sú ákvörðun, sem tekin var við seinustu vegáætlun, að fara í jarðgangagerð á Vestfjörðum var mjög stór ákvörðun og tímamótaákvörðun. Ég fagna því jafnframt að sá samgrh. sem tók við hefur ekki viljað hægja á ferðinni hvað þetta snertir heldur auka ferðina. Við Vestfirðingar hljótum vissulega að fagna í þeim efnum.
    Ég ætla samt sem áður að telja upp nokkur stórverkefni sem eru enn eftir á Vestfjörðum þó þetta sé unnið. Dýrafjarðarbrúin er verkefni sem hafist verður handa um af fullum krafti í sumar en byrjað var á í fyrrasumar. Í brúarframkvæmdum er Dýrafjarðarbrú eftir, þarf að koma brú yfir Gilsfjörð, eins og hefur komið fram hjá hv. 2. þm. Vesturl. og ég þakka honum fyrir hans orð þar um. Ég lít svo á að því verði ekki slegið á frest að fara í þá brúargerð þegar Dýrafjarðarbrúnni er lokið. Ég minna jafnframt á það að um leið og jarðgöngin eru orðin að veruleika og brú yfir Dýrafjörð verður þá búin að vera í nokkur ár þá er það ekkert vafaatriði að íbúar norðursvæðisins munu horfa með nokkrum öfundaraugum til þess möguleika að komast til Brjánslækjar lengri tíma á ári en þeir komast í dag. Í því sambandi er það Rafnseyrarheiðin sem fyrst og fremst hindrar því snjóflóðahætta er mikil á því vegarstæði sem er og kallar á stórframkvæmdir að koma þar á eðlilegri lausn. Dynjandisheiðin aftur á móti er heiði sem hægt er með lagfæringum á vegi að halda opinni ef vegur þar væri nægilega vel byggður og nútíma snjómoksturstækjum beitt.
    En það er einnig rétt að taka fram, af því að menn hafa í þessari umræðu hlaupið um landið þvert og endilangt til að finna staði þar sem benda mætti á að vegir séu lokaðir alllengi, eins og við Mjóafjörð, að Árneshreppurinn á Vestfjörðum er lokaður á hverju ári vetrarmánuðina hér um bil alla. Og hreppurinn er nú eitt af þeim svæðum sem áhugamenn um fagra náttúru munu sækja heim í vaxandi mæli á næstu árum því náttúrufegurð er einstök þar norður frá. Ég hygg að undan því verði ekki vikist að láta á það reyna hvort hægt sé að flýta því að gera þar sumarfæran veg. Ég segi sumarfæran veg því ég lít ekki á það sem sumarfæran veg ef menn geta ekki ferðast sumartímann eftir veginum á fólksbílum án þess að eiga á hættu að stórskemma bílana.
    Allt leiðir þetta hugann að því hversu mikið við

Íslendingar eigum ógert í samgöngumálum. Sé skoðað hversu langt við erum komnir á sumum sviðum í þjónustu og stutt á öðrum þá blasir við að við erum sennilega komnir lengst allra þjóða á sviði heilbrigðismála ef tryggingakerfið og heilbrigðiskerfið eru sett í einn pakka, svo langt að það er spurning hvort við rísum undir því í framtíðinni. En við erum mjög stutt komin í vegamálum. Sé þetta borið saman við áherslupunkta hjá Rómverjum hinum fornu, áherslupunkta um í hvað eigi að verja fjármunum, stangast þetta allillilega á. Þeir trúðu því nefnilega að Rómaveldi yrði aldrei stærra en það svæði sem þeir legðu vegi um. En einhvern veginn virðist það vera svo að allmargir Íslendingar trúi því að Ísland geti orðið stærra en það landsvæði sem við leggjum vegi um. Ég held að svo sé ekki. Ég held að kenning Rómverjanna sé rétt.
    Ef menn ekki treysta sér til að leggja nothæfa vegi um ákveðna hluta þessa lands þá eru menn jafnframt að taka ákvarðanir um að það svæði tilheyri ekki Íslandi í framtíðinni. Þá eru menn að taka ákvarðanir um að það verði spurning hvort Sameinuðu þjóðirnar eða einhver slíkur aðili óski eftir því að fá viðkomandi svæði fyrir flóttamenn og muni leggja til fjármuni til þess að koma þar upp því sem til þarf svo það verði byggilegt. Ég held að þetta sé kannski meira í brennidepli en margir ætla því eitt af stærstu vandamálum okkar tíma er það hvað á að gera við þá stóru hópa manna sem í dag eru geymdir bak við gaddavírsgirðingar og enginn vill hafa á sínu landi á þessum hnetti.
    Menn hafa verið nokkuð þungorðir í garð núv. ríkisstjórnar fyrir að hafa ekki nýtt sér að fullu heimildir til að hækka bensín og hækka þungaskatt. Ég tek vissulega undir það að ég tel að við þurfum að verja meiri fjármunum til vegamála en ég held aftur á móti að sú stefna sé rétt að lækka þungaskattinn. Ég held að það sé ekki sanngjarnt gagnvart þeim byggðarlögum sem þurfa að búa við það að flytja mestallan sinn varning með vörubifreiðum að þeir sitji uppi með þær greiðslur á sínu vöruverði sem þungaskatturinn hefur verið. Ég held að menn hafi verið komnir þar yfir mörkin í eðlilegri skattheimtu.
    Nú glymur bjallan og það er ekkert vafaatriði hverjum hún glymur. Ég ætla því ekki að hafa mál mitt lengra en þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. samgrh. fyrir að hafa lagt þessa till. fram til þál.