Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Jón Kristjánsson:
    Virðulegur forseti. Ég lýsi stuðningi við það mál sem er til umræðu. Ég tel að aðstæður séu hinar verstu á Breiðadals- og Botnsheiði og það sé full ástæða til að leggja þar jarðgöng og mest aðkallandi hér á landi nú. Um það er enginn ágreiningur, þar á meðal á Austurlandi þar sem menn hafa líka áhuga á jarðgangagerð á stöðum sem erfiðir eru yfirferðar að vetrarlagi.
    Sú tillaga sem hér um ræðir gerir ráð fyrir að flýta skuli framkvæmdum við fyrirhugaða jarðgangagerð á Vestfjörðum umfram það sem áformað er samkvæmt fyrirliggjandi vegáætlun. Ég hlýt að undirstrika það við þessa umræðu að ég tel að samþykkt tillögunnar feli í sér að flýtt sé jarðgangagerð almennt.
    Ég styð tillöguna heils hugar en hún hlýtur að þýða þetta. Hún hlýtur jafnframt að þýða það, ef Alþingi samþykkir hana, að vegamál og samgöngumál eiga að fá aukið vægi í opinberum framkvæmdum á næstunni. Við erum satt að segja með vegáætlun í höndunum til endurskoðunar og höfum ekki neitt áþreifanlegt í þeim efnum, síður en svo. Við höfum orðið að ganga í það verk að skera niður vegáætlun og sá niðurskurður er, ef ég man rétt, yfir 700 millj. frá því áætlað var í fyrra. Ef við eigum að endurgreiða þær lántökur á vegáætlun næstu ára er óhjákvæmilegt að við verðum að leggja meira fé til þessara mála en við höfum gert. Ég álít að samþykkt tillögunnar sé ásetningur í því efni. Og samþykktin sé ásetningur í því að halda áfram jarðgangagerð í landinu og láta þráðinn ekki slitna.
    Með því fororði styð ég tillöguna en ég vil taka fram að ég tel þá röð sem hér er sjálfsagða og eðlilega og styð Vestfirðinga af heilum hug í því að vera næstir í röðinni hvað jarðgangagerð snertir. Eigi að síður komumst við ekki hjá því að líta á fjármögnun næstu ára í þessum efnum og við verðum að tillögunni samþykktri að leggja meira fé til vegagerðar en við höfum gert.