Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal eyða litlum tíma þar sem komið er fram yfir þann tíma sem má ræða þetta mál. Því miður gat ég ekki verið hér þegar það var til umræðu fyrr í dag en mig langar aðeins til að segja örfá orð í sambandi við þessa þáltill.
    Hún er að sjálfsögðu eðlileg miðað við þann vanda sem það fólk, sem á þessu svæði býr, á við að eiga og alltaf er að koma betur og betur í ljós og ætti náttúrlega að vera löngu kunnugt, það er eiginlega óviðunandi samgönguleysi við þennan mikilvæga landshluta eins og oft hefur verið rætt á hv. Alþingi. Þó er verið að reyna að bæta um að hluta til núna með veg yfir Breiðafjörð, þar sem nýja ferjan er, sem leysir einhvern hluta vandans. Þess vegna get ég sagt það hér að ég hef jákvætt viðhorf til þáltill. Hins vegar vil ég segja það, af því að talað er um að leysa eigi úr þessu vandamáli inni í fjvn., að vandinn er náttúrlega mjög stór og fyrirferðarmikill þar sem hér er um mál að ræða sem kosta milljarða eins og hefur komið fram. Í þeirri vegáætlun sem nú er í gildi er ekki gert ráð fyrir því fjármagni sem þarf að koma til. Þess vegna hefði verið æskilegt að með tillögunni fylgdi raunhæf áætlun um það hvernig með skuli farið þar sem hér er um að ræða fjármagn utan við vegáætlun.
    Ég vildi aðeins segja, út af því sem kom fram áður og ég heyrði hjá hæstv. ráðherra, að það var alveg ljóst að sú ákvörðun að taka stórverk inn í vegáætlunina á þann hátt sem lá fyrir í vegáætluninni sem samþykkt var á sl. ári kallaði á að það væri alveg 100% tryggt að fjármagnið sem þar var áætlað skilaði sér inn í áætlunina. Og undir þessi stórverk, sem ég þarf ekki að lýsa, heyrir Stór-Reykjavíkursvæðið m.a. sem kallar á miklar fjárhæðir til framkvæmda. Hv. 1. þm. Reykv. kom aðeins inn á það áðan að vandamálið er náttúrlega enn þá meira fyrir það að við ákvörðun um fjárlög á þessu ári var ákveðið að skera vegáætlun niður um 700 millj. Þar af leiðandi er miklu
vandasamara að átta sig á því hvaða aðferð verður notuð til að tryggja þessa flýtingu sem ég geri ráð fyrir að flestir hér inni séu í raun og veru sammála.
    Af því að hæstv. ráðherra var að halda að ég mundi fara að tala um Borgarfjarðarbrú o.s.frv. þá vil ég bara nefna það hér að það er ekkert smámál sem Vestfirðingar standa frammi fyrir. Þeir eru að byggja brú yfir Dýrafjörð þar sem þeir verða að leggja fram af sínu vegafé, yfir heildina, 37% og síðan þessi jarðgangagerð sem kallar á, samkvæmt reglum um vegamál, 20% af framlagi Vestfirðinga. Okkur, sem erum aðilar með Vestfirðingum að annarri tengingu við Vestfirði, þ.e. vegi eða brú yfir Gilsfjörð, hrýs hugur við því hvernig í ósköpunum á að framkvæma þessar aðgerðir með framlagi Vestfirðinga eftir venjulegum reglum sem standa undir vegáætluninni.
    Það sem ég vildi segja er aðeins það að ég vil undirstrika enn betur það sem ég hef alltaf haldið fram frá því ég kom fyrst inn á Alþingi, að miða yrði

stórframkvæmdir í vegagerð hér á Íslandi við erlenda hagstæða lántöku. Öðruvísi yrði ekki hægt að standa undir þeim. Og þetta kemur einnig fram núna þegar hæstv. ráðherra nefnir sem eitt aðaláhersluatriðið í þessari breytingu að þetta eigi ekki að hafa áhrif á aðra vegagerð í landinu. Það eykur enn á vandann. Ég vil bara nefna þetta hér til að benda á hvað þetta er stórt mál og þó ýmislegt furðulegt hafi komið inn í umræðurnar um fjármögnun til vegagerðar leynir það ekki vandanum sem Alþingi stendur frammi fyrir, að ákveða hvernig á að fjármagna þessar gífurlegu framkvæmdir. Við erum ekki að tala um hundruð milljóna heldur milljarða víðs vegar um landið. Allir eru sammála um að samgönguleysið sé ein mesta fyrirstaðan fyrir eðlilegri byggðaþróun í landinu. Eitt hættulegasta málið sem við stöndum frammi fyrir er það ef íbúar heilla landshluta eiga að lifa það ár eftir ár að vera marga mánuði lokaðir inni og hafa ekki eðlilega möguleika á að ferðast um okkar ágæta land. Þess vegna er málið stórt.
    Ég get skotið því hér inn í að ég geri ráð fyrir að verðgildi Borgarfjarðarbrúarinnar sé í dag eitthvað um 1,5--1,6 milljarðar kr. Auðvitað urðu Vestlendingar að taka það á sig þá, af því að ráðherra var sérstaklega að spyrja eftir því. Á því tímabili sem hún var í byggingu var annað vegafé til Vesturlands ekki nema 4--5% meðan aðrir landshlutar fengu á bilinu 16--20%. Svona liggja dæmin og ég veit að þetta mál tengist ákvörðun um hvað á að gera í sambandi við fjármögnun á þessum stórframkvæmdum á Vestfjörðum, sem við erum allir sammála um, en það verður að taka öðruvísi á þessu máli en þannig að Vestfirðingar leggi til 20% eða 37% í Dýrafjarðarbrú. Þeir hafa þá ekkert í aðra vegagerð á Vestfjörðum, sem gengur ekki upp. Þar af leiðandi held ég að tími sé kominn til að í umræðunni um þessi mál liggi það ljóst fyrir að ef við ætlum að standa við allar þessar ákvarðanir í vegamálum, þar á meðal stórvirki á Reykjavíkursvæðinu sem er ekki hægt að skorast undan, þá þýðir ekkert að tala um það að við ætlum að láta duga til þess 4--5 milljarða tekjur Vegasjóðs, sem er hámark þess sem fæst af skattlagningu á eldsneyti til bifreiða í okkar fámenna landi, við náum aldrei lengra. Og hvernig ætlum við þá að fjármagna aðgerðir sem þarf að flýta víðs vegar um land, bæði fyrir
austan og vestan og hér á þessu svæði, um marga milljarða öðruvísi en að gera okkur grein fyrir því að það verður að finna aðrar leiðir til langtímafjáröflunar?
    Það var eiginlega þetta sem ég vildi segja hér út af því sem ég heyrði í endinn hjá hæstv. ráðherra. Þetta er stærra vandamál en svo að menn geti lokað augunum fyrir því að finna verður lausn á því.