Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Hv. 1. þm. Suðurl. beindi til mín fyrirspurn varðandi horfur í fjármögnun til jarðgangagerðar á Vestfjörðum. Eins og fram hefur komið hjá hæstv. samgrh. er það skoðun ríkisstjórnarinnar að gerð jarðganga á Vestfjörðum sé ekki aðeins verkefni á sviði samgangna heldur sé þar einnig um að ræða mjög brýnt verkefni í byggðamálum. Vestfirðir eru og hafa verið mikilvægur þáttur í gjaldeyrisöflun okkar Íslendinga og um nokkuð langt skeið hafa þar verið miklir erfiðleikar í byggðamálum. Það er ljóst að jarðgöng milli Ísafjarðar, Suðureyrar og Flateyrar ásamt brú yfir Dýrafjörð muni tengja þennan hluta Vestfjarða saman í eina atvinnuheild, eina félagsheild og eina menningarheild. Þess vegna var það okkar skoðun að skynsamlegt væri að verja hluta af því fjármagni sem ætlað er til byggðamála á næstu árum til þess að flýta jarðgöngum á Vestfjörðum.
    Kostnaður vegna þess að jarðgangagerðinni verður flýtt verður þess vegna að hluta til, samkvæmt þeirri þáltill. sem hér er til umræðu, borin uppi af sérstöku framlagi úr ríkissjóði sem við lítum á sem byggðaframlag og verður tekið með hliðsjón af framlagi á næstu árum til byggðamála í heild sinni. Við höfum á undanförnum tveimur árum lagt verulega fjármuni til þess að varðveita og styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni. Sem betur fer eru horfur á því að atvinnulífið á landsbyggðinni muni styrkjast á þessu ári og hinum næstu. Við það ætti eðlilega að skapast svigrúm í ríkissjóði til þess að verja hluta af því byggðafjármagni, sem ella hefði verið varið til þess að bjarga atvinnulífinu úti um land, til annarra verkefna.
    Hv. 1. þm. Suðurl. spurði sérstaklega að því hvort horfur væru á því að þannig yrði svigrúm í ríkisfjármálunum á næstu árum til þess að standa undir kostnaði við flýtinguna og ég er þeirrar skoðunar að svo eigi að vera, m.a. vegna þess að ég hef trú á því að okkar hagkerfi sé á uppleið á nýjan leik og þannig séu þeir miklu erfiðleikar sem verið hafa í ríkisfjármálunum á undanförnum árum að mestu að baki. En það er auðvitað undir því komið líka að menn stilli útgjaldakröfum sínum í hóf á öðrum sviðum og séu sjálfum sér samkvæmir í því að veita byggðaverkefnum af þessu tagi algeran forgang.
    Annar kostnaður við flýtingu jarðganganna verður borinn uppi af tekjum til vegagerðar á þeim áratug sem er nýhafinn og ætti þess vegna að samrýmast eðlilegri skipan þeirra mála. Ég held þess vegna að ekki sé óraunhæft að miða við það að á næstu árum sé eðlilegt svigrúm innan ríkisfjármálanna til þess að standa straum af þessu verkefni ef það verður skoðun Alþingis á næstu árum, eins og yrði skoðun þessa þings ef þessi þáltill. yrði samþykkt, að jarðgöng á Vestfjörðum séu eitt mikilvægasta byggðaverkefnið á Íslandi. Ef aftur á móti næstu þing verða annarrar skoðunar getur auðvitað orðið erfitt að uppfylla þær fjárhagsskuldbindingar sem í þáltill. felast. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að Alþingi átti sig á því

að með því að samþykkja þessa þáltill. er ekki aðeins verið að ákveða verkefni á sviði samgangna heldur einnig eitt helsta forgangsverkefnið í byggðamálum á Íslandi á næstu árum. Ég vona að þetta hafi varpað nokkru ljósi á það vandamál sem hv. 1. þm. Suðurl. velti eðlilega fyrir sér í umræðunni hér áðan.