Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hæstv. samgrh. var heldur seinheppinn þegar hann í ræðu sinni fór að gera samanburð á verklegum framkvæmdum í samgöngumálum. Á árinu 1987 var lagt bundið slitlag á yfir 300 km. Á þessu ári eru horfur á að ekki verði lagt bundið slitlag á nema 100--150 km. Það afrek sem hann hefur unnið frá því að hann varð samgrh. er sem sagt þetta, að framkvæmdir við að leggja bundið slitlag hafa verið skornar niður sem þessu nemur. Þær voru tvöfalt meiri á því ári sem hann tók hér til viðmiðunar.
    Það var líka athygli vert í ræðu hæstv. samgrh. að hann sagði: Ég frábið mér að ræða hér í eins konar eldhúsdagsumræðum um fjármögnun þessara framkvæmda. --- Það er algjört aukaatriði af hálfu hæstv. ráðherra. Hann frábiður sér, telur það vera eldhúsdag eða einhverja ómerkilega umræðu og lýsir því hvaða hugur fylgir máli þegar hæstv. samgrh. gefur slíkar yfirlýsingar.
    Mér skilst að sá fjármögnunarvandi sem menn eru hér að tala um sé álíka mikill og hæstv. ríkisstjórn hefur skorið niður í framlögum til vegamála á tveimur undangengnum árum. Og auðvitað skilur maður að það vefjist svolítið fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera grein fyrir hvernig á að fjármagna þetta í þessu ljósi. Það var hæstv. núv. forsrh. sem í frægri ræðu í janúar 1988 á Hótel Sögu gerði fyrstur alþingismanna kröfu um það að hafinn yrði verulegur niðurskurður í samgöngumálum og núv. hæstv. ríkisstjórn undir hans forustu hefur efnt það hugsjónamál Framsfl.
    Ræða hæstv. fjmrh. var líka athygli verð. Hann segir í fyrsta lagi að þetta eigi að fjármagna af þeim tekjum sem ella hefðu farið til byggðamála og í öðru lagi af því fjármagni sem ella hefði farið til annarra byggðamála og í þriðja lagi af almennum tekjum Vegasjóðs. Með öðrum orðum lýsir hæstv. fjmrh. því hér yfir í umræðunni að þetta eigi að takmarka aðrar vegaframkvæmdir í landinu þvert ofan í yfirlýsingar hæstv. samgrh. og þvert ofan í yfirlýsingar
þeirra stjórnarþingmanna sem hér hafa talað sem meira að segja hafa haldið því fram að þetta sé ávísun á það að flýtt sé öðrum framkvæmdum. Þá kemur hér yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. sem gengur þvert á allar þessar yfirlýsingar. Það er auðvitað nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. geri nánari grein fyrir þessum yfirlýsingum. Hvaða framkvæmdir eru það í vegamálum sem á að skerða af þessum sökum og hvaða framlög til almennra byggðamála eru það sem skerðast eiga af þessum sökum? Menn verða auðvitað að taka afstöðu til þessara mála í heild en þegar yfirlýsingar af þessu tagi liggja fyrir er nauðsynlegt að allar upplýsingar séu lagðar hér á borðið.
    Hæstv. fjmrh. orðaði það svo að hann teldi að það yrði meira svigrúm til fjárframlaga úr ríkissjóði vegna þess að staða atvinnufyrirtækja væri betri nú. Það er að sönnu rétt að gengi krónunnar var nokkuð lækkað á síðari hluta síðasta árs, það kom að því að hæstv. ríkisstjórn áttaði sig á því, og verðlag á afurðum hefur hækkað mjög verulega á erlendum mörkuðum og af

þeim sökum standa útflutningsgreinarnar nokkuð betur að vígi en áður. En við skulum huga að því að aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar voru allar með þeim hætti í þágu atvinnuveganna að taka erlend lán og veita þeim í gegnum millifærslusjóði og það er ekki fyrr en þessi ríkisstjórn er öll eftir næstu kosningar sem þeir víxlar fara að falla á ríkissjóð. Það hefur tiltölulega litlu fjármagni verið varið beint úr ríkissjóði enn sem komið er í þessu efni. Við sjáum hins vegar milljarða á milljarða ofan sem munu falla á ríkissjóð þegar þessi ríkisstjórn er öll af þessum sökum. Svigrúmið mun þess vegna fyrst takmarkast í ríkissjóði þegar þessir víxlar fara að falla. Við vitum af tveimur milljörðum í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins sem ríkissjóður þarf að taka á sig og við höfum séð skýrslu Ríkisendurskoðunar um þá milljarða sem munu falla á ríkissjóð vegna hinna tveggja millifærslusjóðanna. Það er þess vegna alveg þveröfugt við það sem hæstv. fjmrh. segir sem mun gerast. Svigrúmið mun fyrst takmarkast fyrir ríkissjóð til að taka á þessu máli þegar þessir víxlar fara að falla.
    Það hefur með öðrum orðum komið í ljós að ærin ástæða var til þess að fá hæstv. fjmrh. hingað og það hefur komið á daginn að hér tala ráðherrarnir út og suður. Það kom á daginn að ástandið á milli hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. í ríkisstjórninni er með svipuðum hætti og í Alþb. þar sem formaður Alþb. styður ekki framboð flokksins en varaformaðurinn styður það. Í ríkisstjórninni í samgöngumálum segir hæstv. fjmrh. að fjármagna eigi tillögur hæstv. samgrh. með því að skerða aðrar framkvæmdir í byggðamálum og aðrar framkvæmdir í vegamálum, en hæstv. samgrh. segir að hér eigi að vera um að ræða hreina viðbót. Það er einnig komið í ljós að á þessu sviði er vík á milli vina og hjá því verður auðvitað ekki komist að hæstv. ríkisstjórn geri nánari grein fyrir þessu. Eins og málið stendur eftir ræðu hæstv. fjmrh. er augljóst að tillaga hæstv. samgrh. er sýndarmennska ein. Hann hefur ekki getað leyst það verkefni sem máli skiptir, að sýna fram á að hægt sé að fjármagna þessar framkvæmdir. Það er enginn ágreiningur hér um mikilvægi þeirra. Það er enginn ágreiningur um mikilvægi þess að flýta þeim. Ef menn meina hins vegar eitthvað með slíku
verða þeir að sýna fram á að það sé hægt því að þetta verður ekki gert nema fjármunirnir séu til. Það hefur hæstv. samgrh. ekki getað sýnt fram á og hæstv. fjmrh. hefur staðfest með ræðu sinni hér að málflutningur hæstv. samgrh. er hrein sýndarmennska. Og það er svolítið kyndugt, ofan í allar ræðurnar sem hæstv. fjmrh. hefur haldið um nauðsyn aðhalds í ríkisfjármálum, að koma hér og gefa yfirlýsingar af þessu tagi í fullkomnu ábyrgðarleysi. Ef hæstv. ráðherrar hefðu sýnt fram á það hér í umræðunni hvernig þeir ætluðu að fjármagna þetta, þá blöstu þessi mál svolítið öðruvísi við.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri en ég hygg að hér hafi það komið fram sem ýmsa grunaði, að málatilbúnaðurinn var ekki reistur á bjargi að þessu sinni fremur en endranær af hálfu þessarar

hæstv. ríkisstjórnar.