Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Í umræðum um þetta mál hefur margt býsna fróðlegt komið fram og það hefur verið staðfest, bæði af hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh., að fjármögnun þessa fyrirtækis er ekki byggð á þeim grunni sem ætti að vera. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst að það eigi að taka umrætt fjármagn m.a. af tekjum til vegamála og það staðfestir auðvitað það sem við höfðum grun um, að það eigi að draga enn frekar úr framkvæmdum til vegamála í öðrum kjördæmum á næstu árum. Sá víxill sem núv. ríkisstjórn ætlar að leggja á þjóðina verður auðvitað að greiðast með einhverjum hætti og með þeim hætti sem hér hefur verið skýrt frá er það alveg ljóst að þeir væntanlega 3--4 milljarðar sem þetta kostar verða ekki teknir upp með öðrum hætti en þeim að það verða auknir skattar á þjóðinni.
    Ég vík enn að því sem ég sagði hér í minni fyrstu ræðu vegna hv. 3. þm. Vestf. Hann sneri eiginlega út úr mínu máli og hélt að ég hefði ekki þau kynni af snjóalögum sem hann hefur sem er nú misskilningur enda alinn upp við svipaðar aðstæður og hv. þm. Ég geri mér alveg ljóst hvaða erfiðleika er við að etja þegar um einangraðar og snjóþungar byggðir er að ræða þannig að út af fyrir sig hefur enginn efast um að mikilvægt er að leggja jarðgöng á Vestfjörðum. En það hlýtur að vera krafa til ríkisstjórnar á hverjum tíma að hún leggi slíkt fram með vegáætlun og með þeim hætti að það sé gert þegar við afgreiðslu fjárlaga.
    Ég ítreka svo einnig það að tillaga mín og hv. 5. þm. Vesturl. um tvöföldun Reykjanesbrautarinnar liggur hér óafgreidd í þinginu og ég tel það ekki minna brýnt verkefni en margt annað og vil upplýsa hér enn einu sinni og ítreka það að aðeins sá hluti að setja nýtt slitlag á Reykjanesbrautina eins og hún er kostar minna en það mundi kosta að flýta áætlun þessara jarðganga eins og hér kemur fram í grg. með þessari þáltill. Ég tel þess vegna að
ríkisstjórnin verði að huga vandlega að því, þegar um svo fjölfarna vegi er að ræða og þar sem svo mikil slysahætta er, að það hljóti að vera krafa að sett verði a.m.k. slitlag, þó að ég sé ekki að tala um tvöföldun, og sett lýsing við helstu vegamót á Reykjanesbrautina. Og ég undirstrika það hér að það er mikilvægt að hafist verði handa sem fyrst um þetta og alls ekki forsvaranlegt að afgreiða þessa tillögu sem hér liggur fyrir um flýtingu á framkvæmdum á jarðgöngum á Vestfjörðum nema afgeiða jafnframt tillögu um a.m.k. að leggja nýtt slitlag á Reykjanesbrautina þar sem þúsundir manna fara til og frá vinnu á hverjum degi. Þetta er þjóðvegurinn til útlanda og menn eru raunverulega í lífshættu við það að aka þessa braut og veruleg vandamál hafa myndast vegna þess hve hún er slitin. Ég tel að það hljóti að verða tekið á þessum málum jafnhliða.
    Í þessum umræðum hefur það líka komið glöggt fram að nægilegt fé hefði verið til til að framkvæma þessa áætlun um jarðgöng á Vestfjörðum ef þeir

fjármunir sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið út af vegáætlun hefðu verið notaðir til þeirra framkvæmda. Maður verður einnig að hafa í huga að hér á höfuðborgarsvæðinu bíða mjög brýn verkefni á fjölmörgum sviðum í umferðarmálum sem kosta hundruð milljóna og það hlýtur að verða að gera miklu betri áætlun um þau því að hér verða stórslys á hverjum degi vegna þess hve vegir eru slæmir. Ég vil bara undirstrika það að á sama tíma og vegáætlun er skorin niður um 10% get ég ekki átt þátt í því sem þingmaður Reyknesinga að farið sé út í stórfelld verkefni á öðrum sviðum í vegamálum.
    Það hlýtur að verða heildaráætlun sem gildir um þetta og það er nú einu sinni þannig að það eru fleiri en þingmenn Vestfjarða sem eru kosnir í sínum kjördæmum. Við sem erum kosnir í Reykjaneskjördæmi hljótum að líta til þess að okkar umbjóðendur eigi að njóta þess vegafjár sem þeir sannanlega leggja fram í Vegasjóð, vegna þess að stærsti hluti þess vegafjár sem aflast er greiddur af þeim notendum sem eru í höfuðborginni og á Reykjanesi. Fram hjá því verður ekkert farið. Og þeir bifreiðaeigendur sem hafa greitt stórfé til vegamála eiga kröfu á því að staðið verði þannig að verki að þeir geti ekið hér um nokkurn veginn óhultir. Fram hjá því verður ekki gengið.