Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að verja löngu máli hér til þess að svara hv. 1. þm. Suðurl. þó að vissulega væri ástæða til þess að gera það mjög ítarlega, en það er ætlunin að taka fyrir hér annað mál síðar á þessum fundi og ég veit að beðið er eftir því að sú umræða geti hafist.
    Ég vek í fyrsta lagi athygli á því að sú upphæð sem hér um ræðir, vextir og lántökukostnaður vegna flýtingarinnar sérstaklega, sem greiðast á úr ríkissjóði, er í sjálfu sér ekki með hinum stærstu upphæðum sem sést hafa til byggðamála hér í þingsölum á undanförnum árum þannig að við erum ekki að tala hér um eitthvert sérstakt afburðastórt fjármögnunarverkefni.
    Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að við jarðgöngin sjálf mun sparast verulegur kostnaður, bæði vegna snjómoksturs og viðhalds sem kemur á móti þessum kostnaði við flýtinguna.
    Í þriðja lagi vil ég benda á það að þegar ákveðið hefur verið að ráðast í þessa jarðgangagerð verður við fjárveitingar til margvíslegra framkvæmda á Vestfjörðum hægt að taka mið af því að byggðarlögin verði innan fárra ára ein samgönguheild allt árið og þar með sparast einnig verulegir fjármunir sem ella hefði verið varið til framkvæmda og framfara í þeim 5--6 byggðarlögum sem tengjast með þessum jarðgöngum. Það er þess vegna alveg ljóst, eins og ég sagði hér í minni ræðu áðan, að við jarðgöngin sjálf verður hægt að horfa á ýmsa fjármuni sem ella hefðu farið til annarra byggðamála og nota þá til þess að vega upp fjárframlögin úr ríkissjóði vegna flýtingarinnar. Það sem kann að standa eftir eru þá fáein hundruð milljóna á nokkurra ára bili, og það er verkefni sem ég tel að vissulega sé svigrúm fyrir að leysa í fjárlögum næstu ára á þeim grundvelli sem þessi tillaga byggir á, að þingið viðurkenni þá eins og nú að jarðgöng á Vestfjörðum séu meðal forgangsverkefna í byggðamálum. Ég held þess vegna að ekki séu nein sérstök rök til þess að ætla að þótt
ríkissjóður taki á sig þennan vaxta- og lántökukostnað vegna flýtingarinnar sérstaklega muni aðrir þættir fara úr skorðum í fjármálum ríkisins. Hins vegar er auðvitað ljóst að menn verða þá að viðurkenna forgangsröðina milli þessa verkefnis sem í þáltill. felst og margra annarra.
    Hvað snertir síðan hinn stærsta lið fjármögnunarinnar, þ.e. greiðslu á þeim lánum sem tekin yrðu til þess að standa undir jarðgangagerðinni, er auðvitað eins með það farið og önnur stórverkefni sem við Íslendingar höfum ákveðið að fara í og framkvæmt á undanförnum árum, að þau hafa verið greidd af hefðbundnum tekjustofnum til vegamála á Íslandi og það felst engin stefnubreyting að því leyti í frv.
    Ég mundi svo kjósa hér við síðara tækifæri að eiga ítarlegri viðræður við forustu Sjálfstfl. um ríkisfjármál næstu ára, bæði hvað snertir þær skuldbindingar sem núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og líka þróunina

í tekjumálum ríkisins þegar hagkerfið fer að rétta við á nýjan leik. Það væri vissulega vel þess virði að eiga hér einhvern tíma í þingstörfum til þess að fara yfir þann þátt málsins.