Jarðgöng á Vestfjörðum
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Ég er ekki hissa á því þó að hv. 4. þm. Vestf. svelli móður í brjósti eftir að hafa hlýtt á forustuna í sínum eigin flokki tæta niður það sem menn vilja gera vel. Mönnum væri nær, í þeirri forustu, að taka hv. 4. þm. Vestf., þaulreyndan stjórnmálamann, sér til fyrirmyndar ( Gripið fram í: Og til forustu.) og raunar til forustu. Þetta eru ákveðin skilaboð frá hv. þm. Þorvaldi Garðari til forustu Sjálfstfl., hvernig hún hagar sínum málflutningi um jafnalvarleg mál eins og hér er verið að ræða um gagnvart þeim landshluta sem við þekkjum mjög vel. Það hefði verið gott að hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., hefði hlýtt á þessa ádrepu hv. 4. þm. Vestf., samflokksmanns síns, héðan úr ræðustól. Þetta segir manni auðvitað, sem maður vissi raunar fyrir, hvernig ástandið í forustunni á þeim bæ er. Það gengur svo langt að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, sem ekki kallar nú allt ömmu sína í þessum efnum, stígur hér í ræðustól og hundskammar formann Sjálfstfl. fyrir það hvernig hann hagar málflutningi í þessu máli. Það á auðvitað við forustuna alla og hv. þm. ættu að taka eftir þessu. ( Gripið fram í: Allan flokkinn.) Ja, trúlega allan flokkinn og kannski víðar ef skoðað væri. Það er auðvitað athyglisvert að hlýða á slíkar umræður. Ég man ekki eftir því fyrr að samflokksmaður hafi tekið forustumann í einum flokki jafn vel í gegn og hv. 4. þm. Vestf. gerði við hv. 1. þm. Suðurl., formann Sjálfstfl., hér áðan, enda mun hann farinn úr salnum fyrir nokkru síðan, hefur ekki tollað við eftir slíkan lestur hjá hv. 4. þm. Vestf.
    Ég tek undir með honum. Það á ekki að mikla þetta svo fyrir sér og vera með neinar bölbænir um það að þetta verði ekki fjármagnað. Yfirlýsing hæstv. samgrh. liggur fyrir. Þetta er aukafjármagn sem þarna kemur til mála. Það verður ekki dregið úr öðrum framkvæmdum. Þetta liggur fyrir eftir umræðuna hér í dag og lá raunar fyrir fyrr og áður. Menn þurfa þess vegna ekki að vera að velta sér upp úr þessu hér á hv. Alþingi eins og málunum er komið nú.
    Ég ítreka: Hafi menn í huga þessa ádrepu hv. 4. þm. Vestf. á formann Sjálfstfl. Muni menn hana sem lengst.