Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér sýnist að það liggi ljóst fyrir að hv. 3. þm. Vesturl. hafði hér lög að mæla og fer ekki á milli mála að hans túlkun er sú hin eina eðlilega í þessu sambandi. Verði nú ekki eftir því farið og tekið tillit til þess sem hann sagði þætti mér vænt um ef hæstv. forseti upplýsti hvaða bráði vandi það er sem ber svo skjótt að að þessi umræða þurfi að fara fram nú en ekki sé hægt að taka málið fyrir með eðlilegum hætti. Í annan stað lít ég svo á að ekki sé völ nema tveggja kosta varðandi þá umræðu, annars vegar að það sé hálftíma umræða eða ótakmörkuð. Og miðað við þá umræðu í fjölmiðlum, að hugsanlegt sé að Reykjavíkurborg öll sé í hættu, mannhættu mikilli, þá sýnist mér að það hljóti þá að vera hin lengri umræða sem forseti leyfi undir svona kringumstæðum, varla metur hann það svo að það sé ekki nema hálftíma virði að ræða það mál ef slíkt hættuástand er í raun, og sé það hin lengri umræða fær það ekki staðist að henni geti verið lokið kl. 6 því að satt best að segja er það nú svo með okkur sem höfum horft á þessa verksmiðju alllengi að við vitum ekki hvaða teikn hafa gerst á himni í þeim efnum, að hún sé nú allt í einu orðin slíkur vágestur hér á höfuðborgarsvæðinu því að við höfum ekki haft af því neinar sérstakar fréttir að hinn gamli Þjóðvilji hafi verið svo grimmt lesinn um páskana að ... ( Forseti: Nú verð ég að biðja hv. þingmenn að ræða ekki efnislega um þetta mál. Eins og hv. þingmönnum mun kunnugt þá hefur forseti alla jafna reynt að koma til móts við óskir þingmanna um umræður utan dagskrár. Nú hefur það gerst að tveir þingmenn, hv. 3. þm. Vesturl. og hv. 2. þm. Vestf., hafa borið fram gagnrýni á ákvörðun forseta. Forseti mun því fresta fundi í 10 mínútur og ræða við samforseta sína um framvindu þessa máls.)