Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Það er mjög óvenjulegt þegar forseti sameinaðs þings hefur leyft umræður utan dagskrár á grundvelli ákvæða í þingsköpum að ekki einasta einn, heldur tveir af þingmönnum ríkisstjórnarliðsins skuli koma upp og mótmæla slíkri ákvörðun forseta. Það eru, að ég hygg, fá dæmi um slíkt. Ég minnist þess ekki að slíkar tilraunir hafi verið gerðar af hálfu þingmanna stjórnarliðsins eftir að forseti hefur samþykkt að umræða skuli fara fram.
    Hér liggur fyrir að óskað hefur verið eftir umræðu utan dagskrár um málefni sem er þess eðlis að við lá að almannavarnanefnd í Reykjavík gæfi út almenna viðvörun vegna hættuástands. Það er staðreynd sem fyrir liggur. Það liggur fyrir að borgarráð Reykjavíkur hefur samhljóða, með atkvæðum fulltrúa allra flokka, óskað eftir að ríkisstjórnin taki afstöðu til áframhaldandi reksturs þessarar verksmiðju. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt, fullkomlega eðlilegt og í fullu samræmi við ákvæði þingskapa sem hér er fjallað um, að umræðan fari fram með þeim hætti sem óskað var eftir og forseti hefur úrskurðað. Ef ekki er eðlilegt að kalla þegar í stað eftir afstöðu ríkisstjórnar í máli sem þessu, þá er þetta ákvæði þingskapa ákaflega lítils virði.
    Ég ítreka það að ég sé ekki nokkra ástæðu til þess fyrir forseta að taka fyrri úrskurð sinn til íhugunar og endurskoðunar þó að sá einstæði atburður gerist að tveir stjórnarþingmenn reyni að koma í veg fyrir umræðuna með þessum hætti. Ég óska eindregið eftir að forseti standi við sinn úrskurð og mér finnst málið liggja svo ljóst fyrir í samræmi við þingsköp að ekki sé nokkur ástæða til þess að gera hér frestun á fundum til samráðs þar um og vona að forseti láti umræðuna utan dagskrár hefjast án slíkrar tafar.