Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir það sem fram hefur komið, að þegar um öryggi íbúanna er að ræða ber að hafa fyllstu varúð og fara þannig að málum að slys verði helst aldrei. Hins vegar verð ég að taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að mér finnst að í þessu máli hafi verið farið nokkuð geyst og ýmislegt verið sagt sem einkennist meira af kappi en forsjá. Ég held satt að segja að í þróun og í athugun á Áburðarverksmiðjunni undanfarin ár hafi þess einmitt verið gætt að tryggja öryggi eins og best verður kosið.
    Ég er hins vegar ekkert undrandi á að hafa fengið beiðni um að loka verksmiðjunni frá íbúasamtökum Grafarvogs. Það er afar eðlilegt eins og um þetta mál hefur verið fjallað og vísa ég enn til þess sem hv. fyrirspyrjandi sagði um það.
    Spurt er um viðbrögð ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin fjallaði um þetta mál þegar á fundi sínum sl. þriðjudag. Jafnframt heimsóttu tveir ráðherrar verksmiðjuna og kynntu sér á staðnum hvernig þetta hefði atvikast og ræddu þar við ráðamenn. Það voru landbrh. og sjútvrh., sem gegndi störfum fyrir mig.
    Á fundi sínum í morgun gerði ríkisstjórnin samþykkt sem ég vil, með leyfi forseta, lesa:
    ,,Vegna alvarlegs ástands sem skapaðist í kjölfar þess að eldur kviknaði í ammoníaksgeymi Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi á páskadag og vegna umræðna sem fylgt hafa í kjölfarið um starfsemi Áburðarverksmiðjunnar hefur ríkisstjórnin á fundi sínum í dag gert svohljóðandi samþykkt:
    1. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að ítarlegri rannsókn á orsökum óhappsins sem varð á páskadag ljúki hið fyrsta.
    2. Ríkisstjórnin mun sjá til þess að lokið verði svo fljótt sem auðið er yfirstandandi öryggisgreiningu á verksmiðjunni og einnig verði gert
heildaráhættumat með aðstoð viðurkenndra erlendra sérfræðinga. Einnig verði aflað ítarlegra upplýsinga um staðsetningu, öryggisbúnað og rekstur ammoníaksgeyma og sambærilegra verksmiðja erlendis.
    3. Ríkisstjórnin felur landbrh. og félmrh. að sjá til þess að rekstri verksmiðjunnar verði hagað þannig að fyllsta öryggis verði gætt. Það feli m.a. í sér að núverandi ammoníaksgeymir verði ekki notaður framar og ekki verði geymt ammoníak í verksmiðjunni umfram það sem er á daggeymum verksmiðjunnar vegna eigin framleiðslu þar til annað verður ákveðið. Vinnueftirliti ríkisins og Almannavörnum ríkisins verði í samráði við Slökkviliðið og almannavarnanefnd Reykjavíkur falið að fylgjast með ofangreindum aðgerðum, ekki síst því að rekstri verksmiðjunnar verði, meðan á þeim stendur, hagað þannig að ýtrasta öryggis sé gætt.
    4. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að viðhalda áburðarframleiðslu í landinu með þeim störfum sem þar skapast og tilheyrandi verðmætasköpun enda sé

um þjóðhagslega hagkvæma starfsemi að ræða. Samtímis lýsir ríkisstjórnin sig reiðubúna til viðræðna við Reykjavíkurborg um framtíð verksmiðjunnar í Gufunesi, sbr. samþykkt borgarráðs frá 17. apríl sl.``
    Ég ræddi jafnframt við borgarstjóra Reykjavíkur í morgun og við höfum ákveðið að hittast á mánudaginn vegna þessa máls.
    Ég tel jafnframt nauðsynlegt að fara fáeinum orðum um það sem ég nefndi lauslega í upphafi, þá athugun sem hefur verið gerð á undanförnum síðustu árum á öryggisbúnaði Áburðarverksmiðjunnar. Ég minni á það að í febrúarmánuði 1986 skipaði þáv. félmrh. starfshóp sem skyldi gera tillögur um úrlausn á vandamálum vegna ammoníaksgeymis Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi. Þetta var allfjölmennur starfshópur sem í sátu fróðustu menn um þetta málefni. Til að gera langt mál stutt varð meginniðurstaða starfshópsins sú að hann taldi að með því að geyma ammoníakið kælt og án yfirþrýstings í tvöföldum geymi drægi mjög úr hættu og öryggi yrði viðunandi fyrir byggðina umhverfis verksmiðjuna, enda verði hún ekki nær en nú er ráðgert, þ.e. 1200 m.
    Í framhaldi af þessari skýrslu sem fjallað var um í ríkisstjórninni á fundi 14. jan. 1988 var ákveðið að fela stjórn Áburðarverksmiðjunnar að velja á milli þess að taka upp kælingu á eldri geymi eða byggja nýjan, kældan geymi. Þáv. forsrh. Þorsteinn Pálsson fól landbrh. að láta þá athugun fara fram. Sú athugun fór fram. Skipuð var nefnd í þessu skyni og áttu sæti í henni Gunnlaugur M. Sigmundsson viðskiptafræðingur, Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur og Kristinn Ó. Magnússon verkfræðingur. Fjöldamargir sérfræðingar voru kvaddir til ráða og m.a. skoðað vandlega hvernig þessum málum er háttað erlendis.
    Niðurstaða nefndarinnar eða sá þáttur niðurstöðunnar sem við kemur öryggismálum er þessi, með leyfi forseta:
    ,,Þegar reistur hefur verið nýr og öruggari ammoníaksgeymir er talið að Áburðarverksmiðja ríkisins fullnægi í aðalatriðum öllum öryggiskröfum sem gerðar eru til hennar, en þær eru strangar. Því er af öryggisástæðum ekkert því til fyrirstöðu að athafnasvæði nái alveg að lóð verksmiðjunnar.``
    Eftir að þessi niðurstaða var fengin samþykkti ríkisstjórnin samhljóða að heimila Áburðarverksmiðjunni að byggja nýjan geymi samkvæmt þessum ströngu öryggiskröfum. Rétt er að það komi fram líka að skipulagsnefnd Reykjavíkur samþykkti fyrir sitt leyti að slíkur geymir yrði byggður. Reyndar er það
athyglisvert að Reykjavíkurborg hefur síðan framlengt lóðarsamningi við verksmiðjuna og gildir hann nú til ársins 2019, ef ég man rétt. Það mun hafa verið gert í september sl. Þarna hefur því verið algjör samstaða um þær öryggiskröfur sem nefndirnar lögðu til á milli ríkisstjórnar, þ.e. ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, og Reykjavíkurborgar.
    Það er e.t.v. rétt að gera aðeins örstutta grein fyrir þeim veigamikla mun sem er á geymi eins og þeim

sem þarna er nú og þeim sem á að byggja. Ég skal reyna að hafa það stutt.
    Ammoníak er í eðli sínu lofttegund en er, vegna geymslurýmis, yfirleitt geymt undir þrýstingi eða réttara sagt sem vökvi. Það má gera annaðhvort undir nægilega miklum þrýstingi eða með kælingu. Í þeim geymi sem þarna er núna er þessu náð með því að geyma ammoníakið undir þrýstingi. Þessu fylgir að vissu leyti meiri hætta, því ef geymirinn brestur gufar ammoníakið upp og getur þá sem lofttegund farið með vindum og að sjálfsögðu valdið tjóni. Í slíkri geymslu er alltaf eitthvað af ammoníakinu sem lofttegund. Þegar dælt er inn ammoníaki sem er vökvi undir þrýstingi, þá eykst þrýstingurinn í geyminum. Þá er ammoníaksgufu iðulega hleypt út úr geyminum til að draga úr þrýstingi eða ammoníaksgufan er færð yfir á svæði þar sem unnt er að kæla hana og breyta henni í vökva. Vitanlega er það æskilegri leið því með því móti nýtist ammoníakið jafnframt til vinnslunnar. Þó hefur tíðkast að létta á þrýstingi með því að hleypa smávegis ammoníaki út sem gufu og hefur ekki verið talið hættulegt.
    Ekki er fengin skýring á því hvers vegna kviknaði í þessari ammoníaksgufu. Ammoníak brennur ekki vel, það þurfa að vera ákveðin hlutföll af ammoníaki í loftinu til að það brenni og það er tiltölulega vel slökkvanlegt.
    Þó að ég sé fullkomlega sammála því að þarna gerðist hlutur sem ekki átti að geta gerst er ég sannfærður um að allt of mikið hefur verið gert úr þeirri hættu sem þessu fylgdi. En ég hygg að í raun og veru hefði hætta fyrst orðið ef þessi eldur hefði logað mjög lengi og veikt stálið þannig að á það hefði komið gat. Þá hefði verið hætta ef mikið ammoníak hefði verið í geyminum. Hins vegar var það mjög lítið. Reyndar er rétt að fram komi að almannavarnanefnd Reykjavíkur setti það skilyrði fyrir áframhaldandi notkun þessa gamla geymis þar til nýi geymirinn væri kominn í notkun að aldrei mætti vera í honum meira en helmingur þess sem hann tekur, þ.e. 500 tonn. Eldinn tókst að slökkva á nokkrum mínútum því, eins og ég sagði áðan, tiltölulega auðvelt er að slökkva eld í ammoníaki í andrúmslofti að því er mér er tjáð. Það er því langt frá því að nokkur hætta hafi verið orðin, t.d. að stálið léti undan, þetta er mjög þykkt stál, 2,5 sm á þykkt.
    En ég endurtek, að sjálfsögðu verður að fara fram ítarleg athugun á því sem þarna gerðist. Hins vegar er nýi geymirinn allt öðruvísi gerður. Það er tvöfaldur geymir, sem sagt ein kúla innan í annarri. Auk þess er stórt rými í kring, þ.e. eins konar gryfja. Þannig að ef geymirinn springur þá fer ammoníakið í fyrsta lagi út í millirýmið og ef það springur líka fer það út í jarðrýmið, gryfjuna sem þar er fyrir utan. Auk þess er ammoníakið þarna geymt kælt en ekki undir þrýstingi. Til kælingar er gert ráð fyrir að verði þrjú kælikerfi og þó þarf ekki nema eitt til notkunar í senn. Þarna er því um svo ólík öryggisatriði að ræða að þetta er ekki sambærilegt.
    Það er kannski fróðlegt að menn viti að mjög víða

um heim er ammoníak geymt miklu nær byggð en hér er um að ræða. Í Landskrona í Svíþjóð er t.d. 30 þús. tonna kældur tankur á hafnarsvæði borgarinnar. Aðalsjúkrahús borgarinnar er í eins kílómetra fjarlægð. Í Fredericia í Danmörku er 5 þús. tonna kældur tankur í verksmiðju á hafnarsvæði borgarinnar og í Lyngsodde sem er í þriggja kílómetra fjarlægð frá borginni er aðalammoníaksgeymslan 83 þús. tonn --- 83 þúsund tonn --- í fjórum kældum geymum. Og í Heroy í Noregi er 76 þús. tonna geymir í byggð og búið er allt í kringum verksmiðjuna og geyminn.
    Nú er ég út af fyrir sig ekki að mæla með þessu og ég tel að eigi að vera viss fjarlægð frá verksmiðjunni. En þó þessi geymir sé nú aðeins 1 þús. tonn, en þeir geymar sem ég hef nefnt eru frá 30 þús. og samtals geymt upp í 83 þús. tonn af ammoníaki, þá held ég að menn hljóti að sjá að þegar nýi geymirinn kemur er hér áreiðanlega gætt eins mikils öryggis og nokkurs staðar þekkist. Við smíði þessa geymis eru virtar allar þær kröfur sem ýtrastar eru gerðar erlendis. Og ég gæti rakið langtum fleiri dæmi um slíka geymslu.
    Ég er algjörlega sammála því að gamli geymirinn komi ekki til greina. Og það er alveg hárrétt niðurstaða að hann átti að fjarlægja. Nú er búið að loka honum. Það var fyrsta ákvörðunin sem var tekin strax, honum var lokað í samráði við almannavarnanefnd Reykjavíkurborgar.
    Ég tel jafnframt að almannavarnanefnd Reykjavíkurborgar hafi brugðið rétt við. Mér er tjáð að borgarstjóri og borgarverkfræðingur hafi komið á staðinn
samstundis, kynnt sér þetta persónulega. Fundur var haldinn í almannavarnanefndinni um kvöldið og í samráði hennar og Áburðarverksmiðjunnar var ákveðið að taka þennan geymi úr notkun. Svo sú hætta sem var til staðar, þó hún væri miklu minni með geyminn aldrei nema hálfan, er fjarlæg. Og hvað eru menn þá að tala um? Allar athuganir á verksmiðjunni hafa beinst að geymslu ammoníaks. Það er löngu hætt að geyma áburðinn ópakkaðan. Allir hafa verið sammála um að hættan beinist að geymslu ammoníaks í þrýstigeymi. Hann er tekinn úr notkun og verður ekki tekinn í notkun aftur.
    Ríkisstjórnin er jafnframt sammála um að til að gæta fyllsta öryggis fari enn fram áhættugreining á verksmiðjunni, sem reyndar er hafin, og að hún verði jafnvel enn ítarlegri en hingað til hefur verið gert ráð fyrir. Hún verður að sjálfsögðu gerð í fullu samráði við Reykjavíkurborg. Ríkisstjórnin er sammála um það að jafnvel þessi nýi geymir, sem þó er með öllum ýtrasta öryggisbúnaði sem þekkist, verði ekki tekinn í notkun nema niðurstaða slíkrar athugunar liggi fyrir og gefi ótvírætt til kynna að þarna sé ekki um þá hættu að ræða sem sumir hafa óttast. Ríkisstjórnin hefur jafnframt ákveðið að vinna að þessu máli í fullu samráði við Reykjavíkurborg. Ég greindi frá því áðan að ég hef rætt við borgarstjóra um málið símleiðis og við munum hittast strax eftir helgina. Ég mun gera það að tillögu minni að ríkið og Reykjavíkurborg setji

sameiginlega á fót rannsóknanefnd í þessu máli. Svona mál á að leiða til lykta með samvinnu þeirra aðila sem þarna koma að.
    Ég get þar með í raun látið lokið mínu máli. Ég ætla ekki að fara að fjalla um það hér að leggja verksmiðjuna niður eða flytja hana. En svona aðeins til upplýsingar, ég hygg að núvirði þessarar verksmiðju sé um 3 milljarðar króna eða kannski rúmlega það. Líklega eru um tveir þriðju þess bundnir í byggingum og slíku á staðnum. Það getur vel verið að einhverjir vilji kaupa þær og nota í eitthvað --- sjóminjasafn heyrði ég nefnt, eða eitthvað annað. Ef það yrði gert getur vel komið til greina að byggja verksmiðjuna annars staðar. Þarna vinna 150 manns og ýmis sveitarfélög vilja gera ýmislegt til þess að skapa fólki vinnu. Ég er sannfærður um að Reykjavíkurborg vill einnig hafa það í huga. Fleiri eru tengdir þessari verksmiðju, eins og járnsmiðir og ýmislegt lið sem er til kvatt þegar þarna þarf að vinna. Ekki má rasa um ráð fram í þessu, ég held að sá ótti sem hefur verið byggður upp með fjölmiðlatali í málinu sé ástæðulaus, menn eigi að ræða þetta málefnalega, eins og ríkisstjórnin stefnir að að gera í fullu samráði með Reykjavíkurborg næstu daga.