Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Páll Pétursson:
    Frú forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta ágæta ræðu forsrh. Þó vil ég láta það koma fram að mér þykir hér vera dæmi um afar sorglegt mál og hryggilega þróun sem orðið hefur. Ég ber ákveðnar taugar til þessa fyrirtækis því að ég kom að stækkun fyrirtækisins á sínum tíma. Mér sýnist að nú syrti heldur í álinn fyrir áburðarframleiðslu á Íslandi.
    Fyrir tveimur árum var náð samkomulagi um framtíðarrekstur þessarar verksmiðju og á grundvelli þess var ráðist í byggingu ammoníakstanks. Fyllsta öryggi átti að vera náð þegar hann væri kominn í notkun. Þetta var allt saman samþykkt af yfirvöldum borgarinnar. Öryggið var nú reyndar það mikið áður en ákveðið var að byggja þennan nýja tank að talið var óhætt að byggja Grafarvogshverfið alveg upp að verksmiðjuveggnum. Verksmiðjan er á sama stað og hún var 1982, á sama stað og hún hefur verið frá upphafi, og menn hafa ekki vílað það fyrir sér að byggja upp að verksmiðjuveggnum.
    Fyrir nokkrum dögum varð óhapp í verksmiðjunni, óhapp sem e.t.v. má rekja til trassaháttar einhverra starfsmanna. Guði sé lof þá varð ekki slys þarna en þó nægði þetta til að blása upp móðursýkismoldviðri út af þessu óhappi. Nú rignir hér inn tillögum um málið. Borgarráð hefur gert mjög skorinorða ályktun um það og þetta er hin fyrsta af a.m.k. þremur umræðum sem koma til með að fara fram hér á Alþingi á næstu dögum. Þetta minnir mig nú á manninn sem í tóbaksleysinu gernýtti tóbakið sitt með því að í fyrstu tuggði hann rjólið, síðan þurrkaði hann það og setti það í pípuna sína og reykti og að lokum tók hann öskuna í nefið. Sem betur fer held ég að þessi skelfing hafi verið ástæðulítil. Hún er samt þess eðlis að ekki er hægt að loka augunum fyrir því að hún er fyrir hendi. Ef það er vilji, ef það er raunverulegur vilji borgarbúa að þessari verksmiðju sé lokað, þá er óhjákvæmilegt að verða við því að mínum dómi. Ef það er raunverulegur vilji Reykvíkinga að
Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi verði lokað, þá held ég að óhjákvæmilegt sé að verða við því.
    Ég tel líka að óhjákvæmilegt sé að verða við því að loka álverinu í Straumsvík ef Hafnfirðingum þætti sér standa ógn af því með einhverjum hætti, óhjákvæmilegt á sama hátt að loka Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði ef íbúar á Siglufirði teldu sér standa ógn af rekstri þeirrar verksmiðju. Svona mætti líka telja upp Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki, Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Ég tel að svona verksmiðju sé ekki unnt að reka nema í sæmilegri sátt við það samfélag þar sem þær starfa.
    Á hinn bóginn verður maður náttúrlega að velta fyrir sér hvernig fer fyrir því þjóðfélagi sem stöðvar atvinnurekstur og þolir ekki atvinnurekstur innan skynsamlegra og eðlilegra og strangra öryggismarka. Ég tel að ekki eigi að byggja álver í umhverfi ef þeir sem næstir búa eru ekki fúsir að taka við því. Mér sýnist það mikið óráð að byggja verksmiðjur í trássi

við það fólk sem í kringum þær kemur til með að búa.
    Ég óttast satt að segja að dagar áburðarframleiðslu í Gufunesi séu taldir. En áður en Áburðarverksmiðjunni verður endanlega lokað tel ég að skynsamlegt sé að fara þá leið sem ríkisstjórnin hefur ákveðið á fundi sínum í morgun. Ákveðið að gera fleiri aðgerðir. Það er búið að taka gamla tankinn úr notkun. Ég held að öryggiskönnun þurfi að fara fram, ítarleg könnun á öryggi. Jafnframt held ég, og ég saknaði þess í ræðu forsrh. eða í samþykkt ríkisstjórnarinnar, að huga þurfi líka að skipaferðum að og frá verksmiðjunni. Ég held að það stafi ekki minni hætta af skipaferðum um sundin en af starfseminni þarna í Gufunesi. A.m.k. verður að líta á það jafnframt. Það er hugsanlegt að setja strangari öryggiskröfur um búnað skipanna sem flytja ammoníakið og e.t.v. strangari kröfur um að íslenskir hafnsögumenn hafi leiðsögn á hendi lengra utan úr flóa o.s.frv.
    Ég held að líka sé nauðsynlegt að gera sér fullkomna grein fyrir þjóðfélagslegum afleiðingum af lokun verksmiðjunnar, hvað áburður kostar, er hægt að fá hann á lægra verði frá útlöndum? Ég held að það sé afturför í atvinnulífi þjóðarinnar ef hætt verður að framleiða áburð á Íslandi. Ef það kemur í ljós að hentugt sé að framleiða áburð hér er eðlilegt að kanna hvort reisa ætti áburðarverksmiðju annars staðar á landinu. Og þá vil ég leyfa mér að nefna að ég tel að mjög vel kæmi til greina að byggja hana á Norðurlandi vestra. Þar væri vafalaust hægt að finna henni öruggan stað og rétt að athuga hvað það mundi kosta. Ég held að ekki sé forsvaranlegt að reka þessa verksmiðju í óþökk borgarbúa en áður en ákvörðun um lokun er tekin held ég að öll gögn málsins verði að liggja fyrir þannig að niðurstaðan sé tekin með rökum en ekki sem liður í kosningabaráttu eða þá í einhverri geðshræringu.