Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Þetta er viðkvæmt mál að ræða um á þessum tíma, Áburðarverksmiðjan sem var vissulega barn síns tíma. Hún var reist árið 1952 þegar landbúnaður á Íslandi var í sókn. Þetta var skömmu eftir stríðið og miklar væntingar og vonir bundnar við landbúnað, hann var í sókn og þurfti á áburði að halda.
    Í dag eru breyttar aðstæður. ( PJ: Er hætt að bera á?) Það er enn borið á, því miður er of mikið borið á, því miður. Spurningin er: Hvernig nýtist sá áburður sem við erum að framleiða í dag? Er hann þjóðarbúinu til heilla eða er hann hráefni í aukið Rúmeníukjöt? Það er eitt af því sem verður að spyrja þegar þessi mál eru rædd. Hverjum þjónar áburðarframleiðslan í dag?
    Áburðarverksmiðjan var fyrir margra hluta sakir hin merkilegasta framkvæmd á sínum tíma. Þar var notuð afgangsraforka til framleiðslu, sem var merkileg nýjung. Margt annað má um hana segja þó hún hafi verið byggð undir hálfgerðum sjóræningjafána, til þess að fá Marshall-aðstoð. Það er út af fyrir sig gott og blessað og hefur verið vikið að Marshall-hjálp fyrr í dag. En Áburðarverksmiðjan hefur líka verið misnotuð, hún hefur aldrei fengið að starfa sem fyrirtæki. Hún hefur aldrei fengið að lúta lögmálum viðskiptanna. Hún hefur verið notuð til þess að stýra verðlagi og nú síðast var henni gert að slá 50 millj. kr. lán til þess að halda niðri verði á áburði. Áburðarverksmiðjan er hjól í þeim stýrisbúnaði sem stjórnvöld nota á hverjum tíma til þess að halda verðlaginu í skefjum, eða halda því uppi, eftir því hvernig á stendur á hverjum tíma.
    Núna um páskahelgina raskaði Áburðarverksmiðjan ró manna og olli hræðslu hjá fólki sem hefur verið túlkuð hér sem kosningaskjálfti eða ótímabær hræðsla og óþörf.
    Nú eru sjálfsagt til margar tegundir af hræðslu og ég veit ekki hver hræðslan er best, hræðslan við hið þekkta sem við höfum fyrir framan okkur eða hræðslan við hið óþekkta. Það var einmitt hið óvænta sem gerðist og það var svo óvænt og svo óþekkt að í dag er ekki enn komin skýring á því hvernig eldar kviknuðu í stútum geymisins sem olli þeirri hræðslu sem hefur gripið um sig. Það er sama hversu vel við búum um hnútana, hversu vel við göngum frá hinum ýmsu málum. Það er alltaf eftir hið óvænta sem enginn hefur enn þá fyrir séð. Og það er þegar það gerist sem menn líta hver á annan og velta fyrir sér: Hvernig gat þetta gerst? Í okkar útreikningum var ekki gert ráð fyrir þessu. Það er vegna þess að hin ófyrirséðu atvik eru alltaf nokkrum sentimetrum á undan því sem reiknað er út á teikniborðinu. Annars væru þau ekki ófyrirséð. Það er ekki gert ráð fyrir þeim.
    Þáttur borgarstjórnar Reykjavíkur í þessu máli er nokkuð sérstakur. Að kvöldi annars dags páska segir borgarstjórinn að það hafi verið verst að nýi tankurinn skyldi ekki hafa verið kominn í notkun þegar þetta

gerðist því þá hefði þetta aldrei gerst. Daginn eftir leggur hann fram tillögu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Borgarstjórn Reykjavíkur krefst þess að ríkisstjórnin taki nú þegar ákvörðun um að leggja eins fljótt og auðið er niður rekstur Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi.``
    Þá var ekki verið að harma hvaða tankur væri í notkun heldur á að leggja niður allan reksturinn. Nú er Davíð borgarstjóri því miður ekki enn þá kominn hingað inn í þingsali, þó að það sé væntanlega ekki nema eitt ár fyrir okkur aðdáendur hans að bíða, en þetta mál kemur upp fyrir borgarstjórnarkosningar og fær þess vegna aukið vægi og aukið umtal í borginni. Það er engin spurning að þetta mál verður kosningamál. Það er heldur engin spurning að ef þetta mál hefði komið upp sjö vikum seinna þá hefði verið tekið á því öðruvísi. En það breytir út af fyrir sig ekki málinu. Mál verða lítil mál, miðlungs mál eða stór mál, fyrst og fremst eftir því á hvaða tíma þau koma upp. Og sú umræða sem við megum búast við er ekkert óþarfari, þó að hún verði menguð af kosningalykt, en ef hún kæmi upp eftir kosningar.
    Kjarni málsins er þessi, eins og kom fram hér áðan, er það vilji Reykvíkinga að hafa þessa verksmiðju í túnfætinum eða ekki? Og þó svo að Reykvíkingum kunni að skjátlast, að þetta sé ekki eins hættulegt og margir gera ráð fyrir, þá er sú hræðsla ekkert betri en önnur hræðsla, að vera með stöðugan ugg út af einhverju sem ekki er vitað hvenær gerist eða vera með ugg út af einhverju sem er vitað að muni gerast og jafnvel upp á dag. Ég kann ekki að greina á milli hvor hræðslan er betri, enda á það eitt að vera nóg að ef Reykvíkingar vilja ekki þessa verksmiðju verði rekstri hennar hætt. Svo einfalt er það nú.
    Ég tek undir með hv. þm. Páli Péturssyni að þetta gildir um allan annan rekstur, sama hvar er á landinu og aðra hluti í umhverfinu. Ef íbúarnir vilja hann ekki þá eru engin máttarvöld til sem eiga að geta þröngvað því upp á íbúana sem þeir kæra sig ekki um.
    Það er líka annað sem vekur athygli þegar þessi afgerandi afstaða borgarstjórnar Reykjavíkur er skoðuð, og það að ekki eru nema nokkrir mánuðir
síðan borgarstjórnin framlengdi leigusamningi við Áburðarverksmiðjuna til 30 ára. Og það eru ekki nema nokkur ár síðan borgarstjórnin sóttist svo mjög eftir því landi í Grafarvoginum sem liggur að verksmiðjudyrunum undir íbúðabyggð að hún hafnaði öðru landi við Rauðavatn sem af mörgum var talinn mun fýsilegri kostur. Þá var tíunduð sú sprengihætta á Rauðavatnslandi sem fylgdi því að vera á sprungusvæði, að landið gæti sokkið í sæ eins og Atlantis forðum. En menn drógu fjöður yfir þá hættu sem stafaði af Áburðarverksmiðjunni og sem núna í dag er orðin tilefni til þess að borgarstjóri leggur fram tillöguna sem ég las upp áðan, þar sem þess er krafist að Áburðarverksmiðjan verði lögð niður jafnfljótt og auðið er. Þetta eru dálítið merkilegar sveiflur og er ljóst að enginn ber meiri ábyrgð á því hversu byggðin

hefur nálgast Áburðarverksmiðjuna en einmitt borgarstjórnin og sá meiri hluti sem henni ræður. Byggingarlandið var þar ákveðið af borgarstjórn. Byggðin spratt ekki upp af sjálfu sér.
    Á fundi alþingismanna og borgarstjórnarmanna í Höfða á þriðjudaginn huggaði borgarstjóri okkur, sem búum ekki í næsta nágrenni við verksmiðjuna, með því að það væri spurning um vindátt og veðurfar hvar þessa vá mundi bera niður ef hið versta yrði að raunveruleika. Eða, eins og borgarstjóri kallaði það sjálfur, að afleiðingarnar ráðast af veðri og fjöldi manns mundi farast, einkum utan dyra, því að vindáttin mundi ná yfir Kleppsholtið fyrst og fremst og síðan niður í bæ. Þetta sýnir náttúrlega að þetta er ekki eingöngu spurning um íbúðabyggðina við verksmiðjudyrnar heldur er þetta mál fyrir alla íbúa Reykjavíkur og Reykjavíkursvæðisins, þar með talinn Garðabær, Seltjarnarnes og önnur byggð í nágrenninu ekki síður. Þetta er ekki einkamál íbúanna í Grafarvogi og í rauninni ekki einkamál Reykvíkinga. Þess vegna hljótum við í dag að beina sjónum að framtíð þessarar verksmiðju. Í framhaldi af því hefur verið lögð fram till. til þál. um að leggja reksturinn þegar í stað niður. Undir hana skrifa fimm þingmenn Reykjavíkur.
    Komið hefur fram í viðtölum við þá sem best þekkja til að ekki er hægt að flytja þessa verksmiðju með góðu móti, bæði vegna þess að flest mannvirkin eru þess eðlis að þau verða ekki flutt og vélar og tæki eru mörg hver af eldri gerðinni. Það mundi ekki svara kostnaði að flytja stóra hluta þeirra yfir í nýtt verksmiðjuhúsnæði heldur yrði væntanlega að reisa nýja verksmiðju frá grunni ef þessi verksmiðja yrði lögð af og ákveðið að halda áfram áburðarframleiðslu í landinu. Við höfum þegar fengið boð frá hinum ýmsu þingmönnum um lóðir undir nýjar verksmiðjur. En fyrst og fremst, og áður en lengra er haldið, er nauðsynlegt að það verði skoðað hvaða þjóðhagslegt gagn er að því að framleiða áburðinn í landinu.
    Áburðarverksmiðjan seldi fyrir um milljarð kr. í fyrra og um 400 millj. af því verðmæti er innflutt hráefni. Spurningin hlýtur því að vera þessi: Er það þjóðhagslega óhagkvæmt að draga úr áburðarnotkun þegar við erum að draga úr framleiðslu landbúnaðarvara og er ekki nóg af túnum til í landinu þannig að annar áburður sem leggst til af skepnum og öðru dugi til þess að halda við þeirri framleiðslu sem við þurfum eða erum við með auknum áburði að búa til aukið öskuhauga- og Rúmeníukjöt eins og ég gat um áðan? Þetta hlýtur að vera spurning sem þarf að svara. Og ef við þurfum meiri áburð en leggst til af skepnum þá er spurningin: Er ekki jafnhagkvæmt fyrir þjóðina að flytja hann inn? Við flytjum hvort sem er inn frá öðrum löndum 40% hráefnis í þann áburð sem hér er unninn. Er þá ekki alveg eins gott að flytja inn áburð fyrir andvirði þessa hráefnis og selja beint? Þetta eru spurningar sem þarf að velta fyrir sér. Hver er framtíð verksmiðjunnar og áburðarframleiðslu í landinu?
    Fyrir tveim árum voru málefni

Áburðarverksmiðjunnar nokkuð til umtals hjá þjóðinni og þá sagði borgarstjórinn í blaðaviðtali, með leyfi forseta:
    ,,Jón Baldvin Hannibalsson lýsti því yfir á sínum tíma að það kæmi ekki til greina að selja Áburðarverksmiðjuna,,, sagði Davíð. ,,Ég benti á að hann yrði að gera sér grein fyrir að ef hann hygðist selja, þá mundi ég væntanlega reyna að kaupa verksmiðjuna og þá til þess að leggja hana niður. Skuldfæra upphæðina á milli ríkisins og borgarinnar. Hann var eitthvað hikandi við það.``
    Þarna lýsir borgarstjórinn í Reykjavík sig reiðubúinn til að kaupa alla verksmiðjuna og nota til þess skuld ríkissjóðs við borgina og skuldajafna.
Þetta hlýtur að vera mjög athyglisverð tillaga og hugmynd í framhaldi af því sem hér hefur komið fram. Því að verði niðurstaðan sú að borgarbúar kæri sig ekki um þennan rekstur í borgarlandinu þarf einhver að bera kostnaðinn af því að leggja hann niður. Vilji borgarstjóri kaupa verksmiðjuna með manni og mús, og hún er metin á þrjá milljarða en skuld ríkisins við Reykjavíkurborg er líklega ekki meiri en einn milljarður, eru tveir milljarðar eftir sem Reykjavíkurborg þyrfti að greiða ríkissjóði. (Gripið fram í.) Seljum strax, segja fjárveitinganefndarmenn úti í sal. En í þessu dæmi held ég að bæði ríki og borg verði að bera nokkuð jafnt fjárhagslegan skaða ef þessi leið verður valin. Það þarf að finna lendingu sem flestir geta sætt sig við og sæmilega við unað. Sjálfur hef ég löngum haft horn í síðu þessarar verksmiðju og þess vegna er enginn sérstakur kosningaskjálfti í mér í pontu í dag. Og fleiri hafa
verið á móti henni. Ég vil sérstaklega geta þess að borgarfulltrúinn Bjarni P. Magnússon lagðist gegn því að verksmiðjan héldi áfram fyrir tveim árum þegar málið kom til atkvæðagreiðslu í borgarstjórn.
    Á fundinum í Höfða var Davíð Oddsson borgarstjóri spurður að því hvernig hann sæi örlög þess starfsfólks sem vinnur við verksmiðjuna fyrir sér. Þarna vinna 140 manns sem er margir þeirra orðnir sérhæfðir og fá kannski ekki auðveldlega vinnu á öðrum vinnustað. Borgarstjóri lýsti því yfir að hann teldi engin tormerki á því að það fólk fengi vinnu, hvort sem það yrði hjá borginni eða annars staðar. Starfsfólk Áburðarverksmiðjunnar þarf þess vegna ekki að óttast að það fái ekki vinnu þó svo að verksmiðjan verði lögð niður. Við höfum orð borgarstjórans í Reykjavík fyrir því. Ég veit að fólkið getur líka treyst því að það er fullur vilji þingmanna, og annarra sem málið tekur til, að allir sem þar vinna fái vinnu sem þeir geta sæmilega sætt sig við. Þetta er eins og önnur mál sem tengjast verksmiðjunni, viðbúið er að allir þurfi að slá einhvers staðar af.
    Við megum ekki gera Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi að blóraböggli fyrir hættur í Reykjavík. Fleiri svæði eru hættuleg og víðar eru geymd hættuleg efni heldur en ammoníak. Öll þessi mál þurfum við líka að skoða. Við þurfum að skoða aðra staði. Þetta þarf allt að vinna í fullu samhengi.