Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við þessa umræðu og sérstaklega ekki í ljósi þess að hæstv. forsrh. fór mjög ítarlega yfir afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á samþykkt sem var undirbúin af mér og félmrh. og ríkisstjórnin afgreiddi fyrir sitt leyti í morgun. Þar kemur fram afstaða og viðbrögð ríkisstjórnarinnar eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir.
    Það sem fyrst og fremst kom mér til að kveðja mér hljóðs var að hv. síðasti ræðumaður hafði uppi að mínu mati nokkuð stórkarlalegar fullyrðingar um að þessi verksmiðja hefði aldrei getið neitt gott af sér, a.m.k. í efnahagslegu tilliti, hefði aldrei skilað neinu inn í okkar þjóðarbú, gerði það ekki í dag og mundi aldrei gera, eins og hann kvað hér nokkuð svo sterklega að orði. Ég held að það sé stærri fullyrðing en svo að hægt sé að styðja gildum rökum. Þvert á móti hljóti menn að horfa til þess að verksmiðjan er stór vinnustaður sem sparar umtalsverðan gjaldeyri með því að nýta innlenda orku til framleiðslu vöru sem ella þyrfti að flytja inn.
    Það kom skýrt fram í könnun sem á því var gerð fyrir tveimur árum af starfshópi sem þáv. ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar skipaði að framleiðsla verksmiðjunnar er fyllilega samkeppnisfær við verð á áburði í nágrannalöndunum. Þar var fyrst og fremst tekið mið af áburðarverði í Noregi eins og það er til norskra bænda og borið saman við verð verksmiðjunnar í Gufunesi eins og það er til íslenskra bænda. Þar var um fyllilega sambærilegar tölur að ræða. Og þá er að sjálfsögðu eftir sá flutningskostnaður sem væri á áburðinum utan lands frá inn í landið. Þannig að jafnvel þó að ætla mætti að eitthvað lægri álagning og magnafsláttur fengist ef um stór innkaup væri að ræða á innfluttum áburði, þá virðist ljóst vera að verksmiðjan er samkeppnisfær.
    Í sambandi við það sem sagt var um stuðning við verksmiðjuna á undanförnum árum ber að hafa í huga að verðlagning á áburði hefur haft nokkra tilhneigingu til að vera fremur pólitísks eðlis en viðskiptalegs og á köflum hefur verksmiðjan verið látin verðleggja sína framleiðslu í raun undir kostnaðarverði af pólitískum ástæðum sem lið í aðgerðum til að halda niðri verði á framleiðsluvörum bænda. Það er því ekki hægt að saka verksmiðjuna sem slíka um það. Sú könnun, sem ég vitnaði til, leiðir hins vegar í ljós að ef verksmiðjan verðleggur sína vöru á framleiðslukostnaðarverði, því sem hún þarf til að skila því sem upp í hennar rekstur þarf, þá er hún eftir sem áður samkeppnisfær. Það er mergurinn málsins. Þetta fyrirtæki sem slíkt getur boðið íslenskum bændum sína framleiðsluvöru á samkeppnisfæru verði. Og þá liggur það fyrir að mikill meiri hluti rekstrarkostnaðar verksmiðjunnar fellur til innlendra aðila í formi launagreiðslna, í formi greiðslna fyrir orkuverð og í formi kaupa á margs konar þjónustu. Einungis minni hluti tilkostnaðarins er

innflutningur á aðföngum.
    Þetta segir mér í raun og veru það sem segja þarf um það að hér er að sjálfsögðu á ferðinni þjóðhagslega hagstæð starfsemi. Líka vegna þess að verksmiðjan er tiltölulega mikið afskrifað fyrirtæki. Heildarskuldir hennar nema ekki nema rúmlega veltufjármunum hvers árs og því sem bundið er í birgðum o.s.frv. á hverjum tíma. Það má nota sem grófa viðmiðun að fastafjármunirnir séu eign verksmiðjunnar. Eigið fé hennar á núgildandi verðlagi nálgast um 1300 millj. kr., 1200--1300 millj. kr., og stofnvirði verksmiðjunnar, núvirði þess er nálægt 3 milljörðum kr. Það verður að ætla að endurbygging sambærilegrar verksmiðju á öðrum stað mundi kosta ekki minna en 3--4 milljarða. Þetta eru staðreyndir sem mönnum er hollt að hafa í huga þegar rætt er um þetta mál.
    Að öðru leyti þarf ég ekki að endurtaka það sem hæstv. forsrh. sagði um viðbrögð ríkisstjórnarinnar og þær ráðstafanir sem hafa verið gerðar og verða gerðar á næstunni og lúta að öryggismálum í verksmiðjunni og viðræðum við Reykjavíkurborg um þau mál og framtíð verksmiðjunnar. Ég vil lýsa því yfir fyrir mitt leyti að ég tel það sjálfsagt mál að ræða þetta við Reykjavíkurborg í ljósi þess atburðar sem þarna varð. Ég geri ekki lítið úr því hversu alvarlegur hann var og fullkomlega eðlilegt að mönnum brygði í brún. Það er sjálfsagt að hafa það í huga í allri meðferð málsins.
    Ég tel hins vegar að þar sem það liggur nú fyrir eftir samþykkt ríkisstjórnarinnar í dag verði ekki um það að ræða að gamli geymirinn verði notaður framar. Það verða ekki ammoníaksbirgðir í verksmiðjunni á næstunni nema sem svarar framleiðslu hennar sjálfrar í daggeymum hverju sinni. Ég tel sjálfsagt að nota þess vegna tímann á næstunni til að fara rækilega yfir alla þætti málsins, ræða það við Reykjavíkurborg og auðvitað fyrst og fremst fara aftur yfir þær forsendur sem voru lagðar til grundvallar ákvörðuninni um það á sínum tíma, fyrir einu og hálfu til tveimur árum, að ráðast í byggingu nýja geymisins og reikna síðan með starfrækslu verksmiðjunnar áfram á þessum stað. Sú ákvörðun var ekki tekin í skyndingu. Hún var tekin að vandlega athuguðu máli. Um það vitna skýrslur og starfshópar sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar skipaði og þáv. hæstv. landbrh. Jón Helgason átti líka aðild að.
    Ég tel þess vegna að að sjálfsögðu eigi menn að fara á nýjan leik yfir þessar forsendur og svara því: Hefur eitthvað nýtt komið fram, hefur eitthvað breyst sem gerir það að verkum að menn eru nú ekki tilbúnir til að sætta sig við rekstur verksmiðjunnar á þessum stað að uppfylltum þeim öryggiskröfum sem þá voru metnar fullnægjandi? Allir aðilar málsins, þar á meðal Reykjavíkurborg, Almannavarnir, Vinnueftirlit, eigendur verksmiðjunnar og allir aðrir sem að þessu komu mátu þær fullnægjandi, ríkisstjórn ekki síst. Þessari spurningu þarf einfaldlega að svara. Verði niðurstaðan sú að menn séu nú í dag ekki lengur tilbúnir til að sætta sig við tilvist verksmiðjunnar á þessum stað, þrátt fyrir það að öllum þessum

skilyrðum væri fullnægt, þá er komin upp ný staða í málinu sem menn verða að bregðast við. Þá kemur væntanlega í beinu framhaldi upp sú spurning: Vilja menn þá leggja þessa verksmiðju niður og reisa nýja á öðrum stað eða vilja menn leggja af með öllu þessa framleiðslu í landinu? Þá kemur að því að svara þeirri vandasömu spurningu en ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um það á þessu stigi eða eyða lengri tíma í það að svo stöddu. Fyrst ber að svara því sem ég og aðrir hljóta að telja vera aðalatriði þessa máls og fyrstu og stærstu spurninguna: Er ekki lengur ásættanlegt, að öllum öryggiskröfum fullnægðum, að reikna með áramhaldandi starfrækslu fyrirtækisins á þessum stað?
    Ég vildi líka, virðulegur forseti, leyfa mér að fara um þetta nokkrum orðum m.a. vegna þess að ég hlýt að segja það hér svo a.m.k. það sé á hreinu gagnvart hv. alþm. hver mín afstaða er í þessu máli. Ég vona að ég hafi skýrt það sæmilega vegna þess að ég tel að hún hafi verið nokkuð afflutt í vissum fjölmiðlum, a.m.k. þegar leiðara- og Staksteinaskrif hafa verið á ferðum. Ég kvarta ekki undan því sem eftir mér hefur verið haft af fréttamönnum.