Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Hér hefur umræðan snúist á dálítið sérstæðan hátt. Hv. 1. þm. Suðurl. eyddi mestöllum ræðutíma sínum í það að tala um í hvílíkan rekstrarvanda verið væri að setja núverandi áburðarverksmiðju með því að ríkisstjórnin væri að leggja til lægra áburðarverð en fengi staðist samkvæmt rekstrargrundvelli verksmiðjunnar. Þetta verður ekki skilið á annan veg en þann að hann hafi aðaláhyggjurnar af rekstrarvanda verksmiðjunnar. Ég virði þau sjónarmið, því að sá sem hefur áhyggjur af rekstrarvanda verksmiðjunnar hefur náttúrlega ekki áhyggjur af því að það þurfi að leggja hana niður. Það fær náttúrlega ekki staðist að sá maður telji að það þurfi að leggja verksmiðjuna niður því að þá þarf náttúrlega engar áhyggjur að hafa af rekstrarvanda hennar í framtíðinni.
    En einnig hafa hér gerst furðulegir hlutir og það m.a. að hv. 8. þm. Reykv. upplýsir að hann telur að hv. 3. þm. Vesturl. hafi misskilið það sem hann ætlaði að segja. Það skil ég nú bara ekki hvernig geti gerst því að mér er ekki ljóst hvernig hv. 3. þm. Vesturl. hefur getað fundið út hvað hv. 8. þm. Reykv. ætlaði að segja. En þá eru líka fleiri boðleiðir hér í salnum en þær sem við hinir notumst venjulega við og er náttúrlega verðugt rannsóknrefni fyrir vísindamenn að fá svör við þessu.
    En það sem mér þótti aftur á móti alvarlegt var það að hann virtist misskilja þá atkvæðagreiðslu sem allt stefnir í hér í þinginu. Það stefnir í atkvæðagreiðslu um það hvort eigi að loka Áburðarverksmiðjunni til þess að tryggja lífsöryggi Reykvíkinga. Það er í það sem allt stefnir hér í þinginu. Og það verður litið svo á þeir sem munu greiða atkvæði gegn því virði ekki lífsöryggi Reykvíkinga. Ég tel það ekki heiðarlegan vopnaburð að ætla að stilla mönnum upp við vegg á þennan hátt. En það sem var þó kannski langalvarlegast í hans málflutningi var það að hann sagðist alltaf hafa vitað að verksmiðjan hafi verið hættuleg. Hv. þm. hefur skrifað ógrynni af greinum, ég hef lesið margar þær greinar og metið sem gott innlegg í íslenska þjóðmálaumræðu. En nú spyr ég: Er það rétt hjá mér að hann hafi ekki skrifað eina einustu grein um það öll þessi ár hve hættuleg þessi verksmiðja er lífi Reykvíkinga, ekki eina einustu grein þó að hann lýsi því hér yfir í ræðustól að hann hafi alltaf vitað það? ( EKJ: Það hefur verið ritað um sprengihættu frá áburðinum sjálfum. Það hafa allir vitað.) Svarið er komið. Það hefur engin slík grein verið skrifuð. Og þá spyr ég aftur: Hver er skýringin? Er skýringin sú að það voru kommúnistar á Íslandi sem börðust gegn verksmiðjunni og uppsetningu hennar, en það voru sjálfstæðismenn sem börðust fyrir því að hún yrði reist? Liggur það þá fyrir að af pólitískum hugsjónum hefur umræddur þingmaður talið rétt að þegja öll þessi ár þó að hann hafi e.t.v. í svefni liðið hinar verstu kvalir vegna þess sem hann taldi sig þó vita?
    Herra forseti. Ég tel að ekki sé rétt að lengja þessa

umræðu meira en mér þykir miður að þetta skyldi hafa verið upplýst.