Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hv. 3. þm. Vesturl., formaður þingflokks Alþfl., flutti hér mjög athyglisverða ræðu vegna þeirrar umræðu sem hæstv. landbrh. hóf um pólitískar verðákvarðanir og hvernig þær geta kippt rekstrargrundvelli undan rekstri af þessu tagi og gert hann þjóðhagslega óhagkvæman. Hv. þm. sagði: Hæstv. ríkisstjórn gaf loforð um það að áburðarverð mundi ekki hækka nema um 12% í tengslum við kjarasamninga sem gerðir voru í byrjun þessa árs. Hún lofaði aðilum vinnumarkaðarins, launþegum og vinnuveitendum, að hækkun á áburðarverði yrði ekki meiri. Allt til þess að halda niðri verðbólgu. Þetta loforð var góðra gjalda vert og ekki ætla ég að draga úr hæstv. ríkisstjórn að standa við það. Ég geri fyllilega ráð fyrir því að hún hafi metnað til þess. En þegar ljóst er og fyrir liggur að áburðarverð þarf að hækka um rúmlega 20% til þess að tekjur verksmiðjunnar mæti gjöldum verður þetta loforð ekki efnt með því einu að senda verksmiðjunni skilaboð um það að áburðarverðið megi ekki hækka nema um 12%. Svo sé hægt að taka lán í útlöndum fyrir mismuninum og það eigi kaupendur áburðarins að greiða ásamt vaxtakostnaði á næstu árum eða skattborgarar með enn einni tekjuskattshækkun hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki hægt að efna þetta loforð með þessum hætti, hv. formaður þingflokks Alþfl. Þetta er að svíkja loforðið við aðila vinnumarkaðarins. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að efna loforðið á hún auðvitað engra annarra kosta völ en að veita núna fjármunum úr ríkissjóði, gera breytingar á fjárlögum til þess að brúa bilið þarna á milli. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki staðið við loforð sitt með öðrum hætti. Það hefur hún hins vegar, samkvæmt yfirlýsingum hæstv. landbrh., ákveðið að gera ekki. ( Forseti: Má ég minna hv. þm. á að þetta mál er ekki á dagskrá og hefur ekki verið beðið um að verða rætt hér.) Frú forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessar umræður í upphafi, en þegar hæstv. landbrh. tók þó nokkurn hluta af ræðutíma sínum hér til þess að fjalla um þetta efni, þá var óhjákvæmilegt að vekja athygli á þessari staðreynd og ég kemst ekki hjá því að svara ræðu hv. 3. þm. Vesturl., formanns þingflokks Alþfl., um þetta efni.
    Með öðrum orðum, það er þetta sem liggur fyrir, hv. 3. þm. Vesturl. Ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við þetta fyrirheit. Hún hefur ákveðið að varpa þessu inn í framtíðina með þeim afleiðingum að áburðarverðið mun hækka meira en þyrfti eða hækka þarf skatta umfram það sem hæstv. ríkisstjórn hefur þegar gert. Ég fullyrði og endurtek, efnahagsstefna af þessu tagi, fjármálarekstur af þessu tagi er fullkomið ábyrgðarleysi. Það er ánægjulegt að hv. 3. þm. Vesturl. skuli í raun og veru hafa viðurkennt með ræðu sinni að það er Alþfl. sem stendur fyrir efnahagsstefnu sem framkvæmd er með þessum hætti. Það er ánægjulegt að hann skuli í raun hafa viðurkennt þá staðreynd. En undan þessu getur hæstv. ríkisstjórn ekki skorast og hún getur ekki hlaupið á

bak við samningamenn launþega og vinnuveitenda. Hún hefur aðeins eina leið til þess að efna sitt loforð. En hún hefur tekið um það ákvörðun að gera það ekki og það er sú staðreynd sem hér liggur fyrir.