Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég skal reyna að hafa þetta eins stutt og mér er kostur.
    Ég vek fyrst athygli á því að ég minntist í minni ræðu hér áðan ekki einu orði á áburðarverð eða verðlagningu. Ég gat þess, að gefnu tilefni, vegna þess að rætt var um greiðslur úr ríkissjóði til verksmiðjunnar, af hvaða toga þær hefðu verið sprottnar, sem sagt þeim að menn hefðu á köflum ekki verðlagt áburðinn fyrst og fremst út frá framleiðslukostnaði, heldur hefðu pólitísk sjónarmið í verðlagningu búvara ráðið þar ferðinni. Þetta er staðreynd og ég satt best að segja skildi nú ekki þann tilfinningahita sem greip um sig af þessum sökum. Það var síðan hv. 1. þm. Suðurl. sem hóf umræðu um verðlagningu á áburði, kjarasamninga og annað því um líkt.
    Ég verð að segja, virðulegur forseti, að málflutningur hv. 1. þm. Suðurl. og formanns Sjálfstfl. hér í dag vekur nokkra furðu. Hann setur hér á eldhúsdag með miklum ræðum og talar sig upp í hita í hverju málinu á fætur öðru og fer þá um víðan völl og ræðir helst allt annað en dagskrárefnið sem til umræðu er hverju sinni. Ég upplifi þetta eiginlega með vissum hætti þannig að hv. 1. þm. Suðurl. sé genginn í pólitískan barndóm og telji sig aftur vera kominn á frumbýlingsár sín í stuttbuxnadeild Heimdallar og hagi nú málflutningi sínum og áherslum með þeim hætti sem þar þótti þá viðeigandi (Gripið fram í.) en hlýtur auðvitað að vera spurning hvort er viðeigandi fyrir hv. 1. þm. Suðurl. miðað við þá stöðu sem hann nú gegnir, en hann um það.
    Það er auðvitað ljóst að hv. 1. þm. Suðurl., fyrrv. hæstv. forsrh., er í nokkrum vanda staddur í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað um öryggismál Áburðarverksmiðjunnar og starfrækslu hennar. Það leiðir af sjálfu vegna þeirrar ábyrgðar sem hann ber sem starfandi forsætisráðherra og ábyrgðaraðili þeirrar ríkisstjórnar sem tók ákvörðun um ákveðnar framkvæmdir í verksmiðjunni í Gufunesi og síðan varanlega starfrækslu hennar hér á þessu svæði. Ég vil taka það skýrt fram að ég tel að sú ákvörðun hafi verið skynsamleg og vel grunduð og ég tel að hún hafi verið rétt út frá þeim upplýsingum sem fyrir lágu í málinu þannig að ég er ekki að áfellast, nema síður sé, hæstv. fyrrv. forsrh., núv. 1. þm. Suðurl., fyrir þá ákvörðun sem tekin var. Út frá þeim gögnum sem fyrir liggja og lágu þá í málinu tel ég að þarna hafi verið eðlilega að málunum staðið. Vandi hans skapast hins vegar af því sem síðar hefur gerst og einkum nú eftir að borgarstjóri í broddi fylkingar hefur hafið upp einhliða kröfur um það að þessari ákvörðun verði kastað fyrir róða og ný tekin um það að leggja verksmiðjuna niður.
    Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á því sem formaður Sjálfstfl. sagði um þau fyrirheit sem aðilum kjarasamninganna voru gefin, þar á meðal bændasamtökunum sem óumdeilanlega taka á sig

mestar byrðar í þeirri kjarasátt sem tókst hér í þjóðfélaginu á sl. vetri og hv. 1. þm. Suðurl. gerði mörg tilhlaup til að eigna sér eða a.m.k. öðrum en ríkisstjórninni að tókst, hældi á hvert reipi og taldi mikil tímamót í efnahagsmálum þjóðarinnar, sem hún sjálfsagt má kallast. Nú sé ég hins vegar ekki betur en að hv. 1. þm. Suðurl. og formaður Sjálfstfl. telji að það eigi að láta þau fyrirheit sem bændum og öðrum aðilum kjarasamninganna voru gefin lönd og leið og eigi þá að bæta ofan á þær fórnir sem bændur hafa fært í tengslum við þessa kjarasamninga því að þeir verði fyrstir fyrir því að forsendur bregðist.
    Ég áskil mér rétt til að ræða það við betra tækifæri og annað tilefni sem er þá nær viðfangsefninu með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur reynt að tryggja að þessar forsendur stæðust, m.a. með því að gefa verksmiðjunni fyrirheit um að afkoma hennar verði skoðuð á árinu og tillit tekið til rekstrartaps ef það er óumflýjanlegt við afgreiðslu fjáraukalaga á næsta hausti. Ég bendi á það ( ÞP: Af hverju ekki núna?) að tillaga um 22,3% áburðarverðshækkun byggir á því að allar afskriftir og fjárfestingar verksmiðjunnar á þessu ári komi frá rekstri og það er spurning hvort menn hafa við þessar þröngu aðstæður tök á að setja sér slík markmið.
    Virðulegur forseti. Ég tel að það bæti ekki þá umræðu, sem ýmislegt mætti um segja, sem hér hefur farið fram um öryggismál og starfrækslu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi þó að við förum að lengja þennan eldhúsdag um verðlagningu áburðar á árinu og mun því láta máli mínu lokið um það efni. Ég tel að hæstv. forsrh. hafi í sinni ræðu hér í upphafi umræðunnar gert með mjög skilmerkilegum hætti grein fyrir því sem ríkisstjórnin hefur ákveðið sem næstu skref í málefnum Áburðarverksmiðjunnar, hvað tengist öryggismálum hennar og áframhaldandi starfrækslu, viðræður við Reykjavíkurborg o.s.frv., og þarf ekki neinu við það að bæta og vona að menn komist til að taka á því máli af yfirvegun og skynsemi. Þá er ég sannfærður um að menn komast að farsælli niðurstöðu í því máli.