Áburðarverksmiðjan í Gufunesi
Föstudaginn 20. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki reyna á þolinmæði virðulegs forseta. Þessi umræða hefur staðið nokkra hríð. Reyndar byrjaði hún mun seinna en ætlunin var. Það er auðvitað skýringin á því hve nú er orðið framorðið.
    Hæstv. ráðherra talaði hér síðastur og eins og hann réttilega komst að orði var kominn tími til að hætta þeirri eldhúsdagsumræðu sem hérna var hafin. Ein uppistaðan í hans ræðu var að hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., ætti í vandræðum með Davíð Oddsson, þetta stafaði af því, en svaraði ekki sjálfur þeirri spurningu sem hlaut að kvikna þá þegar í huga allra þeirra er á hlýddu, hvort hæstv. landbrh. væri hugsanlega í vandræðum með einhvern af þm. Alþb. í þessu máli og skal ekki frekar farið út í þá sálma því að ég býst við að flestir skilji hvað ég á við.
    Ég vil einungis, virðulegur forseti, segja það að ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsrh., og reyndar því sem kom fram hjá hæstv. landbrh., að nú séu fram undan viðræður við Reykjavíkurborg og ég treysti því að þær leiði til niðurstöðu sem báðir aðilar geta sætt sig við. Ég vek athygli á því að hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður þingflokks Framsfl., segir að sé það raunverulegur vilji að loka verksmiðjunni verði henni lokað og ég hygg að hann hafi æðigóðar hugmyndir um það hver sé raunverulegur vilji borgarstjórnarinnar í Reykjavík.
    Ég ætla ekki að eiga hér orðastað við hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson. Aðrir hafa tekið það ómak af mér að ræða við hann, þar á meðal hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson. Ég tel að þetta mál sem við erum að ræða hér í dag sé ekkert gamanmál, sé ekki mál til þess að hafa í flimtingum, en auðvitað haga menn sínum málflutningi eins og lund þeirra liggur.
    Það hlaut að vera afar eðlilegt að óska eftir niðurstöðu hæstv. ríkisstjórnar eftir að það lá fyrir að hún hefði gert samþykkt í morgun og fyrir fram var sagt frá að hún ætlaði að fjalla um málið. Og ég vek sérstaka athygli á því að við erum að tala hér um nýjan áhættuþátt, áhættuþátt sem ekki var áður þekktur og í raun hafa menn helst komist að því, þegar rætt er um það hvar orsakanna sé að leita og hvar eldsupptök voru þegar þetta óhapp átti sér stað, að eldsupptökin hafi verið í nýjum varnarviðbúnaði sem segir okkur það að þessi rekstur og geymsla á ammoníaki hlýtur ávallt að vera hættuspil.
    Inn í þessa umræðu hafa menn síðan kosið að blanda geymslu á bensíni og olíu. Ég minni aðeins á það að við þurfum á því að halda, bæði hér í Reykjavík og annars staðar, að geyma slíkt, en hins vegar eru efasemdir uppi um það að sú verksmiðja sem hér starfar og framleiðir áburð hafi það þjóðhagslega gildi að ástæða sé til að halda henni gangandi til frambúðar.
    Ég ætla ekki heldur að vekja hér frekari umræðu með því að fjalla um ræðu hv. 10. þm. Reykv. Ég tel að hann hafi tekið fullstórt upp í sig. Það hafi verið ástæðulaust fyrir hann að tala um ógæfuspor Davíðs

Oddssonar, að tala um kókakólakynslóðina sem geri sér enga grein fyrir verðmætum. Á hann þar við alla borgarstjórn Reykjavíkur, að því er manni skilst, og suma hv. þm., meira að segja þá sem eru einna háttvirtastir. Ég minni á að öll borgarstjórnin, eða a.m.k. borgarráðið, var sammála um þá tillögu sem lögð var fyrir og ef hv. þm. ætlar að óskapast yfir þeim viðbrögðum sem urðu hefði hann kannski fyrst af öllu átt að fletta upp á forsíðu Tímans miðvikudaginn 18. apríl þar sem yfir alla forsíðuna, alla dálka, er fyrirsögn sem orðast þannig: ,,Fjöldi borgarbúa í lífshættu``. Þetta eru viðbrögð flokksblaðs Framsfl. og menn verða að átta sig á því að þegar almenningur fær slíkar fréttir, jafnvel úr innstu herbúðum framsóknarmanna, hljóta menn að leggja við hlustir og það hlýtur að vera skylda yfirvalda, jafnt borgaryfirvalda sem hæstv. ríkisstjórnar, að endurmeta það hvort hér eigi að reka þessa verksmiðju áfram.
    Þessi umræða hefur, virðulegur forseti, verið efnisleg með fáeinum undantekningum. Hún hefur á vissan hátt skýrt þetta mál og vonandi mun hæstv. ríkisstjórn stíga það gæfuspor að eiga samstarf við reykvísk yfirvöld sem leiði til sameiginlegrar niðurstöðu öllum til heilla í þessu máli.