Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Hér er nú á dagskrá 3. mál þessa fundar sem er Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins. Ekki var það mín ætlan að taka þátt í þessari umræðu en hv. 2. þm. Norðurl. e. fór, eins og oft áður, út í ýmsa aðra sálma, umræður um allt önnur mál en þetta og gerði m.a. að umræðuefni að ég hefði stokkið vestur á firði í dymbilviku til þess að losna undan því að taka þátt í umræðu í sjútvn. Ed. varðandi kvótamálið. ( HBl: Þetta er ekki rétt með farið, ég sagði Alþfl.) Já, enn tilheyri ég honum. (Gripið fram í.) Þannig að þarna eru nú menn að kasta grjóti úr glerhúsi þar sem hv. 2. þm. Norðurl. e. talar með þessum hætti.
    Ég man það að við héldum fjóra ef ekki fimm sameiginlega fundi sjútvn. beggja deilda án þess að þessi hv. þm. sæist á neinum þeirra. Það er ekkert nýtt. Ég man líka hvernig þetta var haustið 1987 þegar kvótamálið var til meðferðar í báðum sjútvn. deilda. Þessi hv. þm. sást sjaldan á þeim fundum og svo mun vera um fleiri nefndarfundi þar sem þessi hv. þm. á að vera en er ekki. Og mér finnst nokkuð erfitt að sitja undir því í umræðum hér á Alþingi af þessum hv. þm., sem ég tel að hafi hvað síst sinnt sinni skyldu í fundarsetu í nefndum deilda þar sem ég þekki til frá því að ég hef verið hér, án þess að ég sé á nokkurn hátt og ætlaði ekki að hefja umræður um slíkt. En ég sit ekki undir slíku þegar menn hefja umræður úr ræðustól á Alþingi með þessum hætti, þeir sem síst skyldi og ættu alls ekki að hefja upp svona málróm því að það er vitað af öllum hv. þm. hvernig þessi hv. þm. hefur sinnt nefndarstörfum.
    Það væri rétt að láta taka saman hverjir hafa mætt á fundi í Ed., í nefndum, hverjir hafa mætt betur en aðrir og hverjir eru verstir. Það skyldi nú ekki vera svo að þau spjót beindust að hv. 2. þm. Norðurl. e., að hann væri neðarlega í þeirri röð sem mætti vel til funda. Ég a.m.k. vísa þessu alfarið frá mér.
    Það er rétt, ég fór vestur á firði í dymbilviku. En ég veit ekki betur en formaður þingflokks Alþfl. hafi mætt á fundi í sjútvn. Ed. Er það rangt? ( HBl: Já.) Þá hefur hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal ekki verið á þeim fundi og enn upplýsist um það hvernig þessi hv. þm. mætir til nefndafunda á Alþingi. ( GHG: Þetta er nú ekki þinglegt.) Nei, það er ekki þinglegt, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. En þegar menn byrja, þá svara aðrir fyrir sig. Þeir sem upphefja þennan leik verða að svara fyrir það. Ég hélt að hv. þm. Eiður Guðnason, formaður þingflokks Alþfl., væri ekkert ómerkari fulltrúi í sjútvn. Ed. en ég og hann mætti þar. Þetta taldi ég rétt að gera en kannski kemur að því að menn fara að rifja upp frekar hverjir mæta og hvernig á nefndafundi deildanna.
    Ég taldi nauðsynlegt, virðulegi forseti, vegna þessara ummæla hv. þm. Halldórs Blöndals, að þetta kæmi hér fram. Ég mun ekki sitja undir því að þeir sem síst skyldu séu að kasta grjóti úr glerhúsi og sem síst hafa efni á slíku.