Húsnæðisstofnun ríkisins
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það fór svo að svör hæstv. félmrh. voru að sumu leyti misvísandi, í einstaka tilvikum fullnægjandi, í öðrum tilvikum efnislega á þá lund að ég á erfitt með að sætta mig við þá niðurstöðu sem þar kom fram.
    Ég vil fyrst, herra forseti, vekja athygli á því sem hæstv. félmrh. sagði þegar hann svaraði fyrirspurnum mínum varðandi greiðsluerfiðleikalán. Hæstv. félmrh. vitnaði í gamla skýrslu og sagði að í þeirri skýrslu hefði komið fram að um 250 umsóknir hefðu verið óafgreiddar og talaði um að bankar og sparisjóðir legðu fram fé. Og með aðstoð viðskrh., skildist mér, hefði verið aflað 130 millj. kr. í þessu skyni og kannski hefur eitthvað komið eftir öðrum leiðum, það kom ekki fram hjá ráðherra. En hann taldi að þessari þörf hefði þar með verið fullnægt. Jafnframt kom fram að ráðherra taldi sorglegt hversu illa hefði gengið að draga úr þörf fyrir erfiðleikalánin og virðist ekki skilja að þegar lífskjörin versna á tveim árum um 15--20% er auðvitað minna eftir til þess að standa við lánaskuldbindingar en áður var. Auk þess hefur innheimta verið hert almennt hjá lánastofnunum á hinum almenna markaði. Það á því ekki að þurfa að koma ráðherra á óvart þó þörfin fyrir greiðsluerfiðleikalán sé vaxandi. Raunar virðist svo vera ef það er rétt hjá ráðherra að í ársbyrjun hafi um 130, ef ég hef tekið rétt eftir, að um 130 millj. kr. hafi fullnægt þörfinni, því að mér er sagt nú að það þurfi tvöfalda þá upphæð til þess að fullnægja þeirri þörf sem nú er fyrir hendi. Tek ég auðvitað fram að ég er ekki með nákvæmar tölur upp á milljón, ég er í grófum dráttum að tala um þá þörf sem er fyrir hendi.
    Ráðherrann sagði að hann mundi skoða þetta mál. Það er alltaf talað um að skoða. Ég er farinn að sakna þess sem einu sinni var sagt í þinginu. Þá sagði hver einasti þingmaður að hann ætlaði að fara ofan í saumana á því sem var auðvitað mjög nýstárlegt og skemmtilegt þegar maður heyrði það í fyrsta
skiptið. Mig minnir að Eysteinn hafi verið einna fyrstur til þess að koma með þetta orðalag inn í þingsalina. Hann notaði þetta mikið hér í stjórnarandstöðu á árunum 1960--1970 man ég a.m.k. En nú segja allir að skoða. Skoða er svona lausleg athugun, ég ætla að skoða það. Það merkir að hugur fylgir ekki mikið máli, að réttri íslensku. Og mér finnst líka að þegar hæstv. félmrh. segir: Ég mun skoða það, þegar hann talar um erfiðleikalánin, að hann muni skoða það í þeirri gömlu, íslensku merkingu að ekki fylgi hugur máli. Og að taka málið upp í ríkisstjórn ef efni standa til. Standa ekki efni til þess ef þörfin skyldi nú vera svona um fjórðungur úr milljarði hjá fólki sem á í meiri og minni erfiðleikum við að halda sinni íbúð? Er þá ekki ástæða til að taka málið upp í ríkisstjórninni fyrir þann mann sem ber ábyrgð á þessum málaflokki? Ég mundi halda að hæstv. ráðherra ætti að sýna þessu meiri áhuga en hinu að koma á nýju bákni, nýju

skriffinnskubákni, nýrri ófreskju í húsnæðismálunum og hefði maður þó haldið að hún væri orðin þvílík fyrir að hroll mundi setja að hverjum þeim sem dytti slíkt í hug. En það er svo að alltaf er hægt að ganga lengra í ósköpunum og mikið verður hægt að hagræða fljótt og vel þegar þessi ófreskja verður að velli lögð, sem ekki verður langt þangað til. ( Gripið fram í: Þetta á allt að verða skilvíst og það er nýyrði.) Skilvíst já, skilvíst.
    Svo eru það húsaleigubætur og leigumiðlun. Ég verð nú að láta í ljós sérstaka undrun yfir því, ef satt er, að það mál sem vikið er að í þessu frv. og er mál sem er sérstakt afkvæmi húsnæðisnefndar skuli vera komið á vonarvöl í fjmrn. og það skuli vera búið að sleppa því svo lausu að félmrh. veit ekki lengur hvernig málið stendur.
    Í kvæði eftir Kristján Karlsson stendur:

Fyrir heppni í dag
spratt hurðin opin,
og Celia hélt leiðar sinnar
út í veður og vind.

    Mér finnst einhvern veginn að þessar húsaleigubætur séu komnar út í veður og vind. Ráðherrann sem skipaði nefndina sem lagði þær til veit ekki hvar það mál stendur, er ekki kunnugt um útfærsluna og svaraði því engu hvort til stæði að þeir sem sjálfir stæðu undir sínum íbúðum ættu að fá samsvarandi lagfæringu varðandi fjármagnskostnaðinn, sem er auðvitað mjög verulegur hjá þeim sem sjálfir eru að reyna að ráða við það að eignast þak yfir höfuðið eftir almennum leiðum, ég tala nú ekki um ef um launafólk er að ræða sem getur auðvitað ekki lagt mikið til hliðar eins og ástandið er.
    Nú spyr ég hæstv. ráðherra þegar hann er að tala um Byggingarsjóð ríkisins. Hann segir: Biðraðakerfið var tekið upp 1986, biðraðakerfið í Húsnæðisstofnun ríkisins. Voru ekki biðraðir í Húsnæðisstofnun ríkisins þegar Magnús Magnússon var húsnæðisráðherra, eða hvað? Bjó Alexander til biðraðirnar? ( Gripið fram í: Það var ekki búið að setja þær í kerfi.) Já, það var ekki búið að setja þær í kerfi. Það er rétt, biðraðir voru til en ekki biðraðakerfi. Þannig ber að skilja. Maður verður að reyna að skilja orðanna hljóðan og reyna að fara ofan í merkinguna nákvæmlega. Ég er mjög þakklátur fyrir þessa ábendingu.
    Það er alveg rétt að lögin voru sett 1986 og það kerfi var tekið upp það ár. Ég geri ekki athugasemdir við það. En samkvæmt þeim upplýsingum sem þá lágu fyrir, upplýsingum sem m.a. voru studdar af athugunum sem höfðu farið fram á vegum verkalýðshreyfingarinnar, var búist við að það kerfi yrði komið í jafnvægi á árinu 1990 ef eðlilega yrði að því staðið. Nú segir ráðherra að því
fari víðs fjarri, það þurfi 21 milljarð kr. til að leysa mál þeirra sem eiga umsóknir í Byggingarsjóði ríkisins. Og hæstv. ráðherra kvartar óskaplega út af framtíðarstöðu þess sjóðs vegna þess mikla vaxtamunar sem þar er og vegna þeirra miklu

fjárskuldbindinga sem sjóðurinn verði í fyrirsjáanlegri framtíð að taka á sig ef þetta kerfi gengur upp. Var ráðherrann með þessu að segja að vextirnir væru hærri í Byggingarsjóði ríkisins? Var ráðherra með þessu að segja að lánin væru lægri til hverrar íbúðar í Byggingarsjóði ríkisins? Eða var ráðherra með þessu að gefa villandi mynd af ástandinu? Hvað skyldi sá einstaklingur, sem á íbúð fyrir og kaupir íbúð hér í Reykjavík eins og algengt er á meðan börnin hans eru hér við nám í framhaldsskólum eða háskóla, fá mikið lánað úr Byggingarsjóði ríkisins? Eigum við að bera þá fjárhæð saman við það sem viðkomandi fær lánað á meðan hann er í íbúð t.d. sem heitir námsmannaíbúð? Má vera að sparifé sem fólk breytir með þessum hætti í fjárfestingu til þess að hjálpa börnum sínum verði skattlagt með öðrum og þyngri hætti en áður? Á það leggist eignarskattur og eignarskattsviðauki og eftir atvikum fleiri skattar?
    Það er ekki að öllu leyti rangt að maður sem á íbúð eigi þess kost með fyrirgreiðslu að kaupa aðra íbúð. Það atriði kom einmitt sérstaklega upp þegar við vorum að ræða þetta frv. og fulltrúar Alþýðusambands Íslands töluðu einmitt háðulega um þessa kratamennsku, að geta ekki skilið að oft væru aðstæður þannig að einstaklingar væru að reyna að hjálpa öldruðum foreldrum, væru að reyna að hjálpa börnum og öðrum sem þeir hafa framfærsluskyldu gagnvart. En það má auðvitað segja að einfaldara sé að leysa þetta mál með því að ríkið kaupi íbúðina, leggi til svona 4--5 millj. kr. í staðinn fyrir að láta duga lán til skemmri tíma en áður. Það er nauðsynlegt að leiðrétta þetta.
    Það er auðvitað rangt hjá ráðherra að vaxtamunur sé meiri hjá Byggingarsjóði ríkisins en Byggingarsjóði verkamanna og það er auðvitað líka rangt hjá ráðherra ef hann heldur og er að reyna að gefa í skyn að ódýrara sé að leysa húsnæðisþörfina gegnum Byggingarsjóð ríkisins en Byggingarsjóð verkamanna. Hvort tveggja þetta sem ráðherrann gaf í skyn er úr lausu lofti gripið, er fullkomlega rangt. Er raunar óviðunandi, herra forseti, þegar maður spyr ráðherra um greiðslustöðu þessara sjóða tveggja að fá svör af þessu tagi.
    Mér þykir það líka undarlegt þegar ráðherrann sættir sig við 150 millj. til Byggingarsjóðs ríkisins á þessu ári, samþykkir að framlag til Byggingarsjóðs ríkisins skuli skorið niður í 10%, úr 1 milljarði og 50 millj. niður í 150 millj. kr., þá þykir mér náttúrlega mjög undarlegt að ráðherra skuli ekki hafa frekari rök fyrir sínu máli en hann vék að hér áðan.
    Ég tók eftir því, herra forseti, að formaður þingflokks Alþfl. kom hér eins og í einhverri kattarmynd, hljóp í gegnum deildina, og var ljúft að heyra elskulegan hljóm raddar hans hingað upp í ræðustólinn því að ég sá á honum að hann var í góðu skapi. En það má þó segja að það sé merkilegt að hæstv. húsnæðisráðherra skuli vera búinn að biðja um úttekt á fjárhagslegri stöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Að vísu hafði ég hugboð um það að þessir sjóðir hefðu verið teknir til

athugunar uppi í Hagsýslustofnun. Ég hef líka hugboð um það að þessi ráðherra, sem talaði mest um fjárhagslega stöðu sjóðanna meðan hann var alþingismaður, hefur látið sig það mál engu skipta hér í þinginu fram að þessu.
    Hæstv. ráðherra gerði mikið úr vaxtamun í Byggingarsjóði ríkisins. Það er óhjákvæmilegt að hann gefi um það svar nú við þessa umræðu hvort hann hafi í huga að hækka vexti Byggingarsjóðs ríkisins. Og óhjákvæmilegt er að fá um það yfirlýsingu nú við umræðuna, 3. umr. er eftir þannig að hægt er að kalla yfirlýsinguna fram við 3. umr. ef nauðsyn krefur, hvaða ráðstafanir hæstv. húsnæðisráðherra hyggist gera varðandi hina erfiðu stöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Mér skildist á ummælum hans að hann hefði ekki áhyggjur af fjárhagslegri stöðu og efnahagslegri stöðu Byggingarsjóðs verkamanna þar sem málefni þess sjóðs voru ekki nefnd. Veit ég ekki hvort beri að skilja þögn ráðherrans svo að þær 500 millj. kr. sem gengu til Byggingarsjóðs verkamanna á þessu ári með fjárlögum dugi að hans mati til að tryggja viðunandi eiginfjárstöðu sjóðsins.
    Alvarlegast af því sem kom fram hjá ráðherra var kannski það sem hann sagði um Byggðastofnun og félagslegu íbúðirnar, úthlutun hinna félagslegu íbúða. Ráðherra kvartaði undan því að hann hefði ekki í sínum höndum vald yfir því hvernig hinum félagslegu íbúðum væri skipt. Hann var mjög undrandi yfir því hvernig skiptingin var milli kaupleiguíbúða og íbúða í verkamannabústöðum og sagði með málflutningi sínum að hann vildi ekki bera pólitíska ábyrgð á þeirri úthlutun á félagslegum íbúðum sem nú hefur verið ákveðin. Ef ég man rétt á Alþýðusamband Íslands tvo fulltrúa í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Ég man
ekki hvort atvinnurekendur eiga tvo líka, og síðan eru kjörnir fulltrúar af Alþingi. Ráðherra hefur sagt hér við umræðurnar með þessum hætti, og hann hefur raunar líka sagt það opinberlega, að erfitt sé að bera ábyrgð á störfum stofnunarinnar og hafa ekki meiri tök á henni en raun ber vitni. En hvaða kerfi er ráðherrann sjálfur að leggja til að tekið verði upp í sambandi við húsnæðisnefndirnar? Er hann ekki að taka upp kerfi sem á engan hátt tryggir það að sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmdinni, sá aðili sem útvegar fjármagnið, sá aðili sem lögin leggur á ríkar skyldur, sá aðili á heldur ekki að ráða í húsnæðisnefndunum. Það er vel hugsanlegt að þeir tveir fulltrúar í slíkri húsnæðisnefnd sem kjörnir eru af meiri hluta sveitarstjórnar lendi í minni hluta í nefndinni vegna þess að fulltrúar verkalýðsfélagsins og fulltrúi stjórnarandstöðunnar í viðkomandi sveitarfélagi lendi í meiri hluta. Þetta finnst hæstv. húsnæðisráðherra í lagi. Við þetta gerir hann ekki athugasemdir. Hvernig skyldi standa á því? Úr því að húsnæðisráðherrann er óánægður með þau ítök sem verkalýðshreyfingin hefur í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins og vill ekki bera pólitíska ábyrgð á gerðum fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar þar hlýtur maður að spyrja ráðherra hvers vegna hann vilji ætla sveitarstjórnarmönnum að hlíta því að verkalýðsfélögin

úti um landið eigi þá að eiga fulltrúa í húsnæðisnefndunum en ekki eigi að tryggja sveitarfélögunum á hverjum stað meiri hlutann þó þeir eigi að bera alla ábyrgðina, skyldurnar og hvað eina. Skyldur sem sveitarstjórnirnar hafa ekkert beðið um að á þær séu lagðar. Og ef ráðherrann er spurður kann hann alltaf að nefna einhverja stofnun úti í þjóðfélaginu. Það er eitthvert verkalýðsfélag, það er Samband ísl. sveitarfélaga og það eru slíkir aðilar sem spurðir eru. En það er ekki spurt hver sé þörf einstaklinganna, hver sé þörf fólksins.
    Þegar ég spurði hæstv. ráðherra hvernig á því stæði að undir öllum kringumstæðum yrði sveitarfélag að neyta forkaupsréttar í sambandi við íbúðina, félagslega kerfisins, og ég nefndi dæmi af verkafólki sem naut þess að sveitarfélag neytti ekki forkaupsréttarins. Ég spurði ráðherrann að því hvernig á því stæði að sveitarfélögin yrðu að gera þetta, ella hefðu þau verra af, þá las ráðherrann upp það sem ég hafði áður lesið úr grg. frv. en sagði ekki neitt, var einskis virði og utan við efnið. Ráðherrann hefur kannski aldrei hugsað um þetta, hann sé ókunnugur málinu og af þeim sökum geti hann engu um þetta svarað. Ég skal sætta mig fullkomlega við það og segja að ekki sé óeðlilegt að svo muni vera.
    En ég spyr: Var það rétt hjá ráðherra þegar hann sagði hér áður að það hefði verið mat Húsnæðisstofnunar að það fjármagn sem afgreitt var nú fyrr á þessu ári, 130 millj. kr., mundi duga til að afgreiða óafgreiddar umsóknir í sambandi við erfiðleikalán? (Gripið fram í.) Var það stofnunin? Var það staðfest af stjórn stofnunarinnar? Og var það mat stjórnar stofnunarinnar að ekki þyrfti meira til að koma? Hefur stofnunin lagt á það eitthvert mat að núna sé nauðsynlegt að taka málið að nýju upp í ríkisstjórninni? Er bara verið að skjóta sér á bak við stofnunina? Hefur stofnunin ekkert sagt síðan? Eru fulltrúar verkalýðshreyfingarnnar í Húsnæðisstofnun ásáttir með það að ekki komi meira fé til þessara hluta? Ég hélt að þeir hefðu af þessu áhyggjur. Ég vissi ekki betur en Húsnæðisstofnun, a.m.k. þegar menn sem þar vinna tala við mig, þá hafa þeir haft af því miklar og þungar áhyggjur að þetta fé sé algerlega ónógt. Nú skal ég afla mér upplýsinga um það hvort það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að stjórn Húsnæðisstofnunar hafi lagt það mat á að þetta fé mundi duga. Það skal ég gera í fullri vinsemd og láta ráðherra vita, kannski við 3. umr., hver sé niðurstaðan af því.
    Svo komum við að skýrslu Byggðastofnunar. Þá tók nú steininn úr. Að vísu sagði ráðherra að Húsnæðisstofnun hefði óskað eftir skýrslunni. Og skýrslan var unnin eftir þeim forsendum af starfsmönnum Byggðastofnunar, framreikningur á því hvernig byggð í landinu hefur þróast. Við 1. umr. málsins sagði ég við ráðherra, og það er hægt að fletta því upp, að beðið hefði verið um þessa skýrslu af Byggðastofnun til þess að vera blóraböggull fyrir ráðherrann í húsnæðismálum. Ég sagði að ráðherrann mundi síðar meir reyna að nota þessa skýrslu til að

afsaka úthlutun á félagslegum íbúðum út um landsbyggðina. Það yrði vitnað til þessarar skýrslu og sagt að í henni kvæði á um það að viðkomandi byggð þyrfti ekki meira en svo og svo af félagslegum íbúðum og kannski ekki neitt. Ráðherrann stóð svo upp á eftir, alveg hissa á því að mér skyldi detta í hug að bera annað eins á borð. Aldrei mundi sér detta í hug að nota þessa skýrslu í því skyni. Ekki hefði verið beðið um það. En hvað sagði ráðherrann áðan? Hann sagði: Sums staðar var gengið lengra en þessi skýrsla kvað á um. Fyrst er búin til skýrsla og svo er vísað í skýrsluna. Ég var að lesa Kravchenko, ,,Ég kaus frelsið``. Þar var einmitt þessi aðferð höfð. Við höfum líka stundum heyrt ýmsa lærða málafylgjumenn gera þvílíkt áður, en auðvitað er þetta kratablekking, aulablekking.
    Ráðherra veit að stjórn Byggðastofnunar tók sérstaklega fram að þetta væri ekki skýrsla Byggðastofnunar. Hér er kominn inn einn af stjórnarmönnum í Byggðastofnun sem getur staðfest að það er rétt. Ég var að gera athugasemdir
við þau ummæli hæstv. félmrh. þegar hann sagði að til sumra staða úti á landi hefði verið úthlutað fleiri íbúðum en skýrsla Byggðastofnunar hefði kveðið á um. Ráðherra sagði: Gengið lengra en þessi skýrsla kvað á um. Nú á með öðrum orðum að þvo hendur sínar þannig og segja: Það er Byggðastofnun að kenna að bara koma tvær íbúðir til Ólafsfjarðar. Það er Byggðastofnun að kenna að ekkert kemur til Flateyrar. Það er Byggðastofnun að kenna að þetta er svona og það er Byggðastofnun að kenna að þetta er hinsegin. ( Félmrh.: Þetta eru þín orð.) Það er náttúrlega ekki gengið lengra en þessi skýrsla kvað á um. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að í skýrslunni hafi Byggðastofnun tekið afstöðu til þess hversu mmargar íbúðir skyldu fara á hvern stað. ,,Kveðið á um.`` Það er kveðið á um það í lögunum hvernig þetta skuli vera, algengt mál. Ég vona að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins þurfi ekki að taka hæstv. ráðherra til bæna og útskýra fyrir honum mælt mál. Þarna er verið að gefa þetta í skyn. Það var auðvitað ekkert óvænt. Stjórn Byggðastofnunar gerði sér grein fyrir því í hvaða tilgangi beðið var um skýrsluna. Af þeim sökum var tekið skýrt fram með stjórnarsamþykkt, sem er bókuð, að þessi skýrsla er unnin að beiðni Húsnæðisstofnunar og samkvæmt hennar forskrift og kemur skoðunum Byggðastofnunar ekkert við. Þetta er svona einfalt.
    Er hæstv. fjmrh. í húsinu? Ég óska eftir að fá hann hingað í salinn. ( EG: Þar vex sómi Sjálfstfl. núna.) Ég veit ekki hvort allir heyrðu, formaður þingflokks Alþfl. sagði að sómi Sjálfstfl. yxi þegar ég bað formann Alþb. að koma í salinn. Ég hélt að hann væri nú einmitt að auka sóma Alþfl. um þessar mundir með því að koma í veg fyrir að Alþfl. bjóði fram í Reykjavík. Og er sómi Alþfl. þar mikill, eins og við höfum séð t.d. eftir ummælum Bjarna P. Magnússonar og eftir ummælum fyrrv. framkvæmdastjóra Alþfl. sem ég held að sé
líka orðinn núna fyrrv. alþýðuflokksmaður ef marka má það sem stendur í blöðunum. En það væri kannski

gaman fyrir fulltrúa Alþfl. á Vesturlandi að geta sagt við ráðherrana þrjá: Það er þó einn krati í sveitarstjórn fyrir vestan en enginn í Reykjavík eftir næstu kosningar. --- Er Ólafur Ragnar Grímsson í húsinu, hæstv. fjmrh.? ( Forseti: Ég hef óskað eftir að það sé kannað hvort hann sé hér nærstaddur.)
    Mér þykir leiðinlegt, herra forseti, af því að ég veit nú að formaður þingflokks Alþfl. er samviskusamur þingmaður og fylgist glöggt með því sem sagt er í þingsal --- nú sé ég að hann hefur tíma til þess að koma inn í deildina, ég held að ég nenni nú samt ekki að endurtaka það sem ég hef hér sagt í þessari ræðu þó að ég viti vel að með því mundi ég létta af honum þeirri fyrirhöfn að þurfa að lesa þetta þegar það kemur út prentað. En það veit ég að hann muni kynna sér þetta eins og annað eins og skylda hans kveður á um. Er hæstv. fjmrh. ekki í húsinu? ( Forseti: Hæstv. fjmrh. er í ræðustól í Nd.) Það er nefnilega það.