Búnaðarmálasjóður
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Búnaðarmálasjóð. Þetta er 520. mál á þskj. 951.
    Forsaga þessa máls er sú að hinn 10. febr. 1989 skipaði landbrh. nefnd til að vinna að endurskoðun á innheimtu sjóðagjalda, sem innheimt eru samkvæmt ákvæðum laga og reglugerða, og renna til landbúnaðarins. Nefndinni var ætlað það verkefni að gera tillögur til ráðuneytisins um breytingar á þessum lögum og reglugerðum sem um er að ræða. Nefndina skipuðu Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri landbrn., formaður, Leifur Kr. Jóhannesson, forstöðumaður Stofnlánadeildar landbúnaðarins, og Þórólfur Sveinsson bóndi, tilnefndur af Stéttarsambandi bænda.
    Á undanförnum árum, og einkum og sér í lagi á sl. tveimur árum, hafa sjóðagjöld í landbúnaði verið til ítarlegrar umræðu. M.a. hefur umræðan annars vegar beinst að fjármögnun félagslegrar starfsemi í landbúnaði og hins vegar innheimtu á sjóðagjöldum til jöfnunar á framleiðslukostnaði með því að afla sameiginlegra fjármuna til að standa undir fjárfestingum í landbúnaði í stað þess að láta fjármagnskostnaðinn koma af fullum þunga á þá sem eru tiltölulega skuldugastir vegna nýlegra framkvæmda og hárra lána þess vegna. Það er því ljóst að í gegnum Stofnlánadeild og fjármögnunarkerfið að þessu leyti fer fram umtalsverð jöfnun á kjörum bænda.
    Frv. það sem hér er mælt fyrir byggist á þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið um þessi mál. Þar er m.a. um að ræða tillögur og samþykktir búnaðarsambandanna í landinu, búnaðarþings og aðalfundar Stéttarsambands bænda.
    Á búnaðarþingi 1988 var fjallað um málefni Bjargráðasjóðs. Í meðferð þingsins breyttist málið á þann veg að fjárhagsnefnd sameinaðist um að bera
fram tillögu um fastan tekjustofn fyrir Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsamböndin sem var samþykkt samhljóða. Þar skoraði búnaðarþing á ríkisstjórnina að taka til endurskoðunar skiptingu á sjóðagjöldum landbúnaðarins með það að markmiði að Búnaðarfélagi Íslands og búnaðarsamböndunum verði markaður ákveðinn tekjustofn til að kosta hina félagslegu starfsemi. Jafnframt var rætt um nauðsyn þess að hefja heildarendurskoðun á skipulagi félagssamtaka landbúnaðarins þar sem faglegi og félagslegi þátturinn yrðu aðskildir þannig að betur komi fram hver sé hinn lögbundni þáttur í starfseminni annars vegar og hinn félagslegi þáttur hins vegar, eins og þar segir.
    Aðalfundur Stéttarsambands bænda árið 1988 ályktaði einnig um nauðsyn þess að endurskoða sjóðagjöldin.
    Helstu breytingar sem verða á gildandi lögum um þessi efni eru þær að lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins, nr. 45 frá 16. apríl 1971, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, verður með frv. breytt þannig að í fyrsta lagi fellur niður ákvæði

laganna um svokallað framleiðendagjald en ákvæði um þá innheimtu verður fellt undir ákvæði laga um Búnaðarmálasjóð, þau lög sem hér er mælt fyrir.
    Í öðru lagi verður afnumin skylda Stofnlánadeildar landbúnaðarins til að reka Byggingastofnun landbúnaðarins með þeim verkefnum sem lögin kveða á um. Þau verkefni, sem Byggingastofnunin hefur annast, verða falin öðrum aðilum eftir því sem við getur átt, þjónustuþátturinn fyrst og fremst Búnaðarfélagi Íslands en rannsóknir og slík starfsemi Rannsóknastofnun landbúnaðarins eftir því sem við verður komið.
    Lögum um Búnaðarmálasjóð, nr. 40 frá 7. maí 1982, verður einnig breytt. Í fyrsta lagi verður innheimta framleiðendagjaldsins, sem áður rann til Stofnlánadeildar, felld undir innheimtu á gjaldi til Búnaðarmálasjóðs. Samkvæmt því verða innheimt gjöld til Búnaðarmálasjóðs samkvæmt lægri innheimtuflokki, 0,75% í stað 0,25% áður, þ.e. framleiðendagjaldið bætist við þá gjaldtöku sem áður rann í Búnaðarmálasjóð. Í hærri innheimtuflokki verða mörkin 1,50% í stað 0,50% áður.
    Í öðru lagi verður gerð breyting á röðun búgreina og afurða frá þeim í gjaldflokka. Þannig verði fellt úr lægsta innheimtuflokki fiskeldi, fiskrækt, veiðileiga og leiga á landi til annarra nota en búskapar.
    Í þriðja lagi verði innheimtum fjármunum deilt til fleiri aðila og verkefna en áður var. Þannig verði til viðbótar fyrri verkefnum fjármagni varið, eins og áður sagði, til reksturs búgreinasambanda og forfalla- og afleysingaþjónustu í landbúnaði og framlag til búnaðarsambanda frá Búnaðarmálasjóði tvöfaldað. Framlag til Stofnlánadeildar landbúnaðarins dregst saman er nemur þessum viðbótarframlögum og framlag til Stéttarsambands bænda lækkar reyndar lítillega.
    Í fjórða lagi verður búgreinasamböndum í sjálfsvald sett hvort þau nýti þessa tekjuheimild eða ekki. Skil afurðaverðs til framleiðenda innan hverrar búgreinar mundi þá breytast að sama skapi og hvert búgreinasamband tæki ákvörðun um.
    Í fimmta lagi verður felld inn í lög um Búnaðarmálasjóð heimild til að undanþiggja einstakar búgreinar framlagi til Bjargráðasjóðs, komi um það beiðni frá Stéttarsambandi bænda.
    Lagafrv. sem hér er mælt fyrir er síðan í beinu samhengi við þær breytingar á lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins og lögum um Búnaðarmálasjóð sem ég hef hér gert grein fyrir og ég sé ekki ástæðu til að rekja nánar.
    Ég vil að lokum leggja áherslu á það, herra forseti, að um þetta mál hefur tekist allvíðtæk samstaða milli helstu hagsmunaaðila. Það er afar mikilvægt atriði þar sem hér er um að ræða allrík hagsmunamál, auðvitað fyrst og fremst bændanna sjálfra en líka viðkomandi aðila innan félagskerfis landbúnaðarins. Það er því að mínu mati fagnaðarefni að slík samstaða hefur tekist. Ég bind miklar vonir við það að hv. Alþingi treysti sér til að afgreiða þetta mál nú fyrir þinglok þó að tíminn sé orðinn skammur. En um þetta mál hefur

tekist sú samstaða sem ég hef gert grein fyrir og breytingarnar fela í sér mjög svo brýna úrlausn á miklum fjárhagserfiðleikum, ekki síst búnaðarsambandanna, sem hafa búið við samdrátt á tekjum á undanförnum árum, m.a. vegna minni framkvæmda og minni fjárfestinga í sveitum og minni búfjárræktar- og jarðræktarstyrkja sem runnið hafa til hinna sameiginlegu verkefna á undanförnum árum.
    Þá er og að mínu mati mjög svo tímabær sú ráðstöfun sem frv. tengist, að leggja niður Byggingastofnun landbúnaðarins eins og hún hefur verið rekin á undanförnum árum hjá Stofnlánadeild, færa þau verkefni til annarra aðila sem munu sinna þeim eftir því sem við getur átt og þörf krefur miðað við núverandi aðstæður í íslenskum landbúnaði.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að frv. verði vísað til hv. landbn.