Búnaðarmálasjóður
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Mig langar til að beina einni spurningu til hæstv. ráðherra. Það kemur fram í aths. með frv. að gert er ráð fyrir nokkurri hækkun á gjöldum, samkvæmt 2. gr. Eða eins og segir í grg.: ,,Lagt er til að gjald af alifugla- og svínarækt verði 0,75% í stað 0,25% eins og er í gildandi lögum. Skv. staflið B er lagt til að gjald til búnaðarmálasjóðs verði 1,5% af þeim afurðum sem þar eru taldar upp í stað 0,5%.`` Þarna er auðsýnilega um að ræða hækkun á gjaldskyldu.
    Í öðru lagi segir í 3. gr. að sá hluti búnaðarmálasjóðsgjalda er rennur til Stéttarsambands bænda og búgreinafélaga skuli ekki teljast til framleiðslukostnaðar við opinbera verðákvörðun. Þetta hlýtur að þýða að sá hluti gjaldsins sem ekki rennur til Stéttarsambandsins og búgreinafélaga skuli teljast til framleiðslukostnaðar. Nú fæ ég ekki annað séð, a.m.k. af fljótum lestri yfir þetta frv., en að með hækkun þeirri sem gert er ráð fyrir í 2. gr. og með þeim skilningi sem menn hljóta að leggja í þau ákvæði 3. gr. sem ég las upp hér áðan þá hljóti samþykkt þessa frv. óhjákvæmilega að leiða til nokkurrar hækkunar á framleiðslukostnaðarmati við opinberar verðákvarðanir. Ég vildi leita eftir því hjá hæstv. ráðherra hvort það sé svo að þarna sé um að ræða hækkun sem muni koma fram í verðhækkun á landbúnaðarafurðum. Ef svo er, hve mikil er þá sú hækkun sem menn eiga von á?