Búnaðarmálasjóður
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég skal með mikilli ánægju endurtaka í þriðja sinn í þessari umræðu að þetta frv. felur ekki í sér neina hækkun á búvöruverði og hefur alls engin áhrif á verðmyndunarferli búvaranna af ástæðum sem ég hef þegar skýrt tvívegis. Og skýringin er sú að hér er eingöngu um tilflutning á gjöldum, sem þegar eru tekin, að ræða. Svonefnt framleiðendagjald, sem áður hefur runnið til Stofnlánadeildar, hverfur nú inn í Búnaðarmálasjóð og búnaðarmálasjóðsgjald hækkar sem því nemur. Það skýrir það að af afurðum alifugla og svína færist gjaldið upp úr þeim 0,25% sem það var fyrir og við bætast þau 0,5% sem áður runnu í Stofnlánadeild og hétu framleiðendagjald. Sama á við um B-lið og af þeim sökum verður alls engin breyting.
    Varðandi 3. gr. hefur framleiðendagjaldið af þessum hluta talist til framleiðslukostnaðar og verið inni í verðlagsgrundvelli þannig að þar verður heldur engin breyting á. Ef eitthvað er þá má vænta þess að það lækki vegna þess að það varð niðurstaða eftir vandlega skoðun að ekki væri eðlilegt að sá hluti gjaldsins sem rynni beint til, ef maður má segja stéttarfélags bænda, þ.e. Stéttarsambandsins, teldist til framleiðslukostnaðar. Þess vegna er það undanskilið, svo og sá hluti gjaldsins sem kann að renna til búgreinasambanda. Mér finnst það eðlileg tilhögun að bændur greiði það sjálfir, þann hluta þess gjalds og það munu þeir gera með því að það telst ekki til framleiðslukostnaðar sem kemur inn í verðlagsgrundvöllinn.
    Ég vona að þetta hafi svarað hv. þm. og formanni fjvn. með fullnægjandi hætti.