Kvikmyndastofnun Íslands
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Það var á fundi í þessari hv. deild fyrir páska að hæstv. menntmrh. mælti fyrir frv. til laga um Kvikmyndastofnun Íslands. Síðan var umræðunni frestað. Langar mig nú til að gera nokkrar athugasemdir í sambandi við þetta mál áður en það fer til nefndar. Ég vil aðeins í upphafi þó ræða nokkuð almennt um stöðuna í okkar kvikmyndamálum.
    Fyrir skömmu var haldið upp á tíu ára afmæli íslenska kvikmyndavorsins, eins og menn kölluðu það, en þá voru liðin tíu ár frá því að kvikmyndin Land og synir var frumsýnd. Íslenskar kvikmyndir eiga sér því ekki langa hefð og vissulega er enn mikill frumbýlingsbragur á allri aðstöðu til kvikmyndagerðar hér á landi. Í rauninni er það með ólíkindum hversu miklu menn hafa komið í verk með litlum fjármunum á síðustu tíu árum. Reyndar má einnig líta lengra aftur í tímann því vissulega voru brautryðjendur í íslenskri kvikmyndagerð sem störfuðu einnig fyrir þessi tímamörk sem menn hafa nú sett.
    Árið 1984 voru sett á Alþingi lög um kvikmyndamál og það var þáv. hæstv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir sem beitti sér fyrir þeim lögum. Þau lög áttu að tryggja Kvikmyndasjóði Íslands fastar tekjur þannig að Kvikmyndasjóðurinn gæti úthlutað styrkjum og lánum til íslenskrar kvikmyndagerðar. Aðaltekjustofn Kvikmyndasjóðsins átti að vera árlegt framlag úr ríkissjóði sem næmi áætluðum söluskatti af kvikmyndasýningum í landinu og við gerð hverra fjárlaga skyldi áætlun um það samin af Hagstofu Íslands. Því miður hefur reyndin orðið sú að Kvikmyndasjóður hefur ekki fengið lögboðnar tekjur. Alþingi hefur ávallt skorið þær tekjur niður sem Kvikmyndasjóði eru ætlaðar en þó mismunandi mikið. Allmikill niðurskurður var gerður á tekjum sjóðsins við fjárlagagerð nú í vetur og fær Kvikmyndasjóður nú úr ríkissjóði 71 millj. kr. sem er sama upphæð og var á síðasta ári.
    Fleira hefur þó gerst sem gefur tilefni til nokkurrar bjartsýni. Nýlega var samþykkt á vettvangi Norðurlandaráðs að stofna norrænan kvikmyndasjóð sem hefði það verkefni að styrkja kvikmyndagerð á Norðurlöndum. Hér á Íslandi hljóta menn að líta björtum augum til hins norræna kvikmyndasjóðs og enginn vafi er á að Íslendingar eiga eftir að njóta góðs af starfsemi hans. Hinn norræni kvikmyndasjóður má þó alls ekki verða til þess að við látum okkar eigin hlut eftir liggja og þess vegna var leitt að sjá það í grg. með fjárlagafrv. á sl. vetri að niðurskurður á framlagi til Kvikmyndasjóðs var sérstaklega rökstuddur með því að norræni kvikmyndasjóðurinn og Kvikmyndasjóður Evrópu mundu væntanlega styrkja starfsemi íslenskra kvikmyndagerðarmanna verulega. Þessir sjóðir voru að sjálfsögðu hugsaðir sem viðbót við það sem fyrir var og viðbót við það sem við Íslendingar mundum láta af hendi rakna í þessu efni en áttu engan veginn að koma í staðinn fyrir það sem við látum af hendi rakna eins og gefið

var í skyn í grg. með fjárlagafrv. á sl. vetri.
    Ég held það sé mjög mikilvægt að við reynum, Íslendingar, að efla innlenda kvikmyndagerð. Kvikmyndir eru mjög áhrifamikill miðill í lífi nútímamannsins. Þjóð sem vill efla eigin menningu getur ekki látið öðrum þjóðum það algjörlega eftir að framleiða fyrir sig kvikmyndir. Við þurfum að vera skapendur á þessu sviði en ekki bara þiggjendur og þess vegna ber okkur að hlúa að íslenskri kvikmyndagerð með öllum tiltækum ráðum.
    Það hefur legið fyrir um nokkurn tíma að það væri nauðsynlegt að endurskoða þau lög sem nú gilda um kvikmyndamál og nú liggur hér sem sagt fyrir frv. frá hæstv. menntmrh. til laga um Kvikmyndastofnun Íslands og gert ráð fyrir að sérstök kvikmyndastofnun starfi hér á landi sem heyri undir menntmrn.
    Ég verð að vísu að viðurkenna að þetta nafn, Kvikmyndastofnun, finnst mér ekki mjög skemmtilegt en ég geri það ekki að neinu ágreiningsefni hér. Ég hefði þó talið að reyna ætti að huga að því að finna betra orð yfir þessa starfsemi hér á Íslandi.
    Ég vildi, eins og ég sagði áðan, gera nokkrar athugasemdir hér við 1. umr. þessa máls þó að ég eigi sæti í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um málið og fái þar tækifæri til þess að ræða ítarlegar um frv. Ég byrja á að ræða um 2. gr. frv., þ.e. þá grein sem fjallar um stjórn Kvikmyndastofnunarinnar.
    Í 2. gr. segir:
    ,,Menntmrh. skipar stofnuninni þriggja manna stjórn til þriggja ára í senn. Skal einn skipaður samkvæmt tilnefningu Félags kvikmyndagerðarmanna, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda og einn án tilnefningar. Enginn skal sitja í stjórn stofnunarinnar lengur en þrjú ár samfellt. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.``
    Samkvæmt núgildandi lögum, þar sem fjallað er um Kvikmyndasjóð, skipar menntmrh. sjóðnum fimm manna stjórn í stað þriggja eins og gert er ráð fyrir í frv. Formaður er skipaður án tilnefningar af ráðherra en hinir fjórir samkvæmt tilnefningum eftirtalinna aðila: Félags kvikmyndagerðarmanna, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félags kvikmyndahúsaeigenda og Bandalags
íslenskra listamanna. Auk þess eiga að taka sæti í stjórninni þegar fjallað er um málefni kvikmyndasafns stjórnarmenn tilnefndir af Þjóðminjasafni Íslands og Námsgagnastofnun.
    Mér er auðvitað ljóst að mönnum er alltaf nokkur vandi á höndum þegar verið er að skipa slíkar stjórnir, bæði hversu fjölmennar þær eigi að vera og hvaða samtök eigi að eiga fulltrúa í slíkum stjórnum.
    Vandinn við þessa stjórn til þessa, og mér sýnist að ekki sé komið í veg fyrir þann vanda með þessu frv., er sá að stjórnarmenn hafa verið tengdir hagsmunaböndum við meginverkefni sjóðsins sem hefur auðvitað verið að úthluta styrkjum til kvikmyndagerðar. Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að skipa sérstaka úthlutunarnefnd, þriggja manna, og hún hefur verið skipuð mönnum sem ekki hafa hagsmuna að gæta. Ég hygg að nú eigi sæti í

henni formaður stjórnarinnar, sem er Knútur Hallsson ráðuneytisstjóri, og auk þess Birgir Sigurðsson rithöfundur og Þorvarður Helgason sem hefur verið bæði rithöfundur og gagnrýnandi. Ef menn hins vegar á annað borð fara þá leið sem er í frv. bendi ég á að Félag kvikmyndaleikstjóra er ekki með í þessari upptalningu, á ekki aðila að stjórn Kvikmyndastofnunarinnar. Ég hygg að Félag kvikmyndaleikstjóra sé nokkuð öflugt félag og eigi a.m.k. ekki minni rétt til þess að skipa mann í stjórn Kvikmyndastofnunar en þau samtök sem þarna eru tilnefnd og eru þau þó góðra gjalda verð.
    Fleiri en ein leið koma til greina í þessu sambandi, t.d. að hafa tiltölulega fámenna stjórn sem ekki sé bundin hagsmunaaðilum, því að meginverkefni þessarar stjórnar er auðvitað að úthluta styrkjum úr þessum sjóði, en hafa síðan stærri stofnun eða stærra ráð, eins konar fulltrúaráð, þar sem allir sem hagsmunatengsl hafa geta komið saman til þess að móta meginstefnu í sambandi við eflingu íslenskrar kvikmyndagerðar. Annar möguleiki er líka að fjölga í þessari stjórn sem þarna situr og fá fleiri aðila til þess að tilnefna, eins og Félag kvikmyndaleikstjóra, en hafa síðan úthlutun styrkja á hendi annarra aðila eins og reyndar er gert ráð fyrir í frv. og ég mun nánar koma að hér á eftir. Mér finnst að þetta atriði þurfi að hugleiða mjög rækilega í nefndinni sem fær þetta mál til meðferðar.
    Kem ég þá að því að ræða um 5. gr. þar sem gerð er tillaga um að lögfesta hvernig úthlutun úr sjóðnum eigi að fara fram. Og einmitt vegna hagsmunatengslanna sem ég gat um áðan hefur þeim sem semja þetta frv. auðvitað verið það ljóst að úthlutunin yrði að vera í höndum einhverra annarra, þ.e. að meginverkefni stofnunarinnar yrði að vera í höndum einhverra annarra en stjórnar stofnunarinnar.
    Þá er farin óskaplega óljós og ruglingsleg leið, vil ég segja. Í 5. gr. er sagt:
    ,,Stjórn Kvikmyndastofnunar skipar tvær þriggja manna nefndir til að úthluta úr Kvikmyndasjóði, úthlutunarnefnd A og úthlutunarnefnd B. Skulu meðstjórnendur í stjórn stofnunarinnar vera formenn hvor í sinni nefnd, skipaðir til eins árs í senn. Aðrir nefndarmenn skulu skipaðir án tilnefningar til tveggja ára í senn. Enginn skal sitja lengur en tvö ár samfellt í úthlutunarnefnd. Nefndarmenn mega ekki eiga hagsmuna að gæta við úthlutunina.``
    Þetta finnst mér óljóst og ruglingslegt kerfi. Síðan segir í 6. gr. hvert eigi að vera hlutverk úthlutunarnefnda, en það er að úthluta styrkjum úr Kvikmyndasjóði til íslenskrar kvikmyndagerðar, óháð því hvaða tækni er notuð við myndgerðina, og síðan segir: ,,Nefnd A skal ljúka úthlutun samkvæmt 1. mgr. í janúar ár hvert en nefnd B í júlí ár hvert og skal nefnd A eigi hafa minna fé til ráðstöfunar en sem svarar 2 / 3 af heildarfjárveitingu til sjóðsins.``
    Mér finnst þetta ekki nægilega glögg ákvæði um verkaskiptingu milli þessara tveggja úthlutunarnefnda. Það koma þarna sem sagt tvær úthlutunarnefndir í stað einnar áður. Ég held að það sé alveg ljóst að það

hefur verið dálítið erfitt að fá menn í úthlutunarnefnd sem ekki hefðu hagsmuna að gæta því að þessi heimur okkar hér, kvikmyndaheimurinn, er þröngur og lítill og þar keppast menn auðvitað um að fá styrki til kvikmyndagerðar. Þess vegna hefur verið mjög erfitt að fá menn til setu í úthlutunarnefnd sem örugglega hefðu ekki hagsmuna að gæta. En nú eiga formenn þessara nefnda, A og B, að vera þeir tveir sem eru meðstjórnendur í stjórn stofnunarinnar og eru þá fulltrúar, annaðhvort Félags kvikmyndagerðarmanna eða Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Mér sýnist að það verði ákaflega erfitt með þessu ákvæði, eins og það er þarna sett upp, að koma í veg fyrir þau hagsmunatengsl sem þó er skýrt tekið fram að eigi ekki að vera til staðar eins og þetta er orðað í 5. gr.
    Þessa athugasemd vildi ég gera strax við 1. umr. þessa máls því að ég tel að þetta þurfi að athuga mjög rækilega því þarna eru auðvitað miklir hagsmunir í húfi þannig að það er nauðsynlegt að í löggjöf sé rækilega gengið frá þeim þáttum sem mikilvægastir eru sem eru auðvitað hvernig staðið skuli að úthlutun úr sjóðnum.
    Í 8. gr. er nýmæli sem ég hygg að sé mjög til bóta, þ.e. að stjórninni er heimilt til viðbótar við styrk til kvikmyndagerðar að veita ábyrgð fyrir
bankalánum til þess að standa undir allt að 15% kostnaðar. Ég veit ekki og vildi nú spyrja hæstv. ráðherra að því hvort kannað hafi verið hvernig þetta ákvæði muni í rauninni virka. Ég tek það fram, eins og ég sagði áðan, að ég tel þetta mjög til bóta ef hægt er að veita ábyrgð af þessu tagi. En mundu bankar t.d. telja ábyrgð fullnægjandi sem þessi sjóður veitti? Mundu þeir ekki áfram fara fram á fasteignaveð eins og þeir gera undir flestum kringumstæðum þegar slík lán eru veitt? Og ef ábyrgð fellur á sjóðinn, hvað þá? Hvernig fer með fjármagn hans að öðru leyti? Verður þetta þá einhvern veginn tengt Ríkisábyrgðasjóði eða öðrum slíkum stofnunum? Er ekki nauðsynlegt að það sé betur orðað í frv. hvað raunverulega sé á bak við þennan ábyrgðarsjóð sem þarna er um að ræða? Eiga einungis að vera fjárveitingar ársins sem renna til Kvikmyndasjóðs sem gætu þá hugsanlega á einhverju ári að miklu leyti farið til þess að greiða upp slíkar ábyrgðir sem féllu á sjóðinn eða á að leysa það með einhverjum öðrum hætti? Þetta finnst mér ekki nægilega skýrt í frv. og þyrfti að huga betur að því.
    Í 9. gr. er fjallað um að fari stuðningur við framleiðslu myndar fram úr helmingi af kostnaði við gerð hennar getur stjórn sjóðsins óskað eftir því að ríkisbókhaldið fari yfir fjárreiður fyrirtækisins. Ég hefði talið miklu æskilegra og eðlilegra að það væri Ríkisendurskoðun sem færi yfir fjárreiður fyrirtækisins en ekki ríkisbókhald. Ég hef alltaf litið á ríkisbókhaldið sem hlutlausan bókhaldara sem ekki tekur afstöðu til eins eða neins heldur færir bókhaldið bara eins og það liggur fyrir, en það sé hins vegar hlutverk Ríkisendurskoðunar að fara með gagnrýnisaugum yfir bókhaldið og kanna hvað sé að.

Ég hefði því talið það æskilegra að þarna kæmi Ríkisendurskoðun í staðinn fyrir ríkisbókhald en vildi þó gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvaða rök hafi sérstaklega mælt með því að ríkisbókhaldið fengi þetta verkefni en ekki Ríkisendurskoðun.
    Áður en ég kem að lokaþætti í máli mínu vildi ég aðeins víkja að ákvæði til bráðabirgða sem er þáttur í því fyrirkomulagi sem sett er upp samkvæmt 5. gr. um úthlutunarnefndir og mér finnst þetta bráðabirgðaákvæði renna stoðum undir það sem ég hef sagt að allt er þetta dálítið flókið og óljóst.
    Að lokum, herra forseti, þá er tekið inn í grg. frásögn af hvernig einni helstu tillögu þeirrar nefndar sem undirbjó frv. reiddi af. Um það segir í grg.:
    ,,Meginbreytingin frá frumvarpstillögum nefndarinnar felst í því að nú er gert ráð fyrir því að taka ákvæði um skattfrelsi framlaga til kvikmyndagerðar inn í reglugerð um álagningu tekjuskatts í stað þess að hafa ákvæðið í kvikmyndalögum. Verður reglugerð breytt þannig að í a-lið 12. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 615/1987, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála, verði bætt orðunum ,,og íslenskar kvikmyndir sem hafa hlotið viðurkenningu Kvikmyndastofnunar``. Þetta þýðir að fyrirtæki geta dregið frá tekjum sínum fyrir skatt allt að 0,5% af aðstöðugjaldsstofni vegna kvikmyndagerðar. Hér getur verið um að ræða verulegar fjárhæðir þegar um er að ræða stærri fyrirtæki og munar hvað mestu um þennan lið sem ákveðinn er í tengslum við frv. Hefur fjmrh. ákveðið að breyta reglugerðinni um leið og frv. þetta verður að lögum.``
    Ég vildi vekja sérstaka athygli á þessu. Ég skil það út af fyrir sig að menn telji eðlilegt að ákvæði af þessu tagi séu í skattalögum og þeim reglugerðum sem settar eru í sambandi við skattalög frekar en að slíkum ákvæðum sé dreift inn í löggjöf hér og þar. Það er mikilvægt að menn geti lesið skattalögin í einni heild og áttað sig á því þar hvernig beri að haga skattlagningu og hvaða frádrætti er um að ræða. Ég vildi hins vegar vekja athygli á þessu og auðvitað treystir maður því að ef þetta frv. verður að lögum verði við þetta staðið og að slík reglugerð verði þá gefin út.
    Ég hef hins vegar ekki skoðað lögin sérstaklega í þessu sambandi og maður spyr sjálfan sig að því hvort þetta rúmist ekki innan laganna eins og þau eru í dag, þ.e. skattalaganna, og vildi inna hæstv. ráðherra eftir því. Það er talað um, ef ég man rétt, frádrátt til menningarmála almennt en vafalaust yrði það þó til bóta að skilgreina þetta betur, að kvikmyndagerð falli örugglega undir þessi ákvæði.
    Ég læt þessar athugasemdir hér við 1. umr. duga en taldi rétt að koma þeim að áður en málið fer til nefndar.