Skaðsemisábyrgð
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir athugasemdir og ábendingar sem fram komu í ræðu hennar. Ég heyrði ekki betur en að hún sé mér sammála um það að þetta mál þurfi að fá vandaða meðferð og umsagnir þeirra sem þarna eiga hagsmuna að gæta. Ég nefni samtök útflytjenda, samtök neytenda og samtök framleiðenda og verslunaraðila hér á landi, reyndar vátryggjenda einnig, eins og kom fram í mínu máli. Ég tel mjög mikilvægt að þessi þáttur í samræmingu á okkar viðskiptalöggjöf við það sem gerist í heiminum í kringum okkur sé tekinn þessum tökum. Hins vegar er ekki rétt, að mínu áliti, hjá hv. 3. þm. Reykv. að þetta sé eina löggjöfin sem varðar þær breytingar á viðskiptaháttum sem eru að verða í löndunum í kringum okkur. Ég bendi t.d. á löggjöfina um verðbréfafyrirtæki og verðbréfaviðskipti svo að ég taki eitt dæmi frá síðasta þingi. Ég bendi líka á það að ég vonast til að kynna hér á þinginu, með líkum hætti og frv. um skaðsemisábyrgð, frv. til laga um staðla og staðlastarfsemi sem miklu máli skiptir varðandi viðskipti okkar við Evrópurríkin og reyndar öll ríki þegar fram líða stundir.
    Það er mikilvægt, sem kom fram í máli hv. 3. þm. Reykv., að hér er verið að gera mun á gallaðri vöru og vöru sem haldin er skaðlegum eiginleikum þótt hún sé eðlilega eða venjulega notuð. Þetta er í raun og veru kjarni málsins og löggjöfin er tilraun til þess að takast á við þennan vanda sem hlýst af flóknari þjóðfélagsgerð, flóknari tækniferlum í framleiðslu, dreifingu og notkun á vöru en áður þekktist. Það er enginn vafi á því að okkur er mikil þörf á lögum um þetta efni til þess að verja réttarstöðu neytenda, til þess að tryggja okkar útflutningi aðgang að markaði. Þegar þetta tvennt fer saman ríður á að tímanlega sé í taumana tekið og það er nákvæmlega tilgangur þessa frv. en ekki sá að knýja þetta fram hér á skömmum tíma.
    Það er rétt, sem kom fram í máli hv. 3. þm. Reykv., að frv. er samið af þeim Jóni Finnbjörnssyni héraðsdómara og Arnljóti Björnssyni prófessor. Greinargerðin er hins vegar samin í viðskrn. vegna þess að því miður forfallaðist aðalhöfundur frv., Jón Finnbjörnsson héraðsdómari, vegna slyss. Það varð þess vegna að ráði að starfsmenn viðskrn. semdu greinargerðina í samráði við Arnljót Björnsson og á grundvelli gagna sem hægt var að fá úr fórum Jóns Finnbjörnssonar. Ég tek það fram, vegna þess sem fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv. og varðar prentvillu á bls. 3 þar sem mér virðist, eins og henni, að orðið ,,huglægur`` hafi verið ranglega prentað í staðinn fyrir ,,hlutlægur``. Til þess að staðfesta það enn frekar bendi ég á það sem segir í 11. síðu í greinargerðinni um 6. gr. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í þessari grein er kveðið á um hina hlutlægu (objektívu) ábyrgð framleiðenda á tjóni, sem stafar af ágalla vöru, sem hann hefur framleitt eða látið af hendi.``
    Þetta er réttilega, eins og kom fram hjá hv. 3. þm.

Reykv., kjarni þessa máls.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, mælast til þess að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu og að það fái á vegum nefndarinnar, gjarnan með þátttöku viðskrn. ef nefndin óskar þess, þá umsagnarmeðferð sem ég lýsti nokkuð í fyrri ræðu minni.