Atvinnuleysistryggingar
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 64/1981, með síðari breytingum, sem flutt er á þskj. 931.
    Haustið 1988 skipaði ég nefnd sem fékk það verkefni að endurskoða nokkur tilgreind ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar. Í nefndina voru skipaðir þeir Jón Ingimarsson skrifstofustjóri, án tilnefningar, og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar, Eyþór Þorbergsson lögfræðingur, tilnefndur af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Guðmundur Þ. Jónsson, formaður Landssambands iðnverkafólks, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Jón Rúnar Pálsson lögfræðingur, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, Eyjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuleysistryggingasjóðs, tilnefndur af stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Tilefni þess að nefndin var skipuð var ósk stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um að nokkur tilgreind ákvæði í lögum um atvinnuleysistryggingar yrðu endurskoðuð. Telja má að störf nefndarinnar hafi verið langt komin þegar formaður hennar, Jón Ingimarsson, andaðist í september 1989. Hinn 22. sept. 1989 skipaði ég Eyjólf Jónsson formann nefndarinnar, en ekki var skipaður nýr maður í nefndina.
    Nefndin lauk störfum í nóvember 1989 en klofnaði í afstöðu sinni til breytinga á 3. gr. laga nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, en greinin útilokar nú nokkrar tilgreindar stéttir frá atvinnuleysisbótum. Nefndin varð þó sammála um að leggja til breytingar á greininni. Helmingur nefndarmanna vill að fellt verði niður það skilyrði bótaréttar að hlutaðeigandi umsækjandi sé í stéttarfélagi. Hinn helmingur nefndarinnar vill láta nægja að rýmka aðgang stéttarfélaga að Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Í frv. því sem hér er lagt fram er brtt. um 3. gr. í samræmi við vilja þeirra nefndarmanna sem vildu ganga skemmra í breytingum á ákvæðum laganna. En þann hluta nefndarinnar skipuðu fulltrúi Alþýðusambands Íslands og Atvinnuleysistryggingasjóðs og er mér kunnugt um það að vilji fulltrúa ráðuneytisins var samhljóða því sjónarmiði meðan hans naut við.
    Breytingarnar eru þær að í lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð eins og þau hljóða nú segir svo í 3. gr.:
    ,,Ákvæði laga þessara taka ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, lækna, lögfræðinga, endurskoðenda, verkfræðinga né annarra sambærilegra aðila.``
    Eins og þessi grein hljóðar síðan í frv. sem hér er mælt fyrir og er 1. gr. þess, um breyting á 3. gr. laganna, segir svo:
    ,,3. gr. hljóði svo:
    Ákvæði laga þessara taka til félagsmanna í þeim stéttarfélögum, sem við gildistöku þeirra eru aðilar að

Atvinnuleysistryggingasjóði, svo og þeirra félaga sem stjórn sjóðsins veitir síðar aðild að sjóðnum eftir umsókn þeirra þar um. Lögin taka ekki til þeirra sem tryggður er réttur til atvinnuleysisbóta með öðrum lögum.``
    Eins og kemur í ljós af samanburði á þessum lagatextum er ljóst að hér er um allnokkra útvíkkun á heimildum Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess að greiða atvinnuleysistryggingabætur að ræða, en þó enn þá skilyrði að viðkomandi einstaklingar séu aðilar að stéttarfélögum. Og þar sem segir í seinni málsl. 1. gr. frv. að lögin taki ekki til þeirra, sem tryggður er réttur til atvinnuleysisbóta með öðrum lögum, er átt við þá einstaklinga sem eru opinberir starfsmenn eða eiga aðild að stéttarfélögum starfsfólks ríkis og sveitarfélaga.
    Til þess að árétta aðeins nánar í hverju þessi ágreiningur kann að vera falinn sem kom fram í nefndinni og í nefndarálitunum sem urðu tvö, eins og fram hefur komið, tel ég rétt að vitna í þessi nefndarálit svo að það komi fram í þingtíðindum. Í greinargerð með tillögum fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Atvinnuleysistryggingasjóðs segir:
    ,,Er nefndin hóf störf haustið 1988 komu fljótlega í ljós mismunandi sjónarmið varðandi það hve langt skyldi gengið í tillögum til breytinga að því er varðar nokkur ákvæði laganna, einkum um aðild að atvinnuleysistryggingum og stjórn þeirra. Nefndarmenn voru sammála um að leggja til breytingar á 3. gr. laganna sem nú útilokar nokkrar tilgreindar stéttir frá atvinnuleysisbótum. Tveir nefndarmanna, þeir Jón Rúnar Pálsson og Eyþór Þorbergsson, vildu að fellt yrði niður það skilyrði bótaréttar að hlutaðeigandi umsækjandi væri í stéttarfélagi. Aðrir nefndarmenn töldu að hér væri um slíka grundvallarbreytingu að ræða að þeir væru ekki reiðubúnir að leggja það til. Æskilegt væri að fá sem fyrst breytingar á nokkrum ákvæðum laganna en umræða um breytingar á grunnskipulagi þeirra væri líkleg til að tefja málið til muna.``
    Í nefndaráliti fulltrúa Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambands samvinnufélaganna segir m.a.:
    ,,Fulltrúi Atvinnuleysistryggingasjóðs og fulltrúi Alþýðusambands Íslands lögðu fram á fundi nefndarinnar þann 20. nóv. sl. tillögu sem miðaði að því að viðhalda núverandi kerfi sem byggist á að ófélagsbundnir launamenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Sú ,,réttarbót`` felst þó í tillögum tvímenninganna að nú munu háskólamenntaðir menn í stéttarfélögum öðlast rétt til atvinnuleysisbóta. Samkvæmt þessum tillögum þurfa t.d. lögfræðingar og viðskipta- og hagfræðingar sem ekki eru í ríkisþjónustu að stofna sérstök stéttarfélög til þess eins að geta öðlast rétt til atvinnuleysisbóta.``
    Fulltrúar þessara samtaka, eins og t.d. viðskipta- og hagfræðinga og einnig verkfræðinga, hafa gengið á fund minn og lýst því yfir að þeir telji að eins og frv. liggi nú fyrir sé það mjög til bóta þó svo það leggi á þá kvöð að þeir myndi stéttarfélög til þess að eiga aðild að sjóðnum, en telja að það sé samt nægjanlegt,

a.m.k. að sinni, að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Ég taldi rétt að leggja það fyrir eins og fulltrúar Alþýðusambandsins og Atvinnuleysistryggingasjóðs vildu, þar sem annars væri um svo mikla grundvallarbreytingu að ræða að það þyrfti nánari skoðun og væri vart hægt að leggja það hér til í andstöðu við fulltrúa Alþýðusambandsins. A.m.k. vil ég þá að það verði skoðað nánar og síðar, en tel að aðrar breytingar sem í frv. felast séu það mikilvægar að æskilegt væri að þær hlytu samþykki hér og nú.
    Um aðrar breytingar á lögunum sem fram koma í frv. varð samkomulag í nefndinni. Helstu nýmæli frv. eru: Gildissvið laga um atvinnuleysistryggingar rýmka. Frv. gerir ráð fyrir að þau nái til félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem eru eða geta gerst aðilar að Atvinnuleysistryggingasjóði eins og þegar hefur komið fram. Aldurshámark vegna atvinnuleysisbóta miðast við 71 árs aldur. Þetta þýðir að einstaklingur sem missir starf sitt sjötugur fær möguleika á að vera umsækjandi um atvinnu og fá atvinnuleysisbætur um tíma meðan hann leitar fyrir sér um starf sem kynni að henta honum. Nú er ekkert aldurshámark í lögunum. Það var áður 67 ár en var fellt niður í lok 7. áratugarins.
    Í meðfylgjandi frumvarpsdrögum er lagt til að bótarétt eigi þeir sem eru orðnir 16 ára en yngri eru en 71 árs. Úrræði aldraðra eru orðin önnur nú en áður var með stóraukinni tekjutryggingu almannatrygginga og tilkomu lífeyrissjóða. Ekki er eðlilegt að greiddar séu atvinnuleysisbætur löngu eftir að tengslum bóta við vinnumarkað er lokið, enda leiðir það beinlínis af sér skerðingu eða brottfall tekjutryggingar almannatrygginga. Það virðist færast í vöxt að starfsmönnum sé sagt upp um sjötugt vegna aldurs og jafnvel dæmi um lægri aldur. Í nágrannalöndunum er aldurshámark atvinnuleysistrygginga 65--67 ár, en það er ekki með öllu sambærilegt þar sem úrræði almannatrygginga vegna aldurs geta tekið til yngra fólks þar en hér.
    Þá má nefna ákvæði um geymslu bótaréttar og skyldu bótaþega sem notið hefur bóta í fjórar vikur eða lengur að viðlögðum missi bótaréttar að taka vinnu i starfsgrein sem er erfiðari en sú sem hann stundaði áður, enda geti hann ekki sannað að hann sé ófær um að stunda það starf sem í boði er. Og að reglum um greiðslur vegna fyrirsjáanlegrar skerðingar á vinnutíma er breytt til samræmis við framkvæmd og lagt til að í lögunum sé beint tekið fram að bótaréttur falli niður sé starfsmönnum sagt upp.
    Í kostnaðaráliti frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun segir svo að ljóst sé að nokkur útgjaldaauki hljóti að verða af samþykkt frv. þar sem bótarétturinn er rýmkaður og fleiri aðilar eiga nú rétt á bótum en áður. En mjög erfitt er að meta það í upphæðum þar sem það hlýtur auðvitað að fara eftir atvinnuástandi á hverjum tíma.
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um frv. þetta, enda reyndar fátt þingmanna orðið í salnum til þess að hlýða á framsögu þessa. Ég vonast hins vegar til þess að

nefndin, sem fær málið til meðferðar, kynni sér það ítarlega. Auðvitað er ítarleg greinargerð og athugasemdir við einstakar greinar frv. sem skýra það sem hér kemur fram, auk þess sem ég hef reynt að láta það koma skýrt fram að ekki varð fullkomin samstaða í nefndinni sem fjallaði um frv. og reynt einnig að gera grein fyrir því í hverju sá mismunur var fólginn.
    Ég legg því til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.