Náttúruvernd
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Flm. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegur forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Þar er lögð til sú breyting að við 1. mgr. 19. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðist svo:
    ,,Einnig er heimilt að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu við vegamót heimreiðar og aðalþjóðvegar til kauptúna eða kaupstaða þar sem slík starfsemi fer fram.``
    Það hefur reynst mjög bagalegt fyrir kauptún sem liggja úr helstu alfaraleið að hafa ekki óskoraðan rétt til að vekja athygli ferðamanna, sem leið eiga um þjóðveginn, á þeim þjónustumöguleikum sem þau hafa upp á að bjóða. Það væri áreiðanlega mikil lyftistöng fyrir viðkomandi staði að geta aukið ferðamannastrauminn eitthvað með þessu móti og einnig komið til móts við ferðamenn með því að benda á þá þjónustu sem þeir eiga völ á þegar þeir þurfa á slíku að halda á leið sinni um landið.
    Ég hef tekið dæmi um ferðamann sem er á leið úr höfuðborginni um þjóðveg 1 og þjóðveg 76 norður um land í áttina til Siglufjarðar. Þegar hann er kominn yfir Holtavörðuheiði á hann leið fram hjá Hvammstanga, Skagaströnd, Sauðárkróki og Hofsósi, án þess að þessir staðir hafi möguleika til að setja upp auglýsingaskilti á látlausan hátt við þjóðveginn sem upplýsti ferðamanninn um hótel, bensínstöð, bifreiðaþjónustu og aðra þjónustu og atvinnustarfsemi, eða jafnvel mannfundi sem væntanlegir eru.
Íbúar þessara staða hafa haft áhuga á að koma upp upplýsingaskiltum um þessa þjónustu við þjóðveg 1 og þjóðveg 76, við þau vegamót sem liggja til þessara staða, en hafa verið í talsverðum vandræðum vegna ákvæða náttúruverndarlaga sem bannar uppsetningu slíkra skilta. Þessi lagabreyting er því til þess ætluð að réttur staða, sem þannig eru í sveit settir, sé ótvíræður til að vekja athygli með þessum hætti á því mannlífi sem þar fer fram.
    Ég mundi leggja til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og --- ég er nú ekki viss um til hvaða nefndar þetta mál ætti að fara en ég mætti e.t.v. fá að leysa það í samráði við forseta. ( Forseti: Forseti telur það sjálfsagt.)