Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
    Hér er um að ræða tvö atriði sem bæði lúta að því að afturkalla breytingar sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir á skattalögum og eru afturvirkar. Það er sem sagt lagt til með frv. að þessum afturvirku atriðum verði breytt þannig að lögin gildi einungis fram í tímann en ekki afturvirkt, gildi ekki aftur fyrir sig, og valdi ekki afturvirkri íþyngingu gagnvart einstaka skattþegnum.
    Ég skal í örfáum orðum gera grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Í fyrsta lagi, og um það fjalla 1. og 2. gr. frv., er um að ræða afturköllun á þeirri afturvirku íþyngingu sem gerð var gagnvart þeim aðilum sem gerðu ráðstafanir til húsnæðisöflunar á árinu 1988 og á fyrri hluta árs 1989 í trausti þess að þeir nytu húsnæðisbóta í sex ár eins og gildandi lög á þeim tíma gerðu ráð fyrir.
    Þegar hér voru samþykkt á Alþingi lög nr. 79 fyrir tæpu ári síðan voru svokallaðar vaxtabætur innleiddar í löggjöfina og skyldu þær taka yfir hlutverk húsnæðisbóta að því leyti til að þær voru hugsaðar til að greiða fyrir húsnæðisöflun hjá þeim sem lágar hafa tekjur og litlar eiga eignir. Sú fyrirgreiðsla var áður í formi húsnæðisbóta sem komu inn í skattkerfið með
upptöku staðgreiðslukerfis skatta og voru fyrst greiddar út á árinu 1988 og höfðu þess vegna aðeins verið stuttan tíma í lögum. Gert var ráð fyrir því að húsnæðisbótum ættu menn rétt á í sex ár þannig að ljóst er að verulegur hópur fólks hefur gert fjárhagslegar skuldbindingar vegna húsnæðisöflunar í trausti þess að það fengi húsnæðisbætur í sex ár eins og lögin gerðu ráð fyrir.
    Það er viðurkennt með lögum nr. 79 frá því í fyrra að þarna hafi myndast ákveðinn réttur hjá fólki en sú viðurkenning er ekki látin ná til allra þeirra sem hér eiga hlut að máli. Þess vegna er gert ráð fyrir í frv. þessu að allir þeir sem töldu sig í góðri trú á grundvelli gildandi laga eiga rétt á húsnæðisbótum fái þær, eins og lög stóðu þá til, en að vaxtabæturnar taki síðan við frá og með gildistöku eða birtingardegi laga um vaxtabætur, að mönnum sé ekki refsað afturvirkt ef það stendur þannig á fyrir þeim að þeir hefðu átt rétt á húsnæðisbótum en eiga ekki rétt á vaxtabótum.
    Hér er töluvert flókið mál á ferðinni, herra forseti, vegna þess að svo getur staðið á um einstaklinga, þó svo að vaxtabætur eigi að koma í staðinn fyrir húsnæðisbætur, að viðkomandi eigi ekki rétt á vaxtabótum þó svo að hann hefði átt rétt á húsnæðisbótum. Það er vegna þess að skilyrði þess að fá vaxtabætur eru þrengri en þau sem giltu áður um húsnæðisbætur.
    Þannig var með þessari breytingu einhver hópur fólks --- ég veit ekki hvað hann er stór --- sviptur ákveðnum rétti með afturvirkum hætti, sviptur rétti til húsnæðisbóta í allt að fimm ár, og ákveðinn hópur jafnframt, þeir sem öfluðu sér húsnæðis á tímabilinu

1. jan. 1989 til 14. júní sama ár, í allt að sex ár.
    Hér er auðvitað um að ræða töluverða hagsmuni vegna þess að húsnæðisbæturnar nema nú rúmum 53 þús. kr. fyrir hvern einstakling miðað við lánskjaravísitölu í desember sl. og hjón eiga í flestum tilfellum rétt á tvöföldum bótum. Þess vegna getur þessi íþynging, þessi skerðing réttinda sem þarna er hugsanleg, numið rúmlega 640 þús. kr. á núvirði ef bæði hjón hafa átt rétt á húsnæðisbótum og ef þau gengust undir skuldbindingar vegna húsnæðisöflunar snemma ársins 1989 og eiga ekki rétt á vaxtabótum.
    Ég geri mér ekki grein fyrir, herra forseti, hvað hér er um marga einstaklinga að ræða en mér finnst það heldur ekki vera aðalatriðið. Það má vel vera að það séu örfáir einstaklingar, jafnvel enginn, þó að ég telji það nú að vísu ólíklegt. Ég tel víst að þess séu dæmi að lögin nr. 79 frá 1989 hafi skert rétt og hag einhvers hóps manna. En aðalatriðið í þessu máli út frá lagalegu sjónarmiði er auðvitað það að það er fullkomlega óeðlilegt og ósiðlegt að íþyngja mönnum afturvirkt í skattalögum og um þetta hefur verið margrætt á Alþingi í tengslum við ýmis lög á fyrri árum sem vinstri stjórnir hafa beitt sér fyrir. Það virðist vera einhver undarleg árátta hjá vinstri flokkunum hér á Alþingi að geta helst aldrei skipt sér af skattamálum eða sett ný lög um það efni án þess að hafa einhverja afturvirkni þar með. Um þetta eru ótal dæmi frá síðustu árum og áratugum. Nægir að nefna til að mynda löggjöf frá árinu 1978 þegar ríkisstjórnin sem þá tók við um haustið setti afturvirk skattalög sem voru mjög umdeild á sínum tíma. Sömuleiðis ákvæði í skattalögum sem samþykkt voru fyrir jólin 1988 að því er varðar skattlagningu fyrirtækja, og fleira og fleira. Það virðast því vera einhver álög á vinstri flokkunum að setja ekki skattalög nema þannig að þau séu að einhverju leyti afturvirk. Þetta er auðvitað algjört skattalegt siðleysi og lögfræðileg handarbakavinnubrögð, svo ekki sé meira sagt, og auðvitað á ekki að þurfa að flytja frv. sem þetta til leiðréttingar á slíkum atriðum. Það á auðvitað ekki að þurfa en það virðist vera svo að það þurfi að setja einhvers konar ákvæði í
stjórnarskrá til þess að tryggja að óábyrgir stjórnmálamenn og óábyrgar ríkisstjórnir setji ekki hvað ofan í annað afturvirk ákvæði í skattalögim.
    Ég hef rakið fyrra atriði þess máls sem hér er um að ræða, herra forseti, varðandi húsnæðisbæturnar, en einnig var breytt ákvæði annars staðar í þessum lögum í sambandi við breytingar sem gerðar voru á vaxtabótum fyrir síðustu jól. Í því tilfelli var skilgreiningu á því hvað teljast mætti vaxtagjöld breytt þannig að þó svo að þessari skilgreiningu væri ekki breytt fyrr en í lok ársins var hún látin gilda fyrir allt árið. Aðilar sem höfðu gert sínar ráðstafanir á árinu, frá því í janúar og fram í desember, þar til lögin voru samþykkt, gátu því auðvitað ekki vitað betur en að þau skattalög sem þá voru í gildi mundu ná yfir þær ráðstafanir sem viðkomandi voru að gera. Síðan er þessu skyndilega breytt með afturvirkum og fullkomlega óeðlilegum hætti.

    Ég hlýt auðvitað að fordæma þessi vinnubrögð og þess vegna er þetta frv. flutt, í góðri samvinnu við nokkra aðra þingmenn, þar sem gert er ráð fyrir að frá þessari afturvirkni verði fallið en ekki breytingunum sem slíkum að því er varðar framtíðina. Ég geri ekki athugasemd við þær sjálfar, en maður hlýtur auðvitað að gera athugasemdir þegar svona er staðið að málum, enda held ég að verði frv. ekki að lögum þá stefni hér í málaferli með einhverjum hætti þar sem einstaklingar sem hér eiga hlut að máli muni leita réttar síns að því er bæði þessi atriði varðar, bæði húsnæðisbæturnar og þessa afturvirkni skilgreiningar á því hvað teljast megi vaxtagjöld. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að einhver aðili leiti réttar síns fyrir dómstólum og reyni að hnekkja því að lögum sé breytt til íþyngingar með svona afturvirkum hætti. Ég held að það sé hreinasta ósvinna að gera það og harma það reyndar að hafa ekki farið nógu vel yfir þetta atriði hér fyrir síðustu jól til þess að geta gert þessar athugasemdir á þeim tíma. En við, þessir óbreyttu þingmenn í stjórnarandstöðu, höfum ekki önnur úrræði þegar svona stendur á en að flytja nýtt frv. um að hnekkja því sem hér þarf að breyta. Og það er það sem hér liggur fyrir og hefur verið gert með þessu frv.
    Hins vegar, ef ég þekki vini mína í stjórnarflokkunum rétt, þá munu þeir eflaust ekki leggja sig mjög fram um að breyta þessu, en ég vildi nú skora á þá og ekki síst á hv. formann fjh.- og viðskn., fyrst hann er hér í salnum, að skoða þetta mál vel í nefndinni. Það þarf ekki að taka langan tíma, og hér er ekki um útgjaldaaukandi áhrif að ræða svo neinu nemi fyrir ríkissjóð, hins vegar ákveðið réttlæti gagnvart eflaust tiltölulega litlum hópi fólks sem hér á hlut að máli og sem hefur hugsanlega ekki enn þá gert sér grein fyrir því að réttur þess hafi verið skertur. Vegna þess að það kemur ekki fram í öllum tilvikum fyrr en við álagningu í sumar þegar þeir sem gerðu ráð fyrir því að fá húsnæðisbætur á grundvelli fyrri laga fá ekki þá peninga sem þeir gerðu ráð fyrir.
    Það er tækifæri til að leiðrétta það sem gert var hér þannig að þeir sem þetta mál snertir nái rétti sínum, ella spái ég því að það muni koma til heiftúðugra málaferla af hálfu einhverra þeirra sem hér eiga hagsmuna að gæta.
    Herra forseti. Ég hafði óskað eftir því að forseti léti kanna hvort hæstv. fjmrh. hefði tök á að vera hér við. Líður því máli nokkuð? ( Forseti: Já. Það hefur verið athugað. Hæstv. ráðherra var ekki í þinghúsi. Hann var væntanlegur í ráðuneyti sitt um hálftvöleytið og yrði þá látinn vita um þess ósk. Það er staða máls. Hér eru fleiri á mælendaskránni í málinu þannig að eftir því má þá ganga ef hv. frummælandi óskar eftir að ráðherrann komi.) Ég þakka forseta fyrir þessar upplýsingar.
    Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Ég vænti þess í fullri vinsemd að það verði tekið til skoðunar í alvöru í hv. fjh.- og viðskn. Ég tel að um raunverulegt vandamál sé að ræða sem hér er bent

á og lögð til lausn á sem allir geti haft fullan sóma af að afgreiða með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég hefði gjarnan viljað að ráðherrann léti álit sitt í ljós á þessu, ef hann hefur kynnt sér þetta mál, því ég held að flestir geti verið sammála um að sú íþynging sem orðið hefur í þessum efnum er óréttmæt.
    Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og til 2. umr. en áskil mér rétt til að taka til máls að nýju ef fjmrh. hefur tök á því að vera hér við síðar við umræðuna.