Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem er flutt af nokkrum þingmönnum Sjálfstfl. auk mín, er ekki flutt að ástæðulausu. Frv. er mjög tímabært vegna þess að þær breytingar sem voru gerðar með því að taka upp vaxtabætur hafa breytt myndinni mjög illilega fyrir þá aðila sem höfðu reiknað með í fyrsta lagi að hafa áframhaldandi húsnæðisbætur en fá þær ekki. Þeir höfðu gert sínar ráðstafanir varðandi kaup og byggingu húsnæðis og nú er ákveðið að það gildi ekki lengur. Þeir verða því fyrir allmiklum fjárhagslegum skaða. Þá fellur hluti þeirra aðila sem hefðu átt rétt á þessu utan þessa kerfis vegna þess að frá þeim tíma eða tímabilinu 1. jan. 1989 til 14. júní 1989 eiga þessir aðilar ekki rétt á neinu. Þeir njóta ekki húsnæðisbóta, eiga að vísu e.t.v. möguleika á að fá vaxtabætur, en vaxtabæturnar sem voru teknar upp í staðinn fyrir húsnæðisbætur eiga aðeins við um þá aðila sem kaupa eftir nýja húsbréfakerfinu og aðeins um þá aðila sem nánast eru eignalausir, hafa ekkert eigið fé. En þeir aðilar sem áður gerðu ráð fyrir því í sínum útreikningum að þeir nytu húsnæðisbóta sitja nú eftir og fá ekki þessar húsnæðisbætur. Ég er ansi hræddur um að í sumar, þegar búið er að leggja á skatta, vakni þessir aðilar upp við vondan draum. Það er alveg hárrétt sem hv. 17. þm. Reykv. sagði hér áðan um þetta atriði. Ég held líka að sú stefna sem hefur birst hér æ oftar, að gera lög afturvirk í skattamálum, gangi bara hreinlega ekki og ég er sammála því sem hv. 17. þm. Reykv. sagði hér að það er e.t.v. tímabært að binda það í stjórnarskrá landsins að ekki sé hægt að hafa skattalög afturvirk.
    Ég vil einnig undirstrika það um þetta frv. að ráðstafanir hæstv. félmrh., sem hefði auðvitað líka verið nauðsynlegt að hafa hér við umræðuna, í húsnæðismálum stefna æ meira að því að mismuna fólki. Það er verið að draga fólk í dilka með mjög ósmekklegum hætti sem ekki hefur verið gert nándar nærri eins harkalaga hér á Íslandi áður. Og ég tel að þær breytingar sem voru gerðar með vaxtabótum og með því að leggja niður húsnæðisbætur séu einn af þeim liðum sem eru ekki til bóta heldur alveg þveröfugt, skaða húsbyggjendur og þá sem eru að kaupa.
    Ég tel einnig að þær breytingar sem voru gerðar með því að fella niður húsnæðisbætur og taka upp vaxtabætur vegi að þeirri stefnu sem var kölluð sjálfseignarstefna hér á Íslandi með mjög róttækum hætti og með þessari lagasetningu hafi verið stefnt að því að sjálfseignarstefnunni verði raunverulega sagt stríð á hendur og að þær breytingar sem hæstv. félmrh. hefur staðið fyrir stefni allar í þá átt að gera fólkið sem mest háð hinu opinbera kerfi og að það verði gert með þeim hætti að fólkið verði að leita æ meira til hins opinbera með æ fleiri hluti. Það er verið að vega að sjálfstæði hvers einstaklings og fólksins í landinu með þeim lagasetningum sem hér hafa gengið

í þinginu og þeim breytingum sem hafa verið gerðar. Ég tel því tímabært að a.m.k. verði þetta frv. tekið til greina og það verði með þeim hætti að þeir aðilar sem fyrir 14. júní 1989 höfðu keypt húsnæði eða byggt og hefðu átt rétt á húsnæðisbótum eftir fyrra kerfi eigi að njóta þess áfram og eigi að fá húsnæðisbætur eftir því sem þau lög fjölluðu um á meðan það gengur yfir. Síðan er auðvitað hægt að breyta þessum lögum um vaxtabætur síðar því að ég tel að þau lög hafi verið ill lög eins og mörg lög sem hæstv. félmrh. hefur sett um þessi atriði.
    Þar sem hæstv. fjmrh. gengur nú í salinn er náttúrlega nauðsynlegt að spyrja hann að því hvort hann vilji ekki stuðla að því að frv. sem hér er til umræðu verði samþykkt þannig að afturvirkni laga um vaxtabætur verði kallað til baka
og þeir sem hafi keypt eða byggt fyrir 14. júní 1989 fái að njóta réttar samkvæmt eldri lögum um húsnæðisbætur. Það er mjög mikilvægt að fá svör við þessu núna. Ég tel að það væri auðvitað réttlætismál því að afturvirkni í skattalögum á ekki að eiga sér stað. Og ég þykist vita að hæstv. fjmrh. muni taka undir þetta og ekki efast ég um að hinn velviljaði formaður fjh.- og viðskn. Nd. muni láta þetta fá skjóta og góða afgreiðslu. Að öðru leyti vil ég ekki segja meira um þetta.