Varðveisla ljósvakaefnis
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá félmn. um till. til þál. um athugun á varðveislu ljósvakaefnis, en það, nál. varðandi 71. mál, er á þskj. 984, svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem felur í sér að fram fari athugun á hvernig best verði staðið að varðveislu ljósvakaefnis sem hafi gildi vegna menningarsögu eða fyrir rannsóknir. Umsagnir bárust frá eftirtöldum: Landsbókasafni og Háskólabókasafni (sameiginlega), Ríkisútvarpinu, Stöð 2, Þjóðminjasafni og Þjóðskjalasafni. Þá komu til fundar við nefndina Elín Kristinsdóttir, safnastjóri RÚV, Ragnhildur Bragadóttir, forstöðumaður myndasafns Stöðvar 2, og Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður.
    Margt athyglisvert kom fram hjá umsagnaraðilum og viðmælendum nefndarinnar. Lagafyrirmæli eru um varðveislu ljósvakaefnis í útvarpslögum, nr. 68/1985 (17. og 34. gr.), og í lögum um Þjóðskjalasafn, nr. 66/1985 (3. gr.), og reglur í mótun um útfærslu þeirra. Hins vegar eru engin lagafyrirmæli til er taki til varðveislu á efni einkastöðva og þær eru ekki skilaskyldar til Þjóðskjalasafns. Verulegur vandi blasir við vegna vöntunar á geymslurými og fjárskorts til viðhalds á ljósvakaefni en myndbandaupptökur endast vart meira en 15 ár.
    Í umsögn útvarpsstjóra kemur m.a. fram:
    ,,Lögum samkvæmt hóf Ríkisútvarpið samstarf við Þjóðskjalasafnið vegna geymslu safnefnis á árinu 1987. Fram að þeim tíma hafði ekki verið um neinn einn ákveðinn aðila að ræða sem hafði yfirumsjón með safnamálum Ríkisútvarpsins og safnkosturinn því ekki byggður upp á markvissan hátt. Ný deild, safnadeild, hefur nú tekið við þessu hlutverki. ... Mótaða heildarstefnu fyrir hljóðvarp og sjónvarp hefur vantað á geymslu- og grisjunarsviðinu. Ekki er hægt að uppfylla ákvæði útvarpslaganna um geymslu á öllu efni til frambúðar, m.a. vegna manneklu og vöntunar á geymslurými. ... Það verður að teljast eðlileg skipan mála að Ríkisútvarpið varðveiti myndir, plötur og hljómbönd enda geymslur þess innréttaðar með það í huga en Þjóðskjalasafnið taki við öðrum gögnum. ... Þar sem þegar eru til lagaákvæði um skipan þessara mála og mikil undirbúningsvinna hefur verið unnin á grundvelli þeirra hjá Ríkisútvarpinu í samráði við Þjóðskjalasafn verður að telja það rétt að halda áfram á þeirri braut sem þegar hefur verið mörkuð.``
    Í umsögn Stöðvar 2 segir m.a.:
    ,,Fullunnu innlendu dagskrárefni, ásamt fréttaþáttum, er haldið til haga í myndasafni Stöðvar 2. Allt fullunnið efni er varðveitt, og mestallt hráefni, hvort sem það er unnið af Stöð 2 eða þriðja aðila.``
    Um fréttir og fréttatengt efni segir að Stöð 2 standi ,,fljótlega frammi fyrir ákvörðun varðandi framtíðarvörslu á því efni``. Um staka tilbúna þætti segir m.a.:
    ,,Ljóst er að mikið af þessu efni verður að yfirfæra á ódýrari myndbönd og munu gæði þessa efnis þar með stórlega versna. ... Stefna Íslenska

sjónvarpsfélagsins hf. er að varðveita allt innlent sjónvarpsefni. Því er hins vegar ekki að neita að eftir því sem safn þetta vex stendur félagið frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum hvað þetta varðar, þ.e.a.s. (a) geymslurými, og (b) stighækkandi kostnaði.``
    Þjóðskjalavörður segir m.a.:
    ,,Þjóðskjalavörður hefur átt viðræður við útvarpsstjóra um varðveislu dagskrárefnis sérstaklega og var niðurstaða sú að velja þyrfti úr efni sem varðveita skal til frambúðar. Var ákveðið að koma á fót samstarfsnefnd sem setti reglur um þetta efni en hún hefur ekki enn verið skipuð. Eins og fram kemur í lögum taka útvarpsstjóri, útvarpsráð og þjóðskjalavörður lokaákvörðun um varðveislu dagskrárefnis.
    Í gildandi lögum hefur verið mótuð sú stefna að varðveita beri ljósvakaefni Ríkisútvarps á þess vegum. Má vænta þess að bestur aðbúnaður verði í safnadeild þess til að sinna varðveisluhlutverki og veita nauðsynlega þjónustu. Á það er rétt að benda að engar hliðstæðar reglur gilda um varðveislu gagna og dagskrárefnis einkastöðva í útvarpsrekstri (hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva) og er vafalaust erfitt að skylda einkaaðila með lögum til að standa undir varðveisluskyldu ljósvakaefnis. Má því ætla að einhverri varðveislustofnun verði falið að taka við ljósvakaefni sem þær framleiða og ástæða er til að varðveita til frambúðar. Engar reglur gilda um það hverjir skuli fjalla um grisjun dagskrárefnis einkaútvarpsstöðva og er þarft verk að velta þeim málum fyrir sér og setja leiðbeinandi reglur.
    Ég er þeirrar skoðunar að varðveislumál Ríkisútvarps hafi nú verið tekin föstum tökum en þeim er ekki borgið fyrr en safnadeild Ríkisútvarps hefur fengið nægjanlegt húsrými og reglur um grisjun dagskrárefnis hafa verið mótaðar.
    Ég tel að í þáltill. þessari sé hreyft þörfu máli og vek athygli á því að miklum vandkvæðum er bundið að varðveita og fá til varðveislu mikilvæg gögn um nútímasamfélag sem flutt eru með tölvubúnaði milli manna og stofnana.``
    Landsbókavörður og háskólabókavörður telja m.a. ,,... að heppilegast sé að Ríkisútvarpið, bæði hljóðvarp og sjónvarp, annist grisjun umrædds efnis í samráði við Þjóðskjalasafn og fleiri aðila, ef ástæða þykir til, og varðveisla þess verði einnig á vegum þess. Ríkisútvarpið þyrfti að geta veitt aðgang að efninu en því sé einnig heimilt að lána það til notkunar í t.a.m. Landsbókasafni og Háskólabókasafni (og síðar Þjóðarbókhlöðu) sem og Þjóðskjalasafni. Brýnt er að Ríkisútvarpinu verði gert kleift að skrá hið varðveitta efni því að það er eitt meginskilyrði þess að það komi að tilætluðum notum.``
    Þjóðminjavörður segir m.a. í ítarlegri umsögn:
    ,,Ég get varla lagt til að komið verði á fót enn einni stofnun til að annast úrval og framtíðarvarðveislu slíks efnis en hins vegar er ljóst að það verður ekki gert af neinu viti nema til komi sérstakt fólk sem þekkingu hafi og tilfinningu til að geta valið úr það efni sem varðveita skuli.

    Mér liggur næst við að leggja til að varðveisla slíks efnis skuli falin stofnun sem á annað borð beitir sér að varðveislu sögulegra eða menningarsögulegra heimilda. Vil ég ætla að Þjóðskjalasafn Íslands sé sú stofnun sem málið heyrði eðlilegast undir enda yrði því gert fjárhagslega kleift að bæta á sig þessu verkefni.
    Til að velja efni ætti að kveðja þrjá menn, einn frá Þjóðskjalasafni, einn frá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og einn frá þjóðháttadeild Þjóðminjasafns. ... Lýsi ég fyllsta stuðningi við nefnda þáltill. og mælist til að hún verði vandlega skoðuð í nefnd og afgreidd frá Alþingi og ekki látið þar við sitja heldur fylgt eftir með raunverulegum aðgerðum.``
    Nefndin telur að þrátt fyrir góða viðleitni hin síðustu ár til að framfylgja ákvæðum laga um varðveislu ljósvakaefnis vanti enn mikið á að mál þessi séu komin í það horf sem æskilegt er. Nefndin bendir á að m.a. vantar reglur um geymslu og grisjun ljósvakaefnis og engin lagafyrirmæli eru um varðveislu ljósvakaefnis einkastöðva. Með vísan til þessa og fyrrgreindra umsagna leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Kristinn Pétursson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.``
    Undir rita aðrir nefndarmenn í félmn. Nál. er dags. 10. apríl 1990.