Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Það er öllum þingmönnum ljóst að nú lifir mjög skammt eftir af þessu þingi og brýnt er að öll þau mál fái afgreiðslu úr nefndum þingsins sem ætlunin er að afgreiða hér í vor.
    Ég kveð mér hér hljóðs og beini orðum mínum fyrst og fremst til hv. formanns utanrmn. og inni hann eftir því hvað líði afgreiðslu á þáltill. um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum varaflugvelli á Íslandi. Þannig háttar til að þessi tillaga er endurflutt á þessu þingi. Hún var flutt í fyrra en hlaut þá ekki afgreiðslu. Hún var flutt strax í haust á nýjan leik og hún var send hv. utanrmn. hinn 8. febr. sl. Ég held að það liggi fyrir, virðulegi forseti, að þótt ágreiningur sé um þessa tillögu innan þingsins og innan utanrmn. er ástæða til að ætla að hún eigi verulegt fylgi í þinginu og fullkomlega eðlilegt að hún fái að koma til atkvæða.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því, virðulegur forseti, að þannig háttar til um tillöguna að ráðherra þessa málaflokks, hæstv. utanrrh., hefur sérstaklega lýst því yfir í blaði, í sínu eigin málgagni, Alþýðublaðinu, hinn 7. febr. sl., að hann sjái enga ástæðu til að hafa á móti því að þessi tillaga verði samþykkt á Alþingi. Þess vegna, í ljósi þess hvernig þetta mál er allt vaxið, vildi ég beina spurningu til hv. formanns utanrmn., spyrja hann hvar þetta mál er á vegi statt, og um leið skora á hann og aðra nefndarmenn að beita sér fyrir því að þetta mál fái afgreiðslu í nefndinni nú á næstunni þannig að það megi koma til atkvæða hér við síðari umræðu áður en þingi lýkur í vor og niðurstaða fást í þetta mál nú á þessu þingi.