Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Hv. 17. þm. Reykv. hefur beint til mín þeirri fyrirspurn sem formanns utanrmn. hvað líði afgreiðslu ákveðinnar tillögu í utanrmn.
    Sú tillaga er til meðferðar hjá okkur í nefndinni, kom að vísu til nefndarinnar 12. febr., án þess að það breyti öllu, hann nefndi held ég 8. febr. Það breytir kannski ekki stóru. Nefndarmenn í utanrmn. hafa óskað eftir ákveðnum upplýsingum frá utanrrn. sem ekki hafa borist enn. Ég mun að sjálfsögðu gera mitt til þess, ef tími vinnst til, að ljúka afgreiðslu tillögunnar úr nefndinni fyrir þingslit.
    Í utanrmn. hefur verið mjög góð samstaða um að afgreiða sem flestar af þeim tillögum sem þar eru. Sumar munu trúlega liggja eins og oft vill verða, ekki vegna þess að ég sé að reyna að draga úr því heldur hefur ekki verið samstaða um jákvæða afgreiðslu á þeim. Stundum þykir, eins og þingmönnum er kunnugt, þó það eigi ekki sérstaklega við þessa, ekki óskynsamlegt að láta tillögur frekar liggja en fella þær.
    Af því að farið er að ræða hér um afgreiðslu tillagna er vert að vekja athygli á því að miðað við yfirlit yfir nefndarstörf frá 18. febr. sýnist mér að við í utanrmn. stöndum nefndarmönnum í öðrum nefndum alveg fyllilega á sporði, í sameinuðu þingi a.m.k.