Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur snúist um þrjú atriði fyrst og fremst þó að ég hafi hafið hana á grundvelli einungis eins máls. Hér hafa menn verið að tala almennt um afgreiðslu mála úr nefndum. Ég ætla ekki að blanda mér í það. Hér hafa menn verið að tala um svör við skýrslubeiðni frá hv. 1. þm. Reykv. Ég ætla heldur ekki að blanda mér í það.
    Málið sem ég tók upp er spurningin um afgreiðslu á þáltill. um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum varaflugvelli á Íslandi og afgreiðslu þess máls úr hv. utanrmn.
    Ég vil þakka formanni nefndarinnar fyrir svör hans. En óneitanlega ruglast maður eilítið í ríminu þegar formaður nefndarinnar segir að ekki sé hægt að afgreiða málið úr nefndinni vegna þess að það strandi á upplýsingum frá hv. utanrrn. en ráðherrann kemur síðan og segist ekki vita til þess að það vanti neinar upplýsingar og kannast ekkert við að um neitt hafi verið beðið sem ekki liggi fyrir. Þetta eru náttúrlega ekki fullnægjandi svör. Ég hlýt auðvitað að krefjast þess að menn greiði úr þeim ruglingi sem hér virðist vera upp kominn og afgreiði þetta mál og það verði látið koma hér til atkvæða, eins og alltaf hefur verið beðið um, í Sþ. Ef það er rétt að utanrrn. hafi ekkert að fela í þessu máli, eins og ég hef fyllstu ástæðu til að ætla að sé rétt, þá á ekki að vera neinum erfiðleikum bundið að allir nefndarmenn í utanrmn. geti fengið þær upplýsingar sem þeir vilja og sameinist síðan um að afgreiða málið úr nefndinni og koma því hér til atkvæða. Eða er þetta ekki það sem málið snýst um? Er það kannski ekki það að einhver skjöl vanti úr utanrrn.? Skyldi það kannski vera djúpstæður, pólitískur ágreiningur í stjórnarliðinu um afstöðuna til málsins? Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu, en auðvitað læðist að manni sá grunur.
    Ég túlka hins vegar ummæli formanns nefndarinnar hér áðan svo að hann vilji beita sér fyrir því að þetta mál fái eðlilega afgreiðslu út úr nefndinni. Hann tók það sérstaklega fram að það ætti ekki við um þessa tillögu að oft væri betra að tillögur lægju kyrrar í nefndum í stað þess að vera felldar. Ég leyfi mér að túlka það svo að hann telji rétt að afgreiða þessa tillögu.
    Hvað sem því líður er náttúrlega nauðsynlegt að greiða úr þessum ruglingi sem virðist vera milli nefndarinnar og ráðuneytisins í fyrsta lagi og í öðru lagi er nauðsynlegt að afgreiða málið út úr nefndinni og koma því hér til atkvæða. Þá reynir á vilja þingsins og þá geta menn sýnt í verki með atkvæði sínu hvaða afstöðu þeir hafa til þessa máls. Það er ekki beðið um neitt annað.