Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Jóhann Einvarðsson:
    Hæstv. forseti. Út af þeim orðum sem hér hafa fallið í sambandi við afgreiðslu á þessari tillögu frá utanrmn. vil ég segja þetta til viðbótar við það sem ég sagði áðan. Ég hélt því ekki fram að við í utanrmn. hefðum beðið í tvo mánuði eftir svari frá utanrrn., það er af og frá. Málinu er vísað til okkar 8. febr. og er tekið til umræðu nokkru seinna. Þá biður einn nefndarmanna um ákveðnar upplýsingar frá ráðuneytinu og ítrekar það svo aftur nokkrum fundum síðar. Þær upplýsingar hafa ekki komið. Það er viðtekin venja að verða við beiðnum nefndarmanna þegar þeir óska eftir upplýsingum í nefndarstarfi. Það er auðvitað mjög fljótlegt og einfalt að fletta þessu upp og sjá hvenær þetta skeði og hvaða beiðnir þetta eru og það mun ég að sjálfsögðu gera strax eftir þennan dag, en ég vissi ekki af þessari umræðu áður en ég kom hingað.
    Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því eins og ég get, og ég held að nefndarmenn séu almennt sammála því, að koma sem flestum málum frá nefndinni. Eins og ég tók fram áðan þá stendur ekki upp á okkur í samanburði við aðrar nefndir í þinginu. Við afgreiddum t.d. fjórar tillögur í morgun, þar af eina þingmannatillögu. Þær koma til umræðu á næstunni. Við munum afgreiða a.m.k. eina eða tvær alveg á næstu dögum þannig að það verður ekki margt sem mun stranda hjá okkur vegna tímaskorts. Ef þetta mál út af þessari tillögu leysist fljótt þá mun ég að sjálfsögðu kalla nefndina saman og þá verður rætt á hvern hátt við afgreiðum þessa tillögu.