Ferðamálastefna
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Friðjón Þórðarson:
    Hæstv. forseti. Það er ekki þörf á að ræða þessa till. í löngu máli á þessu stigi þar sem hæstv. ráðherra hefur gert góða grein fyrir henni. Sjálf er till. mjög efnismikil og hefur verið viðað til hennar úr mörgum áttum.
    Þar sem ég átti sæti í þeirri nefnd sem undirbjó þessa till. vil ég þó láta nokkur orð falla af minni hálfu. Nefndin hefur starfað undir forustu hv. 2. þm. Austurl. Mjög vel hefur verið unnið í þessari nefnd og allra mest hefur formaðurinn auðvitað unnið sjálfur. Ég tel að nefndin geti vel staðið fyrir sínu máli, a.m.k. hingað til. Hún hefur farið yfir stöðu ferðamála hérlendis og aflað vitneskju um stefnumörkun í ferðamálum í nágrannalöndum. Nefndarmenn hafa átt viðtöl við fjölmarga hagsmunaaðila og ýmsa fleiri sem tengjast ferðaþjónustu á einn eða annan máta.
    Að sjálfsögðu hafa verið gerðar nokkrar atrennur til að móta almenna stefnu í ferðamálum á liðnum árum því það eru allnokkrir áratugir frá því að fyrstu lög um ferðamál litu dagsins ljós hér á landi. Hægt er að vitna í ýmsar skýrslur í því sambandi, t.d. skýrslu sem gerð var á vegum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1973, hina svonefndu Checchi-skýrslu eða ,,Tourism in Iceland``. Þá má nefna ,,Bláu skýrsluna`` frá árinu 1981 og ,,Grænu skýrsluna`` frá 1987 og svona mætti lengur telja þannig að menn hafa ekki setið auðum höndum í þessum málum, alls ekki. Þar sem hér er um mikilvæga atvinnugrein að ræða sem hefur margar hliðar er mjög eðlilegt að reynt sé að taka þessi mál föstum tökum og móta stefnu í þeim af mörgum ástæðum. Ég álít því að hér sé verið að reyna að vinna gott verk.
    Það mætti að sjálfsögðu hafa um þetta mörg orð. Sjálfur hef ég tekið nokkurn þátt í því að móta löggjöf í þessum efnum, var m.a. formaður þeirrar nefndar sem síðast athugaði og endurskoðaði lög um ferðamál. En ég verð að segja það
eins og er að sú nefnd sem nú situr að störfum og fjallar um þessi mál tekur þetta fastari tökum og vinnur betur að þessum málum en ég gerði á sínum tíma.
    Það eru einkum tvö atriði sem ég vil benda sérstaklega á sem verður auðvitað að hafa ríkulega í huga. Það er umhverfisverndin fyrst og fremst. Verndun umhverfis er undirstöðuatriði að því er varðar framtíð ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta verða menn að muna. Það er því mikilvægt að við skipulag ferðamála og rekstur ferðaþjónustu sé verndun náttúru og umhverfis höfð að leiðarljósi.
    Í öðru lagi má nefna byggðaþróun og ferðaþjónustu, hvernig þetta tvennt tengist saman. Þá vil ég leggja áherslu á að ferðaþjónusta er atvinnugrein sem stuðlað getur að jákvæðri þróun byggðar í landinu með því að auka fjölbreytni í atvinnu og bæta þjónustu sem einnig kemur heimafólki til góða víðs vegar um land.
    Ég held að gert sé ráð fyrir því að ferðamálin verði áfram vistuð í samgrn. og fer vel á því að

mínum dómi. Það er ýmislegt sem ekki hefur verið fullathugað í þessu máli. T.d. hafa fáar athuganir verið gerðar á því hvað einkum laðar erlenda skemmtiferðamenn til Íslands, svo maður tali um erlenda skemmtiferðamenn. Þó bendir flest til þess að það sé öðru fremur náttúra landsins. Náttúran er því sú auðlind sem íslensk ferðaþjónusta byggir að miklu leyti tilveru sína á. Það gildir einnig um ferðir Íslendinga innan lands að verulegu leyti, að ég hygg.
    Til að festa fáist í ferðaþjónustu sem lífvænlega atvinnugrein er brýnt að ákvarðanir séu teknar um þau starfsskilyrði sem henni eru ætluð af hálfu hins opinbera. Reynt er að gera það með þessari till. og umfjöllun hennar og síðan framkvæmd.
    Ég held að það sé rétt hermt að þessi níu manna nefnd sem hefur starfað vel saman sé búin að fara yfir tvo fyrstu töluliði eða þætti í því skipunarbréfi sem henni var lagt upp í hendur í öndverðu. Nú liggur fyrir að fara yfir gildandi lög á næstu mánuðum. Hún fær ekki óskert sumarleyfi, nefndin, að þessu leyti. Það er víst meiningin að reyna að skila af sér síðsumars á þessu ári og að leggja þá fram tillögur um æskilegar breytingar á löggjöf. Satt að segja hef ég litið svo á að löggjöfin hafi þróast nokkurn veginn eðlilega með árunum. Hitt er svo annað mál, að það sem við verðum að vænta að verði til staðar að verki okkar loknu í þessari nefnd er að nægilegt og nauðsynlegt fé fáist af hálfu hins opinbera til að styðja þessa mikilvægu atvinnugrein meðan hún er að komast á laggirnar. Þessi orð vildi ég aðeins láta falla hér af minni hálfu.