Ferðamálastefna
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Hér hefur mjög margt komið fram sem ég get heils hugar tekið undir. Mig langaði einungis til þess að lýsa sérstakri ánægju með það að þessi tillaga er fram komin og vona svo sannarlega að hugur núverandi stjórnvalda fylgi því máli hæstv. samgrh. sem við heyrðum af hans svörum hér áðan þegar hann mælti fyrir tillögunni og kemur fram í því plaggi sem hér liggur fyrir.
    Ferðamál hafa verið vanrækt af hálfu stjórnvalda, um það er engum blöðum að fletta, þrátt fyrir þá staðreynd að þau skipta okkur fjárhagslega svo gífurlega miklu máli sem fram kemur í grg. með tillögunni. Atvinnumál landsbyggðarinnar eru oft til umfjöllunar, og ferðamálin skipta í því tilliti mjög miklu máli, ekki hvað síst atvinnumál kvenna á landsbyggðinni. Nú sýnist manni vera bjartara fram undan fyrir þessa atvinnugrein eftir að þessi tillaga er fram komin og eftir þær umræður sem hér hafa farið fram og er það vel.
    Ég vil að lokum geta þess að árið 1988 samþykkti Alþingi þáltill. frá varaþingmanni Framsfl., Unni Stefánsdóttur, og fleirum um mótun opinberrar ferðamálastefnu. Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar er því eðlilegt framhald af þeirri samþykkt og það er von mín að það skref sem nú er stigið verði þessari mikilvægu atvinnugrein til framdráttar og þar með þjóðarhag.