Ferðamálastefna
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað og lýst yfir með einum eða öðrum hætti stuðningi við þessa tillögu og það starf sem hún hvílir á. Ég leyfi mér þó fyrst, hafi mér láðst það í fyrri ræðu minni sem mér býður í grun, að færa auðvitað sérstakar þakkir nefndinni sem unnið hefur þetta starf og þar með drög að þessari þáltill. Þar hefur verið unnið mjög mikið og mjög gott starf að mínu mati og ég nota þetta tækifæri til að færa nefndinni allri og þó auðvitað ekki síst formanni hennar og starfsmanni kærar þakkir fyrir þeirra framlag. Ég bind mjög miklar vonir við þetta starf, ekki bara það sem þegar liggur fyrir í formi þessarar áfangaskýrslu og þessarar þáltill. heldur og það sem á eftir kemur og lýtur bæði að yfirferð á lagaákvæðum sem snerta ferðaþjónustuna og ferðamálin og einnig áframhaldandi vinnu að samkeppnisstöðu og þjóðhagslegu mikilvægi greinarinnar, en því verður varla á móti mælt að fram undir það allra síðasta hafa menn byggt á afar fátæklegum grunni hvað snertir upplýsingar um efnahagslegt og þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar, um stærð hennar í þjóðarbúskapnum, gjaldeyrissköpun, störf o.s.frv.
    Það er von mín að sú vinna sem fylgir þessu starfi muni bæta þar verulega úr, og það er enda ætlunin að taka upp að ýmsu leyti breytta skráningu og breytta úrvinnslu þjóðhagslegra gagna hjá m.a. Þjóðhagsstofnun þannig að unnt verði að greina betur þátt ferðamálanna og ferðaþjónustunnar í efnahagslífinu og þjóðarbúskapnum. Það held ég að sé mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi, ekki síst til þess að gera ráðamönnum grein fyrir því og sanna það í raun og veru tölfræðilega og tölulega hversu mikilvæg atvinnugrein er hér á ferðinni og mikilvæg verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið.
    Spurt var að því hvort ekki bæri að skilja framlagningu tillögunnar svo hér á síðustu dögum, skulum við ætla eða a.m.k. síðustu vikum, alla vega síðustu
mánuðum þinghaldsins, að hún væri lögð fram til kynningar og það er að sjálfsögðu rétt. Auðvitað er þinginu í sjálfsvald sett hvað það kýs að gera og yrði það niðurstaða manna að hér væri svo fullskapað verk á ferðinni að það væri bókstaflega ekkert að vanbúnaði að afgreiða það hefur þingið það að sjálfsögðu í sínum höndum. En það er einlæg von okkar í öllu falli að hv. nefnd taki málið fyrir og sendi til umsagnar þannig að sumarið megi nýtast m.a. til þess að safna saman umsögnum og fara yfir þær.
    Hér voru nefnd ýmis áhersluatriði sem einstakir ræðumenn vildu gefa vigt með því að nefna þau til sérstaklega. Þar komu fram þættir eins og umhverfismál, byggðamál, menntun, rannsóknir og þróunarstarf á þessu sviði og svo auðvitað fjármagn. Undir það allt saman get ég meira og minna tekið heils hugar auðvitað. Ég hygg að það dyljist mönnum ekki sem fara yfir þessa tillögu og þetta starf að

umhverfismálin, verndun náttúru og umhverfis, og skipulagning ferðaþjónustunnar út frá þeim sjónarmiðum eru eins og rauður þráður í gegnum þetta starf. Það er vel og þannig á það og þarf það að vera.
    Í öðru lagi um byggðamálin: Það er auðvitað alveg ljóst að það er orðið mikilvægt skipulagsatriði í sjálfu sér, í rekstri ferðaþjónustunnar í landinu, að dreifa álagi af henni betur um landið og í því skyni þarf að gera, eins og ég sagði í minni framsöguræðu, sem flest og helst öll byggðarlög landsins að virkum þátttakendum í þessari atvinnugrein. Þetta skiptir líka máli í viðleitni okkar til þess að skapa störf og auka fjölbreytni atvinnulífs út um landið og menn geta horft til þess með þó nokkurri ánægju á þeim annars að mörgu leyti dökku dögum sem ganga yfir í okkar byggðamálum að ferðaþjónustan er líklega sú grein atvinnulífsins sem helst hefur byggst upp í einhverju jafnvægi og landsbyggðinni í hag hvað varðar ný störf á undangengnum árum. Uppbygging í ferðaþjónustunni hefur orðið hlutfallslega mikil úti á landi miðað við íbúatölu og ég tala nú ekki um miðað við það sem gerst hefur í öðrum atvinnugreinum. Um þetta liggja fyrir tölur og það er auðvitað mjög vel. Þar á Ferðaþjónusta bænda verulegan hlut að máli. Um menntun og rannsóknir og þróunarstarf á þessu sviði vísa ég til þess sem ég áður sagði og til tillögunnar.
    Um fjármagnið er það auðvitað svo að helst þarf að gera þá kröfu að hinn markaði tekjustofn skili sér að fullu og öllu til greinarinnar og það strax. Það þarf að sjálfsögðu helst að takast að láta það rætast ekki síðar en strax. Og risminna mark en það að skila þessu í áföngum á 1--2 árum geta menn að mínu mati ekki sett sér. Það er alveg ljóst að það stefnir í enn eitt metár í þessum efnum hjá okkur á yfirstandandi ári. Allar upplýsingar sem fram hafa komið frá flugfélögum og ferðaskrifstofum og öðrum slíkum aðilum um bókanir og horfur hvað ferðaþjónustuna snertir á þessu ári spá fyrir um eitt og hið sama, að það verði enn eitt metár og þar með áframhald á þeirri þróun að fjöldi erlendra ferðamanna fari vaxandi. Enn sem komið er er þar því miður um að ræða að langmestu leyti gríðarlegan topp yfir sumarmánuðina sem veldur því að álagið á helstu ferðamannastaði landsmanna fer enn vaxandi á komandi sumri. Það má verða mönnum umhugsunarverð staðreynd í ljósi þess sem áður hefur verið
sagt um ástandið þar víða og þetta ber allt að sama brunni. Það verður að takast að leggja þessari vaxandi grein til meira fjármagn, ekki síst til þess að mæta þeirri vaxandi þörf sem er á sviði umhverfismála og í uppbyggingu á ýmsum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið, ekki síst í óbyggðum.
    Það þarf einnig að marka að ýmsu leyti skýrari stefnu, að mínu mati, en hingað til hefur verið við lýði í sambandi við ráðstöfun fjármuna og áherslur í því sambandi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé eitt af því brýna á því sviði að leggja Ferðamálasjóði til tekjustofn þannig að hann verði því hlutverki sínu vaxinn að ekki bara veita lánsfé út í

greinina til uppbyggingar heldur geti hann og stjórn hans haft um það forgöngu að marka stefnu um hvernig styrkjum eða þá hagstæðri fyrirgreiðslu af einhverjum toga verði varið á komandi árum til að efla og byggja upp ferðaþjónustuna, og þá er ég ekki síst að hugsa um nauðsynlega þjónustu og heilsársþjónustu á mikilvægustu stöðunum úti á landi. Sú uppbygging og ráðstöfun fjármuna í því sambandi á að vera hluti af ferðamálastefnunni. Að mínu mati er því langeðlilegast og farsælast að Ferðamálaráð og Ferðamálasjóður fari með stefnumörkunina og framkvæmdina á því sviði eins og almennt framkvæmd ferðamálastefnunnar fyrir hönd stjórnvalda. Ráðuneyti, ríkisstjórn og Alþingi eiga þar að marka almenna rammann og almennu stefnuna, sem og að stýra fjárveitingum hverju sinni.
    Hæstv. forseti, eins og ég lærði af hæstv. fyrrv. forseta að ætti ævinlega að ávarpa forseta því að allir væru þingmenn virðulegir og ekki þyrfti að taka það fram sérstaklega um forseta, og þess vegna væri það rangt að ávarpa forseta virðulegur forseti heldur skuli segja hæstv. forseti og geri ég það nú hér með.
    Hæstv. forseti. Ég ætla þá ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra sem hér hafa tekið þátt í umræðunni, sem og til nefndarinnar fyrir hennar mikilvægu störf.