Frelsi í gjaldeyrismálum
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Flm. (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Ég hef flutt hér, ásamt hópi þingmanna úr Sjálfstfl. og frá frjálslyndum hægrimönnum, till. til þál. um frelsi í gjaldeyrismálum. Tillgr. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gefa gjaldeyrisviðskipti frjáls í samræmi við alþjóðlega þróun í þeim efnum og tryggja þannig að Ísland taki þátt í sókn nágrannalandanna til aukinnar hagsældar og framfara.
    Jafnframt er ríkisstjórninni falið að falla frá sérstökum fyrirvara, sem gerður var af Íslands hálfu við Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992, sem hamlar á móti því að eðlileg tengsl skapist við viðskipta- og fjármálalíf í nálægum löndum.``
    Þetta er, frú forseti, meginefni tillögunnar. Að mati flm. er gildandi löggjöf um gjaldeyris- og viðskiptamál á þann veg að hún geymir allvíðtækar heimildir til þess að auka frelsi í gjaldeyrisviðskiptum. Við teljum að hægt sé að stíga flestöll nauðsynleg skref í þessum efnum á grundvelli þeirra laga með útgáfu reglugerða.
    Efnahagsáætlun Norðurlandanna geymir upptalningu um þær meginbreytingar sem verið er að tala um í þessu efni. Þar er gert ráð fyrir því að Norðurlöndin muni á tímaskeiði áætlunarinnar rýmka heimildir gjaldeyrisreglna hvað varðar:
    1. Kaup á erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða sem fjárfest hafa í erlendum hlutabréfum.
    2. Kaup erlendra aðila á hlutabréfum í innlendum fyrirtækjum og hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða sem fjárfest hafa í slíkum bréfum.
    3. Fasteignakaup erlendis.
    4. Rekstrarlán fyrirtækja í erlendum gjaldeyri til lengri tíma en eins árs.
    5. Lán í innlendum og erlendum gjaldeyri til allt að eins árs til að fjármagna innflutning og útflutning.
    6. Lán gjaldeyrisbanka í erlendri mynt til erlendra aðila.
    7. Heimildir fyrirtækja til að geyma gjaldeyristekjur tímabundið á erlendum reikningi.
    Það er engum blöðum um það að fletta að ákvörðun Evrópubandalagsins um sameinaðan markað frá 1992 hefur skapað alveg ný viðhorf í viðskipta-, efnahags- og atvinnulífi í Evrópu. Það á jafnt við um lönd innan bandalagsins sem lönd utan þess, eins og við Ísland. Öll þessi lönd eiga mikilla viðskiptahagsmuna að gæta.
    Einhver mesta breytingin sem er að verða á efnahagslegu umhverfi Evrópu felst í óhindruðu fjármagnsflæði milli landa og frjálsum bankaviðskiptum og annarri fjármálaþjónustu þvert á landamæri. Íslendingar standa í þessum efnum frammi fyrir nýjum aðstæðum sem kalla á viðbrögð af hálfu stjórnvalda og atvinnulífs. Samkeppnisstaða fyrirtækja getur ráðist af því hversu greiðan aðgang þau hafa að fjármagni og á hvaða kjörum. Það er því þýðingarmikið hagsmunamál íslenskra

atvinnufyrirtækja að þau hafi í þessu efni ekki lakari aðstöðu en keppinautar þeirra í Evrópu. Og margt þarf auðvitað að breytast til þess að svo verði.
    Evrópubandalagið hefur tekið ákvarðanir um framkvæmd þessarar stefnu og einstök ríki. Í þeim efnum hafa líka komið til ákvarðanir sem heimila einstökum ríkjum nokkurra ára aðlögun að þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið. Það er augljóst að við höfum margs konar ávinning af því að tengjast hinum frjálsa gjaldeyrismarkaði, bæði almennan ávinning og eins beinan hag. Við höfum almennan ávinning af því að tryggja íslenskum atvinnufyrirtækjum sambærilega stöðu á fjármagnsmarkaði og helstu keppinautar þeirra í Evrópu. Við höfum almennan hag af því að sníða gjaldeyrisreglur með þeim hætti sem almennt gerist í Evrópu til þess að stuðla hér að betra jafnvægi í efnahagsmálum en verið hefur og verið getur ef við einangrumst í þessu efni.
    En við getum líka haft beinan hag af breytingum á reglum á þessu sviði. Evrópubandalagið lét til að mynda kanna hvaða fjárhagslegan ávinning mætti hafa af aukinni samkeppni í fjármálaþjónustu í framhaldi af samruna á fjármagnsmarkaði í aðildarríkjum bandalagsins. Meginniðurstaðan af þeirri athugun var sú að búast mætti við 10% lækkun á þjónustukostnaði að meðaltali. Það svarar til 0,7% af samanlagðri landsframleiðslu landanna. Niðurstöðurnar bera jafnframt með sér að gera má ráð fyrir enn meiri ávinningi í þeim löndum þar sem fjármagnsmarkaður er skammt á veg kominn á þróunarbrautinni og hefur verið einangraður fram til þessa.
    Ef gert er ráð fyrir að niðurstöður athugunarinnar eigi í grófum dráttum einnig við hér á landi svara fyrrgreindar tölur til þess að á Íslandi væri um að ræða sparnað í lækkun á þjónustugjöldum sem svaraði til um tveggja milljarða króna. Auðvitað eru útreikningar af þessu tagi ekki nein nákvæmnisvísindi, hvorki að því er varðar mat á beinum hagnaði innan Evrópubandalagsríkjanna né heldur yfirfærsla þeirra útreikninga á íslenskt hagkerfi. En eigi að síður gefa þeir til kynna að hafa megi beinan fjárhagslegan ávinning af breytingum sem þessum.
    Það má gera ráð fyrir því að ákvarðanir Evrópuríkjanna um frelsi í fjármagnshreyfingum og fjármálaþjónustu muni leiða af sér miklar efnahagslegar breytingar þegar þeim hefur að fullu verið hrundið í framkvæmd. Og það er sýnt að aukin samkeppni og stærri markaður mun leiða til þess að vextir verða áþekkir um álfuna alla. Ríki Evrópubandalagsins stefna að því að treysta stöðugleika í gengi milli einstakra mynta á grundvelli frjálsra fjármagnshreyfinga. Stefna þessara ríkja byggir á því að fylgt sé jafnvægisstefnu í ríkisfjármálum og peningamálum sem, ásamt stöðugleika í gengi, tryggja að verðbólgu og kostnaðarhækkunum sé haldið í skefjum. Íslendingar hljóta að stefna inn á sömu braut, vilji þeir koma á jafnvægi og stöðugleika í efnahagsmálum. Norðurlandaþjóðirnar hafa, eins og áður hefur komið fram, gert sérstaka tímasetta áætlun

í þessum efnum um það hvernig þær tengjast þeim markmiðum sem sett hafa verið.
    Við höfum á hinn bóginn haft fyrirvara við efnahagsáætlun Norðurlanda að þessu leyti. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur gert þar um fyrirvara og á aukaþingi Norðurlandaráðs á Álandseyjum í nóvember sl. kom fram af hálfu hæstv. fjmrh. að í það sinn var gerður fyrirvari um þær tímasetningar sem efnahagsáætlunin gerir ráð fyrir að því er varðar frjáls gjaldeyrisviðskipti. Endurteknir fyrirvarar bera með sér að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að vera nágrannaþjóðunum samferða í aðlögun að breyttum aðstæðum í evrópsku fjármála- og viðskiptalífi. Þessi fyrirvarastefna er misráðin að mínu mati og hættuleg. Íslensk fyrirtæki í mörgum greinum atvinnulífs eiga líf sitt undir því að geta staðist erlendum keppinautum snúning. Aðgangur að fjármagni á samkeppniskjörum getur ráðið úrslitum í þessu efni. Þess vegna er mjög brýnt að tekin verði ákvörðun um að falla frá þessum fyrirvörum þannig að ljóst sé hver stefna Íslands er í þessum efnum og íslenskt atvinnulíf viti að hverju það getur gengið í þessu efni. Fyrirvarastefnan sem hér hefur komið fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar veldur óvissu um það hvert Ísland er að stefna, veldur óvissu um þær aðstæður sem íslensk fyrirtæki þurfa að búa við á næstu árum. Þessi óvissa er á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég er sannfærður um að hér á hinu háa Alþingi er meiri hluti fyrir því að falla frá fyrirvarastefnunni og taka hiklaust ákvarðanir í samræmi við þá alþjóðlegu þróun sem á sér stað um frelsi í gjaldeyrismálum og hrinda þannig af stað breytingum hér heima fyrir sem tryggi okkur sömu aðstöðu. Á undanförnum árum hefur nokkuð verið unnið í þessu efni. Ég ætla ekki að rekja það í einstökum atriðum en óneitanlega hafa verið tekin skref sem miðað hafa í rétta átt. Af hálfu hæstv. viðskrh. hefur komið fram góður hugur í þessu efni en mjög vantar á að hann hafi komið þeim hugmyndum í framkvæmd. Hann hefur nokkrum sinnum gefið yfirlýsingar um að tilbúin sé tímasett verkáætlun í þessu efni og tilbúin sé reglugerð sem ekki þurfi annað en að undirrita. Eigi að síður virðist stjórnarsamstarfið vera með þeim hætti að hæstv. ráðherra kemur hugsjónamálum sínum ekki fram þótt allar líkur séu á því að meiri hluti sé fyrir þeirri stefnumörkun hér á hinu háa Alþingi og alveg ótvírætt að meðal þjóðarinnar er mikill meiri hluti fyrir þeirri stefnumörkun. Hæstv. ráðherra hefur heldur kosið að beygja sig fyrir þeim þröngsýnu öflum sem ráðið hafa ferðinni um mótun efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar en taka höndum saman við þá aðila hér á Alþingi og annnars staðar í þjóðfélaginu sem vilja hrinda breytingum í framkvæmd.
    Frú forseti. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins frá síðustu helgi var birt mjög athygli vert viðtal við fráfarandi aðstoðarmann hæstv. viðskrh. og leiðtoga ungra jafnaðarmanna. Þar víkur hann einmitt að þessum miklu vandamálum innan hæstv. ríkisstjórnar sem gert hafa það að verkum að hæstv. viðskrh. hefur ekki komið hugsjónamálum sínum í framkvæmd.

Auðvitað vekur það upp spurningar um það hvort raunverulega fylgi hér hugur máli eða hvort hann ásamt öðrum þingmönnum og ráðherrum Alþfl. hafi einfaldlega kosið að beygja sig fyrir afturhaldsöflunum innan ríkisstjórnarinnar sem eru í minni hluta hér á Alþingi og minni hluta meðal þjóðarinnar. En fráfarandi aðstoðarmaður hæstv. viðskrh. segir að núv. ríkisstjórn hafi ekki átt auðvelt með að taka á ýmsum umbótamálum. Sérstaklega segir hann að þetta eigi við um Evrópumálin þar sem samstarfsaðilarnir virðast botna lítið í hlutunum, eins og hann segir, og afstaða þeirra mótast annars vegar af fáfræði um málin og hins vegar af hræðslu og einangrunarhyggju. Sérstaklega tekur aðstoðarmaðurinn fráfarandi fram að þessi lýsing eigi við formann þingflokks framsóknarmanna, sem er í forustu fyrir núv. ríkisstjórn. Um samkomulag innan ríkisstjórnarinnar varðandi málefni fjármagnsmarkaðarins segir fráfarandi aðstoðarmaður að mikið hefði verið deilt um þau. Og síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Í viðskiptaráðuneytinu lægi tilbúin reglugerð sem mundi heimila innlendum aðilum kaup á verðbréfum á erlendum markaði upp að vissu marki. Hana þyrfti ráðherra einungis að undirskrifa til að hún tæki gildi þó ekki væri samstaða um hana innan ríkisstjórnarinnar. Væntanlega yrði hægt að fá samstarfsflokkana til að taka einhver varkár skref í þessa átt en ganga þyrfti miklu lengra. Ég held``, segir aðstoðarmaðurinn fráfarandi, ,,að það sé mjög óæskilegt að þurfa
að nauðga þessu upp á samstarfsaðilana óviljuga. Það er mun betra að þeir flokkar sem telja æskilegt og nauðsynlegt að framkvæma þessi mál taki höndum saman.``
    Hér er talað alveg tæpitungulaust. Hér er verið að fjalla um eitt af þeim atriðum sem hvað mikilvægast er að fjalla um og taka ákvarðanir um.
    Ég vildi mjög gjarnan í þessari umræðu heyra viðhorf hæstv. utanrrh. til þessara verkefna almennt. Ég þykist vita að í því efni sé hann jákvæður, enda hefur ekki neitt annað komið fram af hans hálfu fram til þessa. En hitt er líka nauðsynlegt að skýrt verði hér af þessu gefna tilefni hvað það er sem tefur undirritun á reglugerð sem liggur tilbúin. Er það hæstv. forsrh. sem gerir það? Eru það ráðherrar Alþb. sem gera það að verkum að þessa mikilvægu reglugerð er ekki hægt að undirrita? Ætlar hæstv. viðskrh. að láta afturhaldsöflin í ríkisstjórninni halda aftur af sér öllu lengur? Sættir hann sig við þá stöðu? Hefur hann ekki meiri metnað en svo að hann ætli að láta afturhaldsöflin halda aftur af sér þangað til þess ríkisstjórn er öll? Það væri mjög fróðlegt að fá skýr svör við því og hvaða áform hæstv. ráðherra hefur í þessu efni.
    Með flutningi þessarar tillögu hér, frú forseti, gefst þingmönnum færi á því að gefa hæstv. viðskrh. mjög skýrt umboð um það hvað gera á í þessu efni. Hér gefst tækifæri á því sem fráfarandi aðstoðarmaður hans segir að þau öfl sem hafa vilja til þess að taka á þessu máli geta tekið höndum saman. Við höfum

möguleika til þess nú hér á Alþingi, þau öfl sem hafa þennan vilja, að taka höndum saman, samþykkja þessa tillögu þannig að hæstv. ráðherra hafi alveg skýrt umboð frá Alþingi Íslendinga. Það hygg ég að muni styrkja hann mjög í viðureigninni við afturhaldsöflin innan ríkisstjórnarinnar sem auk þess eru mjög fáfróð um þessi efni, að því er fráfarandi aðstoðarmaður hans segir og upplýsir okkur hér um sem við vissum þó ekki áður.
    En ég vildi gjarnan heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort hann er tilbúinn til þess að verða við þeirri áskorun fráfarandi samstarfsmanns síns að taka höndum saman hér á Alþingi við þau öfl sem vilja styðja að þessu framfaramáli og fá það skýra umboð sem hér gefst kostur á.