Samningur um aðstoð í skattamálum
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lagagildi Norðurlandasamnings um aðstoð í skattamálum á þskj. 868 sem hér kemur frá hv. neðri deild.
    Norðurlönd hafa um langt skeið haft með sér víðtæka samvinnu í skattamálum. Síðan 1972 hefur verið í gildi aðstoðarsamningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um aðstoð í skattamálum. Á árinu 1983 var gerður tvísköttunarsamningur milli sömu landa og aftur á árinu 1987. Þá gerðu þessi lönd auk Færeyja með sér tvísköttunarsamning þann 12. sept. 1989 sem tók gildi 1. jan. 1990.
    Reynslan af þessum samningum hefur verið góð og hafa þeir stuðlað að greiðari samskiptum milli landanna, t.d. vegna tilflutnings vinnuafls og fjármagns þeirra á milli.
    Eins og að framan er rakið hefur aðstoðarsamningur í skattamálum verið í gildi milli fimm Norðurlandanna frá árinu 1972. Á árinu 1988 óskuðu Færeyjar og Grænland eftir því að gerast aðilar að aðstoðarsamningnum. Embættismannanefndir landanna hafa unnið að málinu á nokkrum fundum og náðist samkomulag þeirra í milli á síðasta ári. Aðstoðarsamningurinn milli Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Grænlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar var undirritaður í Kaupmannahöfn 7. des. 1989 og þess vænst að samningurinn verði fullgiltur af
aðildarríkjunum á fyrri hluta þessa árs þannig að hann geti tekið gildi fyrir mitt ár.
    Eins og fram kemur í greinargerð er aðalbreytingin frá gildandi samningi sú að nýi aðstoðarsamningurinn nær einnig til Grænlands og Færeyja.
    Af öðrum breytingum má nefna breyttar reglur um fyrningu, sbr. 14. gr. og nýjar reglur um samtímis skattrannsókn tveggja eða fleiri ríkja þar sem aðildarríkin hafa sameiginlegra eða samtengdra hagsmuna að gæta, sbr. 12. gr. samningsins. Samningurinn gerir, eins og gildandi samningur, ráð fyrir gagnkvæmri aðstoð við rannsókn skattamála og skipti á upplýsingum og aðstoð við innheimtu skatta. Auk þess er gert ráð fyrir að aðstoðað verði við birtingu ýmissa skjala og skipst á eyðublöðum í sambandi við skattamál.
    Samningurinn tekur m.a. til tekjuskatta og eignarskatta bæði til ríkissjóðs og sveitarfélaga, erfða- og gjafaskatta, skatta af vélknúnum ökutækjum, virðisaukaskatts, söluskatts og almannatryggingagjalda.
    Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.