Raforkuver
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 921 um breytingu á lögum nr. 60 frá 4. júní 1981, um raforkuver o.fl. Þetta frv. er flutt til þess að greiða fyrir eflingu orkufreks iðnaðar hér á landi í framhaldi af undirritun yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Atlantsálsaðilanna frá 13. mars 1990 um ásetning að ljúka samningum um nýtt álver.
    Meginefni þessa frv. er í stuttu máli hægt að skipta í fjórar greinar.
    1. Lagt er til að í lög nr. 60 frá 4. júní 1981, um raforkuver, verði bætt heimildum fyrir tvær virkjanir, þ.e. stækkun Búrfellsvirkjunar úr 210 mw. í um það bil 310 mw. og stækkun Kröfluvirkjunar úr 55 mw. í allt að 60 mw.
    2. Lagt er til að sérstök heimild verði veitt til þess að reisa og reka jarðgufuvirkjun til raforkuframleiðslu að Nesjavöllum með allt að 38 mw. afli.
    3. Lagt er til að 2. gr. laga nr. 60 frá 4. júní 1981, um raforkuver, verði umorðuð í heild. Lagt er til að framkvæmdarvaldinu verði settar almennar reglur um röðun framkvæmda sem ráðist af væntanlegri orkunýtingu. Jafnframt verði leitast við að styrkja raforkukerfið og auka öryggi orkuöflunar og orkudreifingar. Í sérstöku ákvæði til bráðabirgða er hins vegar lagt til að lögfest verði tiltekin röð virkjanaframkvæmda, takist samningar um nýtt álver.
    4. Gerð er tillaga um breytingu á lögum nr. 42 frá 23. mars 1983, um Landsvirkjun, og skýrt kveðið á um að Landsvirkjun reisi og reki þær virkjanir sem kveðið er á um í lögunum um raforkuver með þeim breytingum sem hér eru gerðar tillögur um.
    Loks er í ákvæði til bráðabirgða lagt til að Landsvirkjun verði veitt heimild til að verja og taka að láni allt að 300 millj. kr. til undirbúningsframkvæmda á árinu 1990 til þess að unnt verði að sjá nýja álverinu fyrir nægri raforku árið 1994, náist um það samningar. Ég vil vekja athygli þingmanna á því að vegna smávægilegrar villu í útreikningum í fskj. Þjóðhagsstofnunar um þjóðhagsleg áhrif Atlantsáliðjuversins hefur þingskjalið verið prentað upp. Meginbreytingin við þessa leiðréttingu er sú að þjóðhagsleg áhrif álversins og tengdra framkvæmda eru, þegar rétt er metið, nokkru hagstæðari en fram kom í upphaflegri grg. með frv.
    Þetta frv. er flutt í samræmi við viljayfirlýsinguna um álverssamning frá 13. mars sl. en þar er miðað við að reist verði álbræðsla með 200 þús. tonna ársframleiðslugetu er hefji rekstur árið 1994. Áætluð raforkuþörf hins nýja álvers, að meðtöldu orkutapi við flutning orkunnar til iðjuversins, er um 2970 gwst. á ári og aflþörf þess 355 mw. Því lætur nærri að orkuþörf álversins sé um 3 / 4 hlutar af heildarsölu orku á Íslandi um þessar mundir en um 2 / 3 af heildarorkuvinnslu. Miðað við endurreiknaða raforkuspá orkuspárnefndar fyrir forgangsorku og raforkuþörf Atlantsálsiðjuversins verður raforkuþörfin orðin 7360 gwst. árið 1995 og 7630 gwst. árið 2000.
    Athyglisvert er að bera þessar tölur saman við þær

forsendur um raforkumarkað sem voru lagðar til grundvallar virkjunaráformum í frv. til laga um raforkuver árið 1981. Í því frv. var gert ráð fyrir að heildarorkuþörfin gæti orðið um 7500 gwst. árið 1995 en um 9600 gwst. árið 2000. Forsendurnar voru þær að til ráðstöfunar, vegna nýrrar orkufrekrar starfsemi, gætu verið um 2400 gwst. árið 1995 en um 3700 gwst. árið 2000. Það má því segja að með samningunum um Atlantalsálverið takist að fullnægja í meginatriðum fyrrgreindum forsendum fram til ársins 1995. Til þess að fullnægja forsendum áformanna frá 1981 fram til aldamóta þarf hins vegar veruleg skref til viðbótar í orkufrekum iðnaði. Hins vegar hafa, eins og kunnugt er, framkvæmdir til þessa verið mun minni en gert var ráð fyrir þegar raforkuveralögin voru samþykkt árið 1981.
    Nú hafa verið gerðir ítarlegir útreikningar á því hvernig hagkvæmast sé að afla orku til nýs álvers. Í ákvæðum til bráðabirgða í þessu frv. er gerð tillaga um þær virkjanir sem hagkvæmast eru að ráðast í, þ.e. auk Blönduvirkjunar Fljótsdalsvirkjun, stækkun Búrfellsvirkjunar ásamt lokaáfanga Kvíslaveitu og stækkun miðlunar í Þórisvatni, fyrsti áfangi Nesjavallavirkjunar og loks stækkun Kröfluvirkjunar. Hér er í öllum meginatriðum um sömu virkjanaframkvæmdir að ræða og Alþingi samþykkti með þál. um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu 6. maí 1982. Eina beina viðbótin er að með frv. er leitað heimildar Alþingis fyrir fyrsta áfanga jarðvarmavirkjunar á Nesjavöllum sem samkvæmt eðli máls var ekki í þeirri röð virkjana sem ákveðin var í þál. frá 1982. Auk þess er hér svo að sjálfsögðu gerð tillaga um 100 mw. stækkun við Búrfell, eins og reyndar var í þeirri þál. sem ég hef vitnað til.
    Samtals er áætlað að fjárfestingar í raforkukerfinu verði rúmlega 31 milljarður kr. á árunum 1990 til ársins 1995 og að þeim fylgi um 2900 ársverk. Ef ekki yrði um frekari uppbyggingu orkufreks iðnaðar að ræða á þessu tímabili er áætlað að fjárfestingar í raforkukerfinu mundu nema tæplega 5 milljörðum kr. og mannaflaþörfin aðeins 500 ársverkum þessi sex ár. Sannleikurinn er sá að ef ekki kemur til nýr stórkaupandi að orku, eins og nýtt álver, er engin þörf fyrir frekari virkjanir sem umtalsverðar geta talist á þessari öld. Ég
mun nú í örstuttu máli gera grein fyrir þeim virkjanaframkvæmdum sem heimilda er leitað fyrir í þessu frv. en að öðru leyti leyfi ég mér, virðulegi forseti, að vísa til athugasemda og fskj. 1, 2 og 3 með frv.
    Gert er ráð fyrir því að auka afl Búrfellsvirkjunar með því að reisa stöðvarhús neðan við Sámsstaðaklif austan við Búrfellsstöðina, reyndar á sama stað og gert var ráð fyrir í áætlun sem samin var á vegum Fossafélagsins Titan hf. snemma á þessari öld. Má því með sanni segja að með þessari stækkun við Búrfell verði draumur orkuskáldsins Einars Benediktssonar og verkfræðings hans, Sætermoens, að veruleika í bókstaflegum skilningi. Virkjunin mun að hluta til nýta mannvirki núverandi virkjunar, þ.e. stíflu,

inntaksvirki í Þjórsá, veituskurð með stjórnlokum, inntakslón, svonefnt Bjarnarlón, og efri hluta aðrennslisskurðar. Um 300 metra langur aðrennslisskurður liggur að inntaki virkjunarinnar á brún Sámsstaðaklifs. Síðan tekur við ein 420 metra löng niðurgrafin þrýstipípa niður hlíðina að stöðvarhúsi ofan jarðar. Verg fallhæð er 118 1 / 2 metri og er gert ráð fyrir að uppsett afl þessarar virkjunar verði 100 mw. í eini vélasamstæðu. Stofnkostnaður við þessa virkjun með vöxtum á byggingartíma er áætlaður að nema um 4400 millj. kr. og er þá miðað við verðlag í desember 1989.
    Þá er gert ráð fyrir að setja upp seinni vélasamstæðu Kröfluvirkjunar og auka þannig afl virkjunarinnar í 60 mw. Í lögum nr. 21 frá 10. apríl 1974 var veitt heimild til að reist yrði jarðvarmavirkjun við Kröflu með 55 mw. afli til að framleiða raforku. Árið 1975 var samið um kaup á tveimur 30 mw. vélasamstæðum og voru aðrir hlutar virkjunarinnar miðaðir við það að uppsett afl yrði um 60 mw. í þessum tveimur vélasamstæðum. Einungis önnur samstæðan hefur verið í rekstri og hefur virkjunin til þessa því verið rekin með 30 mw. afli þegar mest er. Stofnkostnaðurinn við þessa stækkun er áætlaður tæplega 1400 millj. kr. á verðlagi í desember 1989. Er það mjög lítill kostnaður á hvert viðbótarmegavatt, einfaldlega vegna þess að hin fyrri framkvæmd gerði ráð fyrir þessum umsvifum.
    Þá er hér leitað heimildar til handa Hitaveitu Reykjavíkur að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuvinnslu á Nesjavöllum með allt að 30 mw. afli. Raforkuvinnsla að Nesjavöllum er mjög hagkvæm þar sem hún tengist upphitun á vatni sem síðan er dælt til höfuðborgarsvæðisins. Gufa frá skiljum sem er undir háum þrýstingi knýr gufuhverfil áður en hún er leidd inn á varmaskipta. Það er því ekki gert ráð fyrir að auka upptöku úr þessu jarðhitasvæði vegna raforkuvinnslunnar svo nokkru nemi. Áætlaður kostnaður við þetta raforkuver á Nesjavöllum er um 900 millj. kr. á verðlagi í desember 1989. Áður en sú virkjun verður heimiluð er í þessu frv. gert ráð fyrir því að fyrir liggi samningur um rekstur þessarar nýju virkjunar sem hluta af raforkukerfi landsins.
    Til þess að unnt verði að sjá Atlantsálsiðjuverinu fyrir nægilegri orku veturinn 1994--1995 þarf Landsvirkjun þegar að hefja hönnun og undirbúning framkvæmda, ekki síst við Fljótsdalsvirkjun og stækkun Búrfellsvirkjunar, fimmta áfanga Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og háspennulínur sem tengja eiga þessar virkjanir við raforkukerfið og við hið nýja iðjuver. Með
hliðsjón af þessu er hér tillaga í ákvæði til bráðabirgða í frv. að Landsvirkjun fái heimild til 300 millj. kr. lántöku á þessu ári í því skyni.
    Ákvarðanir um þessar framkvæmdir og um að nýta þessar heimildir verða hins vegar teknar í einstökum atriðum eftir því sem samningum um álverið vindur fram og samþykki til þeirra eingöngu veitt sé raunveruleg samningagerð í sjónmáli. Ég mun nú víkja að undirbúningi og viðræðum um hið nýja álver sem

er í reynd forsenda þeirra virkjunaráforma sem þetta frv. fjallar um.
    Með undirritun viljayfirlýsingar 13. mars sl. náðist mikilvægur áfangi í því þýðingarmikla stefnumáli ríkisstjórnarinnar að nýta innlendar orkulindir, vatnsorku og jarðvarma, til atvinnuuppbyggingar. Í þessari viljayfirlýsingu kemur fram að í álverinu verði notuð nýjasta tækni við framleiðslu og steypu á áli og, sem ekki er síður mikilvægt, nýjustu fullkomnar mengunarvarnir. Bandaríska félagið Alumax mun eiga um 40% hlut í álverinu en sænska félagið Grangers og hollenska félagið Hoogovens Aluminium um 30% hvort um sig. Gert er ráð fyrir að hið ameríska fyrirtæki Alumax annist stjórnun framkvæmda hins nýja álvers. Alls er gert ráð fyrir því að til byggingar álversins þurfi um 2400 ársverk. Þar af má ætla að um fimmtungur verði erlent vinnuafl. Stofnkostnaður við byggingu álversins er áætlaður um 42 milljarðar kr. á meðalverðlagi ársins 1989 og er áætlaður framkvæmdartími við allt verkið 36--40 mánuðir. Við rekstur álversins og nýrra virkjana er gert ráð fyrir 645 ársverkum þegar það er komið í fulla framleiðslu.
    Í yfirlýsingunni er staðfest að gera þurfi samninga á grundvelli heimildarlaga um nýtt álver sem ég mun nú hér greina. Í fyrsta lagi þurfa að takast heildarsamningar milli íslenska ríkisins og Atlantsálsaðilanna um byggingu og rekstur álversins. Í slíkum aðalsamningi yrði kveðið á um starfsréttindi Atlantsálsfyrirtækisins og veittar nauðsynlegar undanþágur frá íslenskum lagaákvæðum, m.a. vegna meirihlutaeignar erlendra aðila að
fyrirtækinu. Í aðalsamningi yrði einnig kveðið á um gagnkvæmar ábyrgðir og fyrirheit aðilanna, aðild Íslendinga að stjórn fyrirtækisins, um lausn ágreiningsmála, um endurskoðun samningsskilmálanna, svo að ég nefni nokkur mikilvægustu atriðin í þessum aðalsamningi. Viðamesta ákvæði heimildarlaganna og aðalsamnings, sem vonandi verður unnt að kynna hér í haust, munu væntanlega taka til skattlagningar en álverið yrði rekið á kostnaðargrundvelli. Því er gert ráð fyrir sérstöku fyrirkomulagi varðandi útreikning og greiðslu tekju- og eignarskatts til ríkissjóðs. Þegar ég segi að gert sé ráð fyrir því að álverið sé rekið á kostnaðargrundvelli er það af því að aðildarfyrirtækin þrjú gera ráð fyrir að reka það sem samlagsfyrirtæki, ekki ólíkt því sem tíðkast um mjólkursamlög og rjómabú á Íslandi.
    Þá er gert ráð fyrir sérákvæðum um gjöld til sveitarfélaga og vissum undanþágum öðrum en þau frávik sem hér er rætt um helgast af sérstöðu fyrirtækisins og þeirri miklu fjárfestingu sem í því liggur. Hins vegar er gert ráð fyrir að álagning skatta og eftirlit með skattgreiðslum yrði í höndum íslenskra skattyfirvalda. Í aðalsamningi hefur verið gert ráð fyrir ákvæðum er varða frekari úrvinnslu áls á Íslandi, þátt Atlantsálsaðilanna í uppbyggingu tækniþekkingar og iðnþróun hér á landi og um aðgang íslenskra fyrirtækja að framkvæmdunum við hið nýja álver.
    Í öðru lagi þarf að takast orkusölusamningur milli Atlantsáls og Landsvirkjunar sem tryggir að

heildartekjur af orkusölu til álversins geri gott betur en standa undir flýtingarkostnaði vegna virkjana. Gert er ráð fyrir að orkuverð verði tengt verði á áli með eðlilegum endurskoðunarákvæðum en að veittur verði afsláttur frá orkuverðinu fyrstu starfsárin.
    Í þriðja lagi hefur verið gert ráð fyrir að Atlantsálsiðjuverið geri samning við hlutaðeigandi sveitarfélög um hafnar- og lóðaraðstöðu fyrir hið nýja álver.
    Í fjórða lagi hafa Atlantsálsaðilarnir lagt áherslu á að samningur um meginskilmála varðandi útblástur og losun efna frá álverinu og aðrar mengunarvarnir verði undirritaður samhliða undirritun aðalsamnings um nýtt álver.
    Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að eigendur Atlantsáls geri ítarlega samninga sín á milli um eignarhald, um rekstur og um fjármögnun álversins. Takist samningarnir í september, eins og að er stefnt, mun ég leggja fyrir Alþingi frv. til heimildarlaga um álverið í október nk. með það fyrir augum að afla samþykkis fyrir lok ársins 1990.
    Meðal þeirra þátta þessa máls sem einna mest hafa verið ræddir er staðsetning hins nýja álvers. Ég ætla mér ekki hér að setja á um það langar ræður en vil þó geta þess að á grundvelli viðræðna við Atlantsálsaðilana hefur verið ákveðið að gera nánari samanburð á stofn- og rekstrarkostnaði álvers á eftirtöldum fjórum svæðum á landinu:
    1. Við Eyjafjörð.
    2. Við Hvalfjörð.
    3. Við Reyðarfjörð.
    4. Á Reykjanesi, og þá á ég við svæðið allt eða strandlengjuna frá Straumsvík að Þorlákshöfn.
    Þessar samanburðarathuganir munu fjalla um fjölmörg atriði önnur en beinan kostnað. Þau munu fjalla um hafnargerð, orkuöflun, efnisflutninga, laun og flutninga á verkafólki, rekstur vinnubúða, kostnað við birgðarými og uppskipunartæki og um áhrif veðurs á framkvæmdir. Þá vega ýmis sjónarmið þungt sem erfitt er að verðleggja, svo sem samskipti við aðila vinnumarkaðarins og sveitarstjórnir og margvísleg umhverfismál. Í iðnrn. hefur verið lögð rík áhersla á það að tryggja að fullnægjandi kröfur um mengunarvarnir og umhverfisvernd verði gerðar til hins nýja fyrirtækis. Í mengunarreglugerð eru m.a. kröfur um loftgæði sem eru afar strangar varðandi brennisteinstvíildi. Hins vegar eru þar ekki kröfur hvað varðar flúor. Hugsanlegt er að á grundvelli reglugerðarinnar verði krafist mismunandi mengunarvarna eftir því hvar álverið er staðsett og fer það eftir staðháttum. Þetta mun ekki síst ráðast af dreifingarspá um loftmengun sem nú er unnið að, m.a. af norsku fyrirtæki eða ráðgjafarstofnun, Norsk Institutt for luftforskning, NILU, sem reyndar hefur nokkra reynslu af slíkum athugunum hér á landi og vann fyrir svonefnda staðarvalsnefnd á árunum 1981--1986. Áformað er að staðsetningin verði að lokum ákveðin þegar þessar samanburðar- og kostnaðarathuganir hafa verið gerðar. Er að því stefnt, eins og fram kemur í viljayfirlýsingu aðila, að taka

staðarvalsákvörðunina í byrjun júnímánaðar. Ég vil ítreka að staðarvalið er órjúfanlegur hluti af heildarsamningum um álverið og af Íslands hálfu verður lögð á það rík áhersla að staðarvalið sjálft stuðli að jafnvægi í atvinnu- og byggðaþróun auk þess sem tekið verði tillit til arðsemis- og umhverfissjónarmiða. En eins og kunnugt er hefur ríkisstjórnin gert um þetta sérstaka samþykkt og er sú samþykkt prentuð orðrétt í grg. með þessu frv.
    Byggðastofnun hefur að beiðni iðnrn. gert athugun á áhrifum nýs álvers á búsetu- og vinnumarkað miðað við staðsetningu í Eyjafirði, á Reyðarfirði eða á höfuðborgarsvæðinu. Þessi greinargerð er birt sem fskj. 4 með frv. Stofnunin
vinnur nú að beiðni iðnrn. að sambærilegri athugun miðað við staðsetningu í Þorlákshöfn, á Suðurnesjum og við Hvalfjörð. Þjóðhagsstofnun hefur fyrir sitt leyti, að beiðni iðnrn., kannað þjóðhagsleg áhrif 200 þús. árstonna álvers sem hér yrði reist á árunum 1991--1994 og tilheyrandi virkjunum eins og fram kemur í fskj. 5 með þessu frv. Niðurstaðan er sú að hagvöxtur á mælikvarða landsframleiðslu yrði um 3% á árunum 1991--1997 ef nýtt álver yrði reist samanborið við um það bil 2% án slíkra framkvæmda. Í einföldum orðum talað munu því þessar framkvæmdir leiða til þess að landsframleiðsla verði rúmlega 5% hærri árið 1997 en hún annars yrði eftir því sem nú verður best séð, eins og nánar greinir í þessu fskj. Í stuttu máli má orða þetta þannig að sá munur sem verið hefur á hagvexti á Íslandi og í þeim löndum OECD sem við berum okkur helst saman við yrði jafnaður. Á undanförnum árum höfum við dregist nokkuð aftur úr þeim löndum en þessar framkvæmdir dygðu til að jafna þau met.
    Þjóðhagsstofnun telur að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna verði um 5% meiri í lok þessa tímabils með álversframkvæmdum en án þeirra og atvinnuleysi um 0,2% minna. Erlendar skuldir munu óhjákvæmilega aukast verulega á framkvæmdarskeiðinu og ná hámarki árið 1994 en fara síðan lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu, verða árið 1994 um 53% af landsframleiðslunni, samkvæmt þessum reikningi. Til samanburðar má nefna að erlendar skuldir í því dæmi sem reiknað er til samanburðar, þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum slíkum framkvæmdum, eru 40% af landsframleiðslunni árið 1994. Þegar þetta er metið er mikilvægt að hafa í huga að þessi skuldaaukning vegna virkjanaframkvæmdanna er að mínu áliti fremur til þess fallin að efla traust á íslenskum efnahag og bæta lánstraust okkar en hið gagnstæða. Ástæðan er sú að verði af þessu höfum við sýnt að við getum laðað hér til samninga erlenda aðila sem eru fúsir til að hætta hér mjög miklu fé án þess að íslensk þátttaka verði í því fyrirtæki. Þetta mun treysta tekjugrundvöll, bæði útflutningstekjur og tekjur almennings í landinu. Það er áætlun Þjóðhagsstofnunar að útflutningsverðmæti afurða álversins yrði um 21 milljarður kr. miðað við meðalgengi bandaríkjadollars árið 1989. Í þessu felst að samanlagður útflutningur áls verður um 21% af

heildarútflutningi okkar árið 1997.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð að sinni um þetta mál, en ítreka nauðsyn þess að heimildir þær til virkjana og undirbúnings þeirra á þessu ári sem farið er fram á í frv. verði veittar. Það er ákaflega brýnt að nauðsynlegur undirbúningur orkusölu til væntanlegs álvers geti hafist á þessu sumri ella missum við eitt ár og lengjum enn það langa hlé sem orðið hefur á eflingu stóriðju í landinu.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. iðnn.