Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Fyrr í þessum umræðum var vikið að húsaleigubótum og spurt um vinnu að tillögugerð um nýskipan þeirra mála. Það er rétt sem fram hefur komið í þessum umræðum að innan fjmrn. er unnið að útfærslu hugmynda um húsaleigubætur. Félmrh. lagði fram hugmyndir og tillögur sem höfðu verið þróaðar í vinnu að húsnæðismálafrumvörpum og þessar hugmyndir og tillögur hafa gengið inn í þá vinnu sem fjmrn. hefur haft sem einn af meginþáttum í endurskoðun laganna um tekjuskatt, en eins og fram hefur komið fyrr á þessu þingi var ákveðið fyrr í vetur að tekjuskattslögin yrðu endurskoðuð með tilliti til aukins jöfnuðar innan laganna sjálfra án þess að um breytingu á skattbyrðinni sjálfri væri að ræða. Ein af þeim hugmyndum sem nefndar voru í því samhengi var að húsaleigubótum yrði beitt sem tekjujöfnunartæki innan ramma tekjuskattslaganna. Ætlunin er að kynna síðan hugmyndir og tillögur í þessum efnum á haustþingi. Vona ég að þetta séu nægilegar skýringar á því hvar á vegi þessi vinna er stödd og hvaða hugmyndir eru um lok hennar á þessu ári.
    Þá hefur einnig verið vikið hér að stöðu byggingarsjóðanna og eins og hv. alþm. er kunnugt hefur það efni verið nokkuð til umræðu á undanförnum árum og m.a. á þessu þingi og verið rætt í tengslum við vaxtaákvarðanir af húsnæðislánum og framtíðarþróun þessa kerfis.
    Það er auðvitað alveg ljóst að það verður eitt af verkefnum á næstu árum að finna viðvarandi farveg fyrir húsnæðisfjármögnunina og staða byggingarsjóðanna í framtíðinni verður eðlilega þáttur í þeirri endurskoðun. Þar koma til greina ákvarðanir um vexti. Þar kemur einnig til greina reynslan af húsbréfakerfinu sem núna er að stíga sín fyrstu spor og þar koma enn fremur til greina ýmsar nýjar hugmyndir sem hafa heyrst á síðustu missirum um nýskipan í húsnæðismálum, hugsanlega breytt samskipti lífeyrissjóðanna og Húsnæðisstofnunar varðandi fjármögnun húsnæðismálakerfisins.
    Þetta verður eitt af stærri verkefnum í íslenskum þjóðmálum á næstu árum og munu allir flokkar og þau þing sem kosin verða hér á næstu árum þurfa að móta sér afstöðu í þeim efnum og ekki við því að búast að á þessu stigi liggi fyrir endanlegar tillögur um þau mál.
    Það verður sérstaklega fróðlegt síðar á þessu ári að sjá hver reynslan af húsbréfakerfinu hefur orðið vegna þess að hún mun hafa þó nokkur áhrif á stærðargráðu þessa vandamáls á næstu árum.
    Ég vænti þess að þetta varpi einnig nokkru ljósi á þau atriði sem óskað var frekari upplýsinga um fyrr í þessari umræðu.